14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það leynir sér ekki á málflutningi þeirra hv. þm. Alþb. sem hafa talað í þessum umræðum hversu vandræðaleg staða þeirra er og hversu illa þeim gengur að gera nokkra skynsamlega grein fyrir sinni afstöðu í þessu máli. Hér er um að ræða samning sem hefur tekist, samning sem gerður hefur verið til að binda endi á deilu sem staðið hefur alllengi, í tvö og hálft ár eða þar um bil, og eins og lýst hefur verið af hálfu Alþfl. teljum við þetta eftir atvikum vera skynsamlega og góða lausn á þessu deilumáli og persónulega segi ég að þetta er raunar betri lausn en ég bjóst við að okkur tækist að ná.

Við erum orðnir vanir því, sem styðjum vestrænt varnarsamstarf og styðjum aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og styðjum það að eins og sakir standa sé hér varnarlið á vegum þess, að vera kallaðir ýmsum nöfnum og vera borið sitthvað á brýn af hálfu þeirra Alþýðubandalagsmanna sem að öllum jafnaði telja sig meiri og betri Íslendinga en alla aðra. Þess vegna var það einkennilegt að heyra þau orð formanns Alþb., hv. þm. Svavars Gestssonar áðan, að nú þyrfti að skapa víðtækari samstöðu um þessi mál hér. Ég veit ekki hverjir hafa gert meira til að efla sundrungu og óvinafagnað í þessum efnum en þessi hv. þm. og flokkur hans. Ég veit ekki hverjir hafa haft sig þar meira í frammi og það er líka einkennilegt að þegar hann talar um minni hlutann sem sé miklu, miklu stærri en meirihlutamennirnir vilji í rauninni viðurkenna kemur það þvert á allar kannanir sem eru gerðar um afstöðu þjóðarinnar til veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Það er hart fyrir hv. þm. Svavar Gestsson að þurfa að viðurkenna það, en hann verður að gera það samt, að hann er í minni hluta. Og það væri ekki úr vegi að biðja hv. þm. og formann Alþb., sem talar eins og hann gerði áðan, að útskýra fyrir mér nokkur atriði sem hafa verið að velkjast og vefjast fyrir mér að undanförnu og þá ætla ég að vitna í ómengað flokksmálgagn hans þar sem segir á forsíðu 12. sept.: „Herstöðvasamningurinn. Uppsögn lögð fyrir Alþingi. Þingflokkur Alþb. hyggst leggja fram tillögu um uppsögn herstöðvasamningsins og aukið eftirlit þingsins með utanríkisstefnunni.“

Síðan daginn eftir, 13. sept., er önnur fyrirsögn í Þjóðviljanum: „Alþýðubandalagið. Tafarlaus endurskoðun. Öll samskipti við herinn tekin þegar til endurskoðunar. Þingflokkur Alþb. samþykkti í gær að leggja fram á Alþingi í haust tillögu þar sem lögð verði áhersla á tafarlausa endurskoðun á öllum samskiptum við herinn og dregið verði úr ofurvaldi utanrrh. varðandi málefni Bandaríkjahers hérlendis.“ Fyrst á að segja samningnum upp og síðan á að endurskoða hann.

En það er ekki nóg með það. Fyrir fáeinum dögum kom í þessu sama málgagni hv. þm. Svavars Gestssonar tveggja síðna viðtal við hann: „Góðærið til þjóðarinnar“ heitir það, og þar segir með leyfi forseta:

„Hitt vil ég undirstrika að ævintýrapólitík með íslenskt öryggi og sjálfstæði kemur ekki til greina. Áhætta á því sviði verður ekki tekin meðan ég fæ einhverju ráðið á því sviði. En það má vera öllum ljóst að ég tel að öryggi okkar væri betur borgið með öðrum hætti en nú er gert. Ég tel að herstöð á Íslandi sé skotmark en ekki skjól.

