09.03.1987
Neðri deild: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3844 í B-deild Alþingistíðinda. (3487)

196. mál, tollalög

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að hér er um viðamikið frv. að ræða í allmörgum greinum og vafalaust hefði verið gott að geta skoðað það nánar en gert hefur verið. En það hefur þó verið til meðferðar í nefndinni í þó nokkurn tíma og hlotið allverulega skoðun. Ég tel þess vegna að það sé rétt að afgreiða þetta frv. þó að menn geti kannske ekki verið fyllilega vissir um að hver einasta grein standist algjörlega prófun reynslunnar eða enn nákvæmari yfirferð en hefur átt sér stað.

Hér er um yfirlitsheildarlöggjöf að ræða sem að mínum dómi hefur skort mörg undanfarin ár og þó nokkuð mikils virði að koma henni nú til skila þó að menn hugsanlega kynnu að þurfa að lagfæra eitthvað í framtíðinni eins og kemur reyndar fyrir um mörg þau lög sem eru til umfjöllunar. Af þessum ástæðum mæli ég í raun með samþykkt þessa frv. með ákveðnum breytingum en hef fyrirvara um að fylgja brtt. sem þegar hefur verið lýst af 1. minni hl. nefndarinnar og eins af meiri hl. nefndarinnar.

Í þessu frv. er eitt atriði sem er ákaflega furðulegt og ég get alls ekki fellt mig við og tel reyndar vanhugsað eða eiginlega vanskapnað. Í frv. er nefnilega gert ráð fyrir því að tollstjórinn í Reykjavík verði jafnframt ríkistollstjóri. Það þýðir að tollstjórar um allt land eiga að vera undirsátar hans og undirsátar tollgæslustjórans í Reykjavík, sem er undirmaður tollstjórans í Reykjavík, sem svo aftur á að vera ríkistollstjóri samhliða eigin embætti. Sem ríkistollstjóri verður tollstjórinn í Reykjavík þá yfirmaður sjálfs sín, en jafnframt er þessum embættismanni í Reykjavík ætlað að vera yfirmaður tollstjóra um allt land þó að hér sé um hliðstæð embætti að ræða. Að því er tollgæslumálin varðar þá er það svo að tollstjórar úti um allt land, sýslumenn sem sagt, sem eru hliðstæðir embættismenn við tollstjórann í Reykjavík, eiga að vera undirmenn undirmanns tollstjórans þar sem tollgæslustjórinn er. Ég tel að þetta sé stjórnunarlegur vanskapnaður en jafnframt er augljóslega verið að draga vald í hendur eins embættismanns í Reykjavík og gera aðra hliðstæða og hliðsetta embættismenn úti á landi að undirmönnum þessa embættismanns í Reykjavík. Menn geta vitaskuld spurt sig þess, ef taka á upp þann hátt að tollstjórinn í Reykjavík sé jafnframt ríkistollstjóri, hvort það sama gæti þá ekki allt eins átt að gilda um skattstjórann í Reykjavík, því að hann væri ríkisskattstjóri. Ég skal ekki draga þann samjöfnuð lengra en hér er ákaflega furðulegur stjórnunarlegur vanskapnaður á ferðinni að mínum dómi og greinileg tilhneiging til þess að draga vald úr höndum embættismanna ríkisins úti um allt land og setja það undir einn hliðstæðan embættismann ríkisins í Reykjavíkurborg.

Hingað til hefur sú regla gilt að yfirstjórn tollamála í landinu væri í höndum fjmrn., við höfum ekki þurft neinn ríkistollstjóra, og þær brtt. sem ég flyt á sérstöku þingskjali og eru í allmörgum liðum eru efnislega um það eitt að yfirstjórn þessara mála sé áfram í höndum fjmrn. eins og verið hefur og ekki sé tekið upp þetta embætti ríkistollstjóra, sem síðan kemur svo annars staðar fram að eigi að vera í höndum tollstjórans í Reykjavík, og heldur ekki gert ráð fyrir því að útvíkka valdsvið undirmanns tollstjórans í Reykjavík þannig að hann sé orðinn yfirmaður hliðstæðra embættismanna við tollstjórann í Reykjavík, nefnilega tollstjóranna og sýslumannanna úti um allt land.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.