09.03.1987
Efri deild: 52. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3831 í B-deild Alþingistíðinda. (3466)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. félmn. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hl. félmn. sem er að finna á þskj. 796. Eins og þar kemur fram er það frv., sem hér er nú til 2. umr., flutt samhliða þeim frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem hafa verið til umræðu hér í hv. deild í dag.

Hvað varðar heildarálit á þeirri skattkerfisbreytingu sem frv. sem við erum nú að ræða er hluti af vísa ég til þess sem ég hef sagt í umræðunum í dag um hin frv. og eins þess sem fram kemur í nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um þau og endurtek ekki að öðru leyti það sem ég hef við þessa skattkerfisbreytingu að athuga.

Hvað varðar það frv. sem hér liggur fyrir hef ég flutt við það þrjár brtt. á þskj. 797. Brtt. eru gerðar við 2., 3. og 8. gr. frv. og þær miða allar að því að gefa sveitarstjórnum sjálfdæmi um álagningu útsvars og aðstöðugjalda í hverju sveitarfélagi. Samkvæmt þessum breytingum eru sveitarstjórnir ekki bundnar af neinum ákvæðum um hámarksskattlagningu á tekjur eða rekstur í sveitarfélaginu. Þær eru óbundnar af hálfu Alþingis. Telja verður eðlilegt að leggja ákvörðunarvaldið í þessum málum í hendur sveitarstjórna þar sem þær eru kjörnar í almennum kosningum og standa þar skil ákvarðana sinna.

Ég vil taka það sérstaklega fram að þær skattkerfisbreytingar sem eru á ferðinni og þetta frv. er hluti af munu þýða að skerðing á tekjum sveitarfélaganna á næsta ári verði nálægt 900 millj. kr. Og við sem hér sitjum stjórnum ekki sveitarfélögunum í landinu. Ég tel því alfarið rangt að við setjum lög sem fela í sér þvílíka skerðingu á tekjum sveitarfélaganna án þess að við berum ábyrgð á stjórnun og meðferð fjármuna í sveitarfélögunum í almennum kosningum. Þetta eru ein rök fyrir því að ég legg til að 7% hámarkið, sem meiri hl. ætlar að færa upp í 7,5%, verði fellt út úr þessu frv. og sveitarstjórnum gefnar óbundnar hendur með það hvernig þær haga þessari tekjuöflun sinni.

Ég vil láta það koma fram að þetta er einnig skoðun þeirra aðila frá Sambandi ísl, sveitarfélaga sem komu á fund hv. félmn. út af þessu máli og að sveitarfélögin leggja mikla áherslu á að hafa óbundnar hendur í þessum efnum.

Sveitarstjórnir hljóta í tekjuöflun sinni bæði að taka mið af þörfinni fyrir tiltekna þjónustu í sveitarfélaginu og gjaldþoli útsvarsgreiðenda og atvinnurekstrar þannig að við hljótum að gera því skóna að sveitarstjórnarmenn séu færir um að vega og meta tekju- og gjaldahlið sinna fjárhagsáætlana og í stakk búnir til að standa sjálfir skil þeirra í almennum kosningum.

Sú breyting sem tillaga er gerð um við 2. gr. frv. gerir sveitarstjórnum auk þess kleift að leggja á breytilegt útsvar eftir tekjum gjaldenda. Þannig getur sveitarstjórn beitt útsvarinu til tekjujöfnunar en er ekki bundin af ákvæðum laga um að henni beri að leggja sama hundraðshluta á alla íbúa í sveitarfélaginu.

Brtt. við 3. gr. er í eðlilegu framhaldi af því sem hér segir. Fái sveitarstjórnir sjálfdæmi í þessu efni er heimildarákvæði um 10% hækkun eða lækkun útsvara óþarft. Því er lagt til að þetta heimildarákvæði verði fellt út.

Þær breytingar sem ég legg til á þskj. 797 að verði gerðar á þessu frv. eru í samræmi við einróma samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 15. des. 1983 en tillaga að þeirri samþykkt var borin fram af fulltrúum Kvennaframboðsins og var eins og áður segir samþykkt einróma, en hún er svohljóðandi:

„Vegna þeirrar skoðunar sem nú fer fram á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga beinir borgarstjórn Reykjavíkur eftirfarandi tilmælum til félagsmálaráðherra:

1. Ákvæði um álagningu fasteignagjalda verði rýmkuð þannig að sveitarstjórnir fái aukið svigrúm til að veita tekjulitlum hópum afslátt af fasteignagjöldum.

2. Ákvæði um álagningu útsvars verði breytt á þann veg að ákvörðunarvaldið verði algjörlega í höndum sveitarfélaga en ekki takmarkað eins og nú er af ákvæðum um hámarksútsvar og að sami hundraðshluti skuli lagður á alla menn í hverju sveitarfélagi.“

Það er ljóst að það er meirihlutavilji a.m.k. í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir þeim breytingum sem hér eru lagðar til og eftir því sem best verður séð af því sem komið hefur til nefndarinnar um vilja annarra sveitarstjórnarmanna, einnig í öðrum sveitarstjórnum. Með þeim breytingum sem ég geri tillögu um á þskj. 797 legg ég til að frv. verði samþykkt. Verði þessar brtt. ekki samþykktar mun ég sitja hjá við afgreiðslu frv.