Þessi mál verður að leysa á öruggan máta þannig að þjóðin haldi fullri reisn.“

Ég sé ekki betur en að hér reki sig eitt á annars horn. Hvað á hv. þm. Svavar Gestsson við hér? Á hann við það að við eigum að vera áfram í Atlantshafsbandalaginu? Er það, það sem hann segir, að ævintýrapólitík komi ekki til greina? Ég get alveg tekið undir það. Ég tel að sú ævintýrapólitík sem hans flokkur hefur fylgt í þessu efni undir yfirskini hlutleysis komi ekki til greina. Hvað á þessi hv. þm. við þegar þingflokkur hans leggur til einn daginn að varnarsamningnum verði sagt upp, næsta dag að hann verði endurskoðaður og svo nokkrum dögum seinna segir þessi hv. þm. að hér komi sko engin ævintýrapólitík til greina? Vill hv. þm. Svavar Gestsson að við verðum áfram í Atlantshafsbandalaginu? Þessi ummæli hans í Þjóðviljanum gefa verulega ástæðu til að spyrja þeirrar spurningar og þau gera það líka brýnt að hann svari þessari spurningu. Hvað á hv. þm. við? Mér sýnist að innan Alþb. sé nú kannske í fyrsta skipti í langan tíma uppi ágreiningur um utanríkisstefnuna, ágreiningur sem þessum hv. þm. og formanni flokksins tekst kannske ekki að hemja mikið lengur. Og ég spái því að það eigi sitthvað eftir að koma í ljós þar áður en langt um líður.

Mér fannst einstaklega einkennilegt hvernig hv. þm. hafði geð í sér og smekk til að víkja eins og hann gerði að samþykktum Sambands ungra jafnaðarmanna og taldi sérstaka ástæðu til að geta þess að formaður Alþfl. hefði gert ósmekklega árás á SUJ og taldi líka sérstaka ástæðu til að nafngreina formann samtakanna. Mér fannst þetta vera afar ósmekklega fram sett hjá hv. þm. Við erum ýmsu vön í þeim efnum. En eitt skyldi hann gera. Hann skyldi kynna sér, hann skyldi lesa þessar ályktanir. Hann skyldi lesa ályktanir flokksþings Alþfl., sem háð var í Hveragerði 4.-6. okt., og hann skyldi líka lesa söguna og kynna sér hvernig þessi mál hafa verið og hvort hér er eitthvað nýtt á ferðinni. Það hefur verið blæbrigðamunur á afstöðu Sambands ungra jafnaðarmanna og Alþfl. í utanríkismálum. Það er ekki ný saga. Það hefur mjög lengi verið og ekkert nýtt og kemur engum á óvart. Ungir jafnaðarmenn hafa hins vegar fyrir löngu gert sér það ljóst að skoðun þeirra á ekki meirihlutafylgi í Alþfl. Alþfl. er lýðræðislegur flokkur þar sem meiri hluti ræður og það er mikill meiri hluti fyrir öndverðri skoðun.

Að lokum, herra forseti, hefur verið vikið ýmsum orðum að þýðingu og þeim mun sem ýmsir telja að sé á hinum enska texta og íslenska textanum hér og þýðingu ákveðinna orða, svo sem í 4. gr. þar sem stendur: „The provisions of this Treaty and any implementing arrangements concluded pursuant to Article 1“ o.s.frv. Ég fæ ekki betur séð en að eins og þetta er þýtt sé það fyllilega rétt, og ég vek athygli á því sem stendur hér á eftir, „any prior inconsistent law“ sem hefur verið vitnað til hér. Þar segir í íslensku greininni „eldri eða fyrri“ og ég get ekki séð að það sé nokkur skapaður hlutur við þetta að athuga. Ég held að þetta sé rétt gert eins og þetta er hérna. Það má auðvitað um það deila sem stendur efst á bls. 3, orðin „military cargo“, síðan kemur: „between United States and Icelandic“ - það er raunar prentvilla ætti að standa Iceland - „in support of the defence arrangements established pursuant to the Defense Agreement“. Það má auðvitað um það deila hvort hefði átt að þýða þetta frá orði til orðs. En þegar „military cargo in support of the defense arrangements“ er þýtt „flutningar fyrir varnarliðið“ neðst á bls. 2 held ég að það sé ekkert við það að athuga. En þýðingar orka tvímælis og um þær má oft deila. Það sem einum sýnist að betur fari sýnist öðrum að miður fari, en það þýðir ekki að þetta sé rangt. Ég held að það sé ekkert beinlínis rangt eða sem er ástæða til að gera sérstaka athugasemd við annað en sú prentvilla sem ég bendi á. Ég held því að þær athugasemdir sem hér hafa verið gerðar af hv. þm. Alþb. varðandi þetta, án þess að ég fullyrði nokkuð, þetta er mín persónulega skoðun, styðjist ekki við rök.