09.03.1987
Efri deild: 52. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk í B-deild Alþingistíðinda. (3462)

341. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Frsm. meiri hl. félmn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Félmn. hefur haft þetta mál til umfjöllunar um allnokkurt skeið og haldið um það nokkra fundi. Reyndar hef ég ekki átt þess kost að fylgjast með allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í nefndinni einfaldlega vegna þess að ég var á tímabili fjarverandi eins og sumum er væntanlega kunnugt.

Það hafa allmargir verið kallaðir til viðræðna í félmn. um þetta frv. Ég hirði ekki um að lesa þá upp, þeirra er getið í nál. Það kemur að sjálfsögðu fram í nál. að nefndin varð ekki einhuga í afstöðu sinni til frv. og meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með brtt. sem flutt er á sérstöku þskj. Minni hlutarnir gera grein fyrir sínum álitum.

Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga er flutt í tengslum við þau frv. sem hér hafa verið til umfjöllunar og varða þá skattkerfisbreytingu sem þar er gert ráð fyrir. Þetta frv. er afskaplega einfalt í sniðum, örfáar frumvarpsgreinar. Meginbreytingin sem það felur í sér er útsvarsprósentan, prósentan af útsvarsstofni. Í frv. er gert ráð fyrir því, eins og það var lagt fram, að prósentan yrði ekki hærri en 7%, að útsvarið yrði ekki hærra en 7% af útsvarsstofni, en heimild til hækkunar og lækkunar.

Það hafa orðið allmiklar umræður um það hvort þessi 7% væru nægjanlegt hámark til þess að tryggja sveitarfélögunum sambærilegar tekjur og hið eldra kerfi hefur gefið. Um þetta var m.a. fjallað á fulltrúaráðsfundi sveitarfélaganna sem haldinn var í Borgarnesi á dögunum. Þar kom fram, hafði komið fram áður og hefur komið fram síðar að sveitarstjórnarmenn telja 7% ekki nægjanleg til þess að gefa sambærilegar tekjur við það sem eldra kerfið gefur. Á þeim fulltrúaráðsfundi sem ég nefndi var reyndar álit fundarins að útsvarsálagningin ætti að vera alveg frjáls. Það ætti að vera í valdi sveitarfélaganna sjálfra að ákveða útsvarsprósentu án afskipta annarra stjórnvalda.

Niðurstaða um meðferð þessa máls hefur hins vegar orðið sú að atvikaröð um álagningu verði sú sem frv. gerir ráð fyrir en nefndin flytur brtt. við 2. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að útsvarið verði að hámarki 7,5% af útsvarsstofni. Það er brtt. sem nefndin flytur og eina breytingin sem lögð er til af hálfu meiri hl. nefndarinnar að gerð verði á frv. Ákvæði um hækkun og lækkun útsvars eru óbreytt. Það eru engar brtt. gerðar í því sambandi eins og fram kemur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla um þetta frv. frekar. Það hefur í sjálfu sér ekki verið dregið í efa að sú prósenta sem lögð er til með breytingunni, 7,5%, gefi sveitarfélögunum þrátt fyrir allt jafnmikla og meiri möguleika til tekjuöflunar borið saman við hið eldra kerfi.

Undir meirihlutaálitið rita sá sem hér stendur og eftirtaldir hv. alþm.: Valdimar Indriðason, Björn Dagbjartsson og Salome Þorkelsdóttir.