29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

87. mál, verkfall flugvirkja og flugvélstjóra hjá Arnarflugi hf.

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um stöðvun verkfalls flugvirkja og flugvélstjóra í Flugvirkjafélagi Íslands sem starfa hjá Arnarflugi hf., er til staðfestingar á brbl. um sama efni sem gefin voru út 11. júlí á s.l. sumri.

Tilefni brbl. var vinnustöðvun sem félagsmenn í Flugvirkjafélagi Íslands, sem vinna hjá Arnarflugi hf., hófu 10. júlí í sumar. Allar sáttatilraunir reyndust árangurslausar og engar horfur voru á lausn vinnudeilunnar. Hefði deilan haldið áfram hefði hún haft í för með sér stöðvun alls millilandaflugs og innanlandsflugs félagsins, og talið var að verkefni þess, pílagrímaflug frá Alsír, yrði að engu, en flugið átti að hefjast 19. júlí. Í stuttri grg. með brbl. sagði m.a. svo:

„Öllum má vera ljóst að stöðvun farþegaflugs í annasamasta mánuði félagsins, þegar það flytur 2000 manns á viku hverri milli landa og fjölda farþega innanlands, sem flestir eru erlendir ferðamenn, veldur ekki aðeins Arnarflugi hf. óbætanlegu tjóni. Hitt er ekki síður alvarlegt umhugsunarefni að íslensk ferðaþjónusta í heild bíður mikinn siðferðilegan og fjárhagslegan hnekki.

Loks er veruleg hætta á að missir pílagrímaflugsins yrði mikill álitshnekkir fyrir íslenska flugrekstraraðila á alþjóðamarkaði og myndi gera þeim erfitt fyrir síðar meir. Auk þess verður að gera ráð fyrir bótakröfum vegna samningsrofa.“

Við þessi orð sem fylgdu grg. með brbl. vil ég bæta að ég er ekki í minnsta vafa um að hér var rétt staðið að verki. Júlímánuður er mesti ferðamánuður hér á landi og eins og margoft hefur komið fram í ræðu og riti að undanförnu er mikill og vaxandi áhugi á ferðamálum sem atvinnugrein. Verkfall, sem snertir ferðamálin beint, hefði því orðið óbætanlegt áfall fyrir þau, auk þess áfalls sem Arnarflug hf. hefði orðið fyrir.

Samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar voru svo skipaðir í gerðardóminn þeir Jón L. Arnalds hæstaréttarlögmaður, sem jafnframt var formaður dómsins, Guðmundur Magnússon prófessor og Stefán Svavarsson lektor. Þeir skiluðu úrskurði sínum 11. sept. s.l. og eru greidd laun skv. þeim úrskurði.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.