09.03.1987
Efri deild: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3779 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

405. mál, eftirlit með skipum

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um eftirlit með skipum. Opinbert eftirlit með skipum á sér ekki langan aldur að baki miðað við sögu siglinga í heild. Það var ekki fyrr en á síðari hluta 19. aldar að sú skoðun tók að ryðja sér til rúms með siglingaþjóðum að nauðsynlegt væri vegna almenns öryggis að hafa eftirlit af opinberri hálfu með haffæri skipa. Þessi stefna átti upptök sín í Englandi þar sem fyrstu lagaákvæðin um öryggiseftirlit með skipum voru sett. Síðan hefur þróun orðið sú meðal flestra þjóða að opinbert eftirlit með skipum hefur stöðugt orðið fjölbreyttara og fullkomnara og má segja að það taki nú til hvers konar atriða sem máli skipta um öryggi skipa og mannslífa á hafinu.

Samfara þessu voru settar á fót sérstakar stofnanir þar sem sérfróðum mönnum um skip og siglingar var falið eftirlitið. Þegar siglingaþjóðir höfðu almennt sett sér lög og reglur um eftirlit með öryggi skipa kom brátt í ljós þörf fyrir samræmingu á reglunum. Þær boðuðu því til almennra ráðstefna ríkja þar sem settar voru alþjóðlegar samþykktir um tiltekin atriði sem lutu að öryggi í siglingum.

Þáttaskil urðu í samvinnu þjóða um siglingar og um öryggismál skipa og mannslífa á hafinu með stofnun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, árið 1948, en tilgangur hennar er m.a. að stuðla að því að með alþjóðasamþykktum verði settar reglur eins fullkomnar og tök eru á um málefni er varða öryggi á hafinu.

Fyrstu íslensku ákvæðin um eftirlit með öryggi í siglingum voru sett með lögum nr. 25/1903, um eftirlit með þilskipum sem notuð eru til fiskveiða eða vöruflutninga. Var eigendum slíkra skipa gert skylt að láta skoða skip af tveimur skoðunarmönnum áður en það hæfi fyrstu ferð sína á almanaksárinu. Síðan hafa verið sett allmörg lög um eftirlit með skipum, en gildandi lög um það efni eru frá árinu 1970 ásamt síðari breytingum. Samkvæmt þeim er eiganda skips, útgerðarmanni og skipstjóra skylt að sjá um að lögskipaðar skoðunargerðir fari fram á skipi og því sé haldið haffæru.

Eftirlitsmenn Siglingamálastofnunar ríkisins hafa eftirlit með því að lögum og reglum um öryggi skipa sé fullnægt, en skipaskoðunarmenn stofnunarinnar annast skoðanir. Í lögunum eru ítarleg ákvæði um framkvæmd skoðunar, um smíði, búnað, breytingar og innflutning skipa, hleðslumerki, farbann og siglingadóm. Með lögum nr. 18 frá 1986 var fellt niður ákvæði laganna um rannsóknanefnd sjóslysa, en ákvæðum um hana, skipun nefndarinnar og hlutverk, var skipað í siglingalög.

Með frv. því sem hér er lagt fram er leitast við að færa lagaákvæði um eftirlit með skipum til samræmis við nútímaaðstæður um leið og þau eru einfölduð. Í því skyni eru allmörg ákvæði felld niður sem betur eiga heima í reglugerðum og orðalagi og efnisskipan einstakra greina er breytt. Jafnframt er í frv. leitast við að skýra ýmis atriði með það fyrir augum að auðvelda framkvæmd þeirra og draga úr réttaróvissu. Helstu efnisbreytingarnar eru þessar:

1. Ákvæði frv. eru færð til samræmis við lög um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20 frá 1986, þar sem ýmsar breytingar voru gerðar á skipulagi og starfsemi stofnunarinnar.

2. Ákvæðum um farbann er breytt og skýrar kveðið á hvenær skal leggja farbann á skip.

3. Hert eru ákvæði um ábyrgð skipasmíðastöðva, vélsmiðja og eigenda skipa vegna breytinga á skipum og skil á teikningum og stöðugleikaútreikningi til Siglingamálastofnunar.

Að tillögu nefndar er samdi siglinga- og sjómannalög er lagt til að ákvæði laganna um sjóferðapróf verði felld niður. Heimild til framlengingar á gildistíma haffæriskírteina er eingöngu bundin við frestun aðalskoðunar skips um tiltekinn tíma og í sérstöku tilviki.

Það er trú mín að með frv. þessu séu lagaákvæði um eftirlit með skipum gerð skýrari og einfaldari en nú er. Til þess að framkvæmd þessa eftirlits sé virk er mjög mikilvægt að mönnum sé ljóst hvernig því er háttað, hvaða rétt þeir hafa og hverjar skyldur þeir bera. Enn fremur hvaða viðurlög geta legið við broti á þessum skyldum með því að stuðla að auknu öryggi á hafinu, bæði skipa og sjófarenda.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.