29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég ætla að víkja hér að þeim tveimur atriðum sem hv. 2. þm. Austurl. og hv. 5. landsk. þm. hafa vikið að. Hv. 5. landsk. þm. innti eftir því hvort ekki væri að mínu mati ástæða til þess að hætta að kalla sérstakt tímabundið vörugjald því nafni og viðurkenna þá staðreynd að þetta er hluti af tekjuöflun ríkisins. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að í tengslum við það frv., sem nú er í undirbúningi um nýja tollskrá, er gert ráð fyrir að breyta samtímis álagningu vörugjalds og fella það í einn farveg, samræmdan farveg og þá hygg ég að þessari ábendingu verði komið í framkvæmd.

Að því er varðar húsnæðisgjaldið, þá er það alveg skýrt að gert er ráð fyrir því að framlag ríkissjóðs til byggingarsjóðanna verði 1300 millj. kr. Það kemur fram í frv. til fjárlaga. Það er það framlag sem sú nefnd, sem samdi frv. að þeirri nýju löggjöf sem nú er í gildi um húsnæðismálin, taldi nauðsynlegt að ríkið legði fram a.m.k. til þess að kerfið stæði undir sér. Þar var hvorki gengið lengra né skemmra en sagði í því áliti að væri nauðsynlegt a.m.k. sem framlag af hálfu ríkisins.

Til þess að standa undir þessu framlagi að hluta til, þá þykir nauðsynlegt að framlengja þessa skattheimtu, húsnæðisgjaldið. Það gefur um 600 millj. kr. sem er hluti af framlagi ríkissjóðs. Því er að sjálfsögðu ekki varið til neinna annarra útgjalda ríkissjóðs, heldur þvert á móti er tekið af annarri skattheimtu viðbótarfjármagn og lagt inn í húsnæðissjóðina þannig að framlagið verður samtals 1300 millj. En það er alveg skýrt og kemur fram í frv. til fjárlaga að þar er gert ráð fyrir að 1300 millj. renni til byggingarsjóðanna.