29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um framhald álagningar og innheimtu ýmissa tímabundinna skatta og gjalda sem liggur frammi á þskj. 88. Eins og þingheimi er kunnugt falla ákvæði laga um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, húsnæðisgjald, sérstakt tímabundið vörugjald og sérstakt jöfnunarálag á innflutt hús úr gildi um næstu áramót. Tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir næsta ár gerir engu að síður ráð fyrir að skattar þessir og gjöld verði innheimt á næsta ári með sama hætti og verið hefur. Eigi tekjuáætlunin að standast verður því ekki hjá því komist að framlengja þau lagaákvæði sem gilda um þessa skattheimtu. Reyndar hafa lagafrv. sama efnis verið árviss viðburður mörg undanfarin ár nema að því er varðar húsnæðisgjaldið, sem nú er lagt til að verði fram haldið í fyrsta sinn. Af hagkvæmnisástæðum er nú brugðið á það ráð að sameina í einu frv. nauðsynleg lagaákvæði í þessu skyni.

Ekki er gert ráð fyrir neinum efnisbreytingum frá gildandi lögum í þessum efnum, heldur lagt til að umræddir skattar og gjöld verði innheimt á næsta ári með sama hætti og undanfarin ár. Samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af skattheimtu skv. þessu frv. á næsta ári nemi samtals um 2,7 milljörðum kr.

Í ljósi forsögu þeirrar skattheimtu, sem hér er lagt til að fram verði haldið á næsta ári, þykir mér að svo stöddu ekki ástæða til að fjölyrða frekar um efnisatriði frv. en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.