09.03.1987
Neðri deild: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3846 í B-deild Alþingistíðinda. (3489)

399. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Virðulegur forseti. Sökum gamallar reynslu veit ég ekki nema það væri skynsamlegt að vara hv. 2. þm. Norðurl. e. við, hann hefur stundum viljað vera viðstaddur umræður um húsnæðismál og þá einkum og sér í lagi þegar rædd eru málefni húsnæðissamvinnufélaganna.

Ég mæli hér fyrir gömlum kunningja, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum. Flm. ásamt mér er hv. 3. landsk, þm., Guðrún Agnarsdóttir.

Frv, gengur út á það að við lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins bætist nýr kafli, IX. kafli, sem fjalli um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt. Efnisatriði þessa frv. hafa áður verið rakin í framsöguræðum fyrir því á tveim síðustu þingum og þarf því ekki að hafa mörg orð þar um. Það er einfaldlega gert ráð fyrir því að þessi húsnæðissamvinnufélög verði tekin inn í lögin og verði hluti af ákvæðum laga um félagslegar íbúðarbyggingar og með nokkuð ítarlegum hætti fjallað um það hvernig húsnæðissamvinnufélögin skuli byggð upp og starfrækt.

Í grg. er fjallað um þetta frv. og farið nokkuð yfir stöðu húsnæðismálanna og stöðu húsnæðissamvinnufélaganna eins og hún er nú á þessum vetrardögum 1987 þegar liður að lokum kjörtímabils hæstv. ríkisstjórnar. En eins og kunnugt er hafa málefni húsnæðissamvinnufélaganna verið meira og minna á dagskrá og meira og minna til umræðu allan þann tíma sem þessi ríkisstjórn hefur setið.

Nú er staðan sú, virðulegur forseti, að milliþinganefnd um húsnæðismál hefur skilað áliti sínu og það liggur fyrir að niðurstaðan þar hvað varðar húsnæðissamvinnufélögin er engin, þ.e. af hálfu hæstv. ríkisstjórnar stendur ekki til að festa nein ákvæði í lög um tilvist húsnæðissamvinnufélaganna og almennar yfirlýsingar milliþinganefndarinnar í þessa veru breyta þar í raun engu um. Skylt er þó að taka fram, og það er reyndar gert hér í grg. með því að birta kafla úr áliti milliþinganefndarinnar, að í umfjöllun sinni virðist nefndin almennt jákvæð gagnvart þessu húsnæðisformi, og vísast þar til grg. á bls. 6.

Niðurstaðan er engu að síður sú að þó að hæstv. félmrh. hafi aftur og aftur lofað mönnum því, heitið mönnum því og fullvissað menn um það að þetta mál væri til skoðunar og athugunar, þá er sandurinn runninn úr stundaglasinu hjá hæstv. ráðh. hvað þetta varðar og ljóst að allar hans yfirlýsingar, sem ná þrjú og fjögur ár aftur í tímann, eru ómerkar orðnar.

Í áliti meiri hl. félmn. neðri deildar Alþingis, í apríl 1986, þegar til meðferðar voru breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins í framhaldi af kjarasamningum það ár, varð það niðurstaða félmn. að fela milliþinganefnd það hlutverk að fjalla um húsnæðissamvinnufélög og fram komið lagafrv. um þau sem þá lá fyrir á þinginu og var 89. mál 108. löggjafarþings. Í hugmyndum frá milliþinganefndinni er lagt til að þetta frv. verði afgreitt sem fyrst og engar athugasemdir við það gerðar. Engu að síður virðist hæstv. ríkisstjórn ekki hafa komið sér saman á nokkurn hátt um meðferð málsins þrátt fyrir þessa niðurstöðu félmn. neðri deildar í apríl 1986 og afstöðu milliþinganefndarinnar, og hlýtur auðvitað að verða að harma það.

Þess er skylt að geta að þetta búsetufyrirkomulag, húsnæðissamvinnufélögin eða búseturéttarfyrirkomulag, er þegar að taka til starfa. Í byggingu er fjölbýlishús inni í Grafarvogi þar sem Búsetafélaginu í Reykjavík var úthlutað lóð og þangað flytja inn eftir u.þ.b. ár eða svo fyrstu íbúarnir sem ætla að búa á grundvelli þessa nýja kerfis. Það er auðvitað með öllu óviðunandi að fólk flytji inn í húsnæði án þess að það fyrirkomulag, sem bygging húsnæðisins er grundvölluð á, hafi sér einhverja stoð í lögum. Slíkt hefur mér vitanlega ekki oft gerst þegar um er að ræða byggingar á grundvelli félagslegs húsnæðiskerfis. Það má nefna að þegar byggingarsamvinnufélög tóku til starfa á sínum tíma voru sett lög um þau. Og yfirleitt hefur lagasetning um félagslegt húsnæði verið á undan en ekki eftir því að framkvæmdir hæfust sem eðlilegt má telja.

