09.03.1987
Efri deild: 52. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3832 í B-deild Alþingistíðinda. (3467)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm 2. minni hl. félmn. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Þetta frv. er kannske ekki stórt í sniðum en hefur þó býsna mikil áhrif og það eru margir óvissuþættir varðandi það sem eðlilegt er þegar það snertir þá gífurlegu skattkerfisbreytingu sem er verið að gera. Ég get ekki mælt með samþykkt þessa frv. í óbreyttri mynd. Ég tel hins vegar þær brtt. sem því eru tengdar til bóta, þ.e. annars vegar brtt. meiri hl. félmn. um að færa útsvarsprósentuna þó upp í 7,5%, hámarkið, og hins vegar þá brtt. sem samþykkt var varðandi tekju- og eignarskattinn að færa gjald ríkisins af innheimtu útsvari úr 1% niður í 0,5%.

Ég tel að þrátt fyrir ýmsar skýringar og útreikninga sé fjölmargt enn óljóst um afleiðingar þessa nýja fyrirkomulags fyrir hin mörgu og mismunandi sveitarfélög í landinu. Við í nefndinni fengum, og ber að þakka það, nokkra útreikninga um hin ýmsu sveitarfélög, bæði smá sveitarfélög og kaupstaði, hvernig útkoma þeirra yrði samkvæmt þessum nýju lögum og þar skeikaði vissulega nokkru. Ég þykist vita að það muni vera rétt, sem kom fram í máli hv. frsm. meiri hl. áðan, að sum sveitarfélög muni geta fengið allnokkru hærri tekjur út úr þessu en það er líka alveg eins líklegt að önnur fari verr út úr því og býsna blint í sjóinn rennt þrátt fyrir alla útreikninga um það hvernig lokaniðurstaðan verður.

Aðalmálið er kannske það að Samband ísl. sveitarfélaga og sveitarfélögin í heild hafa afar takmarkað fjallað um frv. en á ráðstefnu í Borgarnesi á vegum sveitarfélaganna komu fram ýmsar efasemdir um það hversu þessi nýja skipan mundi reynast. Hv. frsm. meiri hl. og hv. frsm. 1. minni hl. komu reyndar báðir inn á þetta áðan. Þar var bent á óvissuþætti varðandi það meginatriði er snertir útvíkkun skattstofns þess sem leggja skal á, deilt á þá tilhögun að skerða vald sveitarfélaga til álagningar, enda ábyrgðin þeirra, og eins lýst andstöðu við það að samþykki félmrh. þurfi til að hreyfa útsvarsprósentu frá fjárhagsáætlun.

Sama er að segja um andstöðu við þóknun til ríkisins vegna innheimtu útsvars sem er raunar í öðru frv., segir hér í mínu nál., en brtt. þar um var felld hér áðan, þ.e. að fella þessa þóknun niður með öllu að tillögu hv. þm. Stefáns Benediktssonar þannig að það mál er í raun og veru úr sögunni hér með, a.m.k. í Ed. Það er ljóst að samráð við sveitarfélögin og samtök þeirra hafa verið í lágmarki við allan frágang þessa frv. enda segir í samþykkt fulltrúaráðsfundar Sambands ísl. sveitarfélaga í Borgarnesi 21. febr. s.l., með leyfi herra forseta:

„Að öðru leyti gerir fulltrúaráðið ekki athugasemdir við frv. en það telur miður að undirbúnar séu breytingar á lögunum með þeim flýti sem raun ber vitni um án þess að samhliða séu gerðar víðtækari breytingar á tekjustofnalögunum í samræmi við þær tillögur sem fyrir liggja frá stjórnskipaðri nefnd og athugasemdir sveitarstjórna við þær.“

Að öðru leyti, eins og ég tók fram í upphafi, tengist þetta frv. þeirri heildarskattkerfisbreytingu sem verið er að koma á. Alþb. var við afgreiðslu tekju- og eignarskattsfrv. áðan með veigamiklar tillögur sem miðuðu að því að skattbyrði almennings yrði minni og betri skil yrðu á gróða fyrirtækjanna í landinu yfir til samfélagsins. Þær tillögur voru því miður felldar og batnar frv. ekki við það út af fyrir sig.

Undirritaður vísar til þeirra tillagna, segir svo síðast í þessu nál., sem óneitanlega snerta þetta frv. Ég mun láta það vera þó að vissulega væri ærið tilefni til þess á margan veg að fara nánar út í afstöðu mína til þessa máls og þá fljótaskrift sem hefur verið á því, reyndar eins og þessum málum öllum samtengdum. Ég vil hins vegar láta það koma fram að samkvæmt þeim ágreiningsatriðum eða ádeiluatriðum sem ég hef vikið að get ég tekið undir brtt. frá hv. 1. minni hl. félmn., Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Þær tengjast allar sjálfræði sveitarfélaga um tekjustofna sína. Síðasta tillagan er að vísu um aðstöðugjaldið, þ.e. að 38. gr. falli niður, um hámark aðstöðugjaldsins, en það gildir auðvitað sama um það og útsvarið í raun og veru að þar er ríkisvaldið að setja sveitarfélögunum ákveðin takmörk einnig. Það sama gildir því um það.

Verði þessar brtt. varðandi sjálfræði sveitarfélaganna í þessum efnum ekki samþykktar greiði ég ekki atkvæði með þessu frv. í heild sinni.