28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það hefur verið minnst á búrekstrarúttekt á Norðurlandi vestra. Mér finnst hún vera mjög svartsýn og óþarflega svartsýn.

Hv. síðasti ræðumaður talaði um það fyrr í dag í umræðunni að það væri verið að hjálpa mönnum til að færa sig í önnur verkefni í landbúnaði. Það er engin trygging fyrir því að þessar ráðstafanir verði til þess að færa menn í önnur verkefni með því að klippa á rótina.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson hélt að við gerðum okkur enga grein fyrir því hvar við stæðum og upplýsti þingheim um það, sem hann vissi, að það eru þrengingar í markaðsmálum sem valda þessum vandræðum. Það þurfti ekkert að segja okkur það, a.m.k. ekki mér. En ég tel að það sé rangt farið að því að vinna sig út úr vandanum. Það má reyndar bæta því við að hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur ekki verið framleiðsluletjandi framan af á þingferli sínum. Ég held það hafi engir verið stórtækari eða meir stórhuga í því að standa fyrir framleiðsluhvetjandi aðgerðum meðan hann var yngri. (Gripið fram í: Björn á Löngumýri.)

Það er ekki verið að grisja byggðina. Það er rangt hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Það er verið að færa byggðina saman vegna þess að jaðarsvæðin hljóta að hrynja.