Það kom fram andstaða við búseturéttarfyrirkomulagið þegar það var fyrst kynnt og flutt í tillöguformi hér inni á Alþingi. Ein höfuðröksemd gegn því að rétt væri að taka upp þetta húsnæðisfyrirkomulag var að í því fælist þá mismunun gagnvart þeim sem væru að reyna að afla sér húsnæðis á hinum almenna markaði vegna þess að lánshlutfall og skilyrði yrðu mun hagstæðari innan búseturéttarkerfisins. Þess vegna gengi það ekki að hafa án verulegra takmarkana um tekjur eða aðstöðu að öðru leyti fyrirkomulag um húsnæðissamvinnufélög sem opnaði mönnum þannig leið án tillits til tekna inn í hið félagslega íbúðarkerfi. Þessi meginröksemd andstæðinga húsnæðissamvinnufélaganna á sínum tíma er nú hrunin þar sem sáralítill munur yrði á kjörum þeirra sem nytu hinna nýju ákvæða um lán frá Byggingarsjóði ríkisins og svo þeirra sem byggðu eða flyttu inn á grundvelli búseturéttar. M.ö.o.: Það er ekki lengur til staðar neinn umtalsverður munur á lánskjörum á hinum almenna markaði og þeim sem gert er ráð fyrir að stæði til boða aðilum innan húsnæðissamvinnufélaganna.

Ég vil einnig benda á það að kannanir hafa leitt í ljós mikinn stuðning við þetta form byggingarstarfsemi, búseturéttarformið, og reyndar við leiguíbúðir einnig. Það er rangt sem hér hefur stundum verið haldið fram að ungt fólk hafni þessu kerfi og vilji eingöngu einkaeignarréttarfyrirkomulag í húsnæðismálum. Í könnun sem Félagsvísindastofnun gerði meðal ungs fólks kom m.a. í ljós að tæp 15% ungs fólks töldu einmitt byggingu búseturéttaríbúða brýnasta verkefnið á næstunni. Tæp 15% horfa sem sagt fyrst og fremst á þennan valkost sem úrlausn fyrir sig. En til samanburðar má nefna að það voru aðeins tæp 30% sem nefndu nýbyggingu í einkaeign í sambærilegum hópum. Með öðrum orðum þá er víðtækur stuðningur einmitt við þetta tiltekna form innan hins félagslega íbúðarkerfis. Og þegar lagðir eru saman þeir valkostir sem þar kynnu að bjóðast, svo sem eins og búseturéttaríbúðir, leiguíbúðir eða kaupleiguíbúðir, þá er ljóst að almennt nýtur félagslegt húsnæðisform mikils stuðnings og stór hluti ungs fólks horfir til þess í sambandi við úrlausn sinna húsnæðismála, a.m.k. byggingu eða kaup fyrsta húsnæðis.

Það var einnig athyglisvert að í könnun framtíðarnefndar, sem forsrn. gekkst fyrir, töldu 21% framhaldsskólanema og 17% ungs fólks í Verslunarskóla Íslands byggingu búseturéttaribúða brýnasta framtíðarverkefnið. Þar voru samsvarandi tölur um nýbyggingar í einkaeign 42% og 43%. Um þetta má lesa í grg. eftir Jón Rúnar Sveinsson sem birst hefur í Morgunblaðinu og víðar.

Þá má enn fremur nefna að í könnun Húsnæðisstofnunar á s.l. ári, sem hv. alþm. hafa fengið í sitt pósthólf, kom í ljós mjög mikil þörf fyrir leiguíbúðir og að skortur á leiguhúsnæði um allt land er mikill, eða fast að 3000 íbúðum. Í margvíslegum upplýsingum frá sveitarfélögunum í landinu kemur þessi þörf í ljós og í öllum tilvikum, leyfi ég mér að fullyrða, mundu búseturéttaríbúðir koma að sama gagni. Það er ljóst að það kerfi sem fyrir er í dag, þ.e. annars vegar einkaeignarformið og hins vegar verkamannabústaðirnir í sinni hefðbundnu mynd, dugir hér ekki til. Ef svo væri þá væri ástandið ekki eins og raun ber vitni í þessum sveitarfélögum sem horfa til nýrra úrræða til að leysa sín vandamál. Ég held að þetta sé einhver órækasta vísbendingin um að það þurfa að verða breytingar og það þarf að endurskoða allt hið félagslega íbúðarkerfi. Sú staðreynd, að sveitarfélögin vítt og breitt um landið eru þeirrar skoðunar, ætti að nægja mönnum í þessum efnum. Það eru auðvitað forráðamenn sveitarfélaganna sem best þekkja til og fylgjast dag frá degi með ástandi húsnæðismálanna í sínum byggðarlögum.

Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að búseturéttarformið gæti reynst einn vænlegasti kosturinn til að bæta úr ófremdarástandi í húsnæðismálum víða úti um landið. Ég nefni sem dæmi Vestfirði eina, en í ljós kom í þessari könnun, sem ég hef vitnað til, að þar vantar 24 leiguíbúðir á hverja þúsund íbúa. Ég vil enn fremur nefna það að hjá fjölmörgum samtökum og félögum, svo sem samtökum öryrkja, aldraðra, námsmanna og fleiri aðila, sem tekið hafa upp samstarf á sviði húsnæðismála, hefur komið fram víðtækur áhugi á því að búseturéttarformið verði aðgengilegt öllum þessum aðilum. Það er því brýnt, og ekki eftir neinu að bíða, að lögfesta ákvæði um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt.

Mér er að vísu alveg ljóst að ýmis gildandi lagaákvæði um félagslegar íbúðabyggingar þarfnast lagfæringa og það þyrfti að fara fram heildarendurskoðun á þeim hluta húsnæðislaganna. En það er að mínu mati ekki rétt að láta það velkjast lengur fyrir löggjafanum að lögfesta rétt þessa tiltekna búsetuforms vegna þess að byggingar hafa verið hafnar á grundvelli þess, vegna þess að það eru starfandi félagasamtök um þetta form með þúsundir félagsmanna, og það væri eðlilegt að endurskoða þá síðar þau ákvæði sem hér yrðu sett um húsnæðissamvinnufélög og búseturétt með hliðsjón af öðrum breytingum sem kunna að verða gerðar á húsnæðislöggjöfinni.

Ég tel svo ekki ástæðu, herra forseti, til að fara efnislega yfir frv. sjálft. Það hef ég gert og það hefur verið gert hér í framsöguræðum áður og umræðum um þetta mál á þingi. Ég vildi fyrst og fremst gera grein fyrir því hvernig staða málsins er nú á þessum dögum og leggja á það ríka áherslu að ekki er við það unandi að mönnum sé mismunað með þeim hætti að ekki fáist sett löggjöf um félagslegt húsnæðisform af þessu tagi sem þúsundir manna í landinu hafa bundist samtökum um að koma á fót. Mér er stórlega til efs að það standist í raun að mismuna mönnum með þeim hætti að meina þeim aðgang að eðlilegri lánafyrirgreiðslu á grundvelli þess að einhverjir einstakir hv. alþm. hafa horn í síðu þessa tiltekna búseturéttarforms þegar það nýtur jafnvíðtæks stuðnings víða úti í þjóðfélaginu eins og raun ber vitni, þegar sveitarfélögin vítt og breitt um landið horfa til þess sem úrlausnar í húsnæðismálum og þegar fólk hefur bundist félagasamtökum svo þúsundum skiptir akkúrat um þetta tiltekna mál. Þá þarf Alþingi vandlega að huga að því að gild rök þurfa að liggja því til grundvallar að meina þeim aðilum eðlilega aðild að húsnæðislöggjöfinni eins og verið hefur undanfarin ár og yrði áfram ef ekki fæst hér bragarbót á.

Það má ugglaust deila um einstök ákvæði í þessu frv. Það er flutt hér óbreytt eins og það kom frá þeirri nefnd sem samdi það á sínum tíma, nefnd sem hæstv. núv. félmrh. reyndar skipaði en hefur því miður ekki getað nýtt sér störf hennar sem skyldi sökum ósamlyndis í ríkisstjórninni að því er virðist. En það ætti ekki að koma í veg fyrir það að vilji Alþingis, vilji hv. alþm., kæmi í ljós í þessu máli þó að einstakir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hafi ekki náð saman þannig að félmrh. gæti flutt þetta sem stjórnarfrv. Ég teldi þá hv. þm., hvort sem þeir koma úr stjórnarandstöðu eða stjórnarliðinu, menn að meiri ef þeir fylgdu sannfæringu sinni í þessu máli og styddu þetta frv. þó að staða ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar sé eins og raun ber vitni.

Herra forseti. Ég hef þá þessi orð ekki fleiri en legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til félmn.