09.03.1987
Efri deild: 53. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3838 í B-deild Alþingistíðinda. (3477)

388. mál, lögreglumenn

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi hér fram og verði fært inn í þingtíðindi að fulltrúar Lögreglumannafélagsins vildu sér í lagi koma því á framfæri við nefndina og við hv. þm. almennt að þeir hefðu áhyggjur af og vöruðu mjög við öllum vopnaburði lögreglunnar. Þeir óttuðust mjög þau andsvör sem það kynni að kalla á og vildu eindregið koma aðvörunum varðandi þetta á framfæri við þessa þingnefnd og Alþingi um leið. Ég tel mér skylt að gera þetta. Ég veit að það hefur einungis verið af vangá sem þetta féll niður hjá hv. frsm. því nefndin var sammála um að koma á framfæri við þingheim að greina frá þeim boðum þeirra sem gleggst þekkja til hér að þeir vöruðu við öllum tilhneigingum í þá átt ef það væri meiningin og ætlunin að gera eitthvað slíkt.