10.03.1987
Sameinað þing: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3858 í B-deild Alþingistíðinda. (3518)

369. mál, erlent áhættufjármagn

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef borið fram á þskj. 663 fsp. til viðskrh. um nýtingu erlends áhættufjármagns í íslensku atvinnulífi. Fsp. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Munu verða settar reglur á næstunni um rýmkun á rétti manna til þess að afla erlends áhættufjármagns til fjárfestingar í íslensku atvinnulífi?"

Ástæðan fyrir því að ég hef borið fram þessa fsp. er sú að ég tel að eitt brýnasta málið í íslensku efnahagslífi í dag sé að auðvelda íslenskum fyrirtækjum aðgang að erlendu áhættufé í rekstri sínum. Það er tvímælalaust á margan hátt betri kostur en treysta fyrst og fremst á erlend lán eins og verið hefur að langmestu leyti til þessa. Erlend lán auka skuldabagga þjóðarinnar sem er ærinn fyrir og upphæð þeirra vaxta sem af slíkum lánum verður að greiða af útflutningstekjunum á hverju ári er umtalsverður baggi eins og mönnum er kunnugt. Með erlendu áhættufé og erlendri fjárfestingu innan skynsamlegra marka færist áhættan úr landinu, en aukið svigrúm skapast fyrir íslensk fyrirtæki til að byggja upp nýjar atvinnugreinar sem allri þjóðinni gætu komið til góða. Það er því orðið tímabært að velta því fyrir sér hvort ekki beri að rýmka rétt manna, auka frelsi manna til að hagnýta sér erlent fjármagn við uppbyggingu nýrrar atvinnustarfsemi hér á landi.

Ljóst er að það er mikið verkefni fram undan að byggja upp nýjar atvinnugreinar. Við vitum hvernig ástandið er í hinum hefðbundnu atvinnugreinum þar sem vöxtur er orðinn mjög takmarkaður. Þrátt fyrir breytingar á síðustu árum, sem verið hafa mjög til góðs í stjórn peningamála og sem greinilega hafa örvað innlenda sparifjármyndun, má vera ljóst að þessi uppbygging krefst meira fjármagns en unnt er að afla innanlands. Því verður að leita út fyrir landsteinana eftir fjármagni einkum til fjárfestingar, enda má getum að því leiða að aukið eigið fé fyrirtækjanna muni draga úr lánsfjárþörf þeirra og hafa þannig áhrif til lækkunar vaxta.

Við öflun erlends fjármagns eigum við um tvo kosti að velja. Íslendingar geta haldið áfram þeirri stefnu að taka nær eingöngu fé að láni erlendis eða þá freista þess að auka fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi og þá fyrst og fremst á sviði nýrra atvinnugreina. Þegar þetta er virt, en nauðsyn nýsköpunar í atvinnulífinu jafnframt höfð í huga, er ljóst að Íslendingar verða að beina athygli sinni í auknum mæli að erlendri fjárfestingu á sviði nýrra atvinnugreina.

Margar ástæður eru til þess að í þessum efnum hefur lítið verið aðhafst. Þar má m.a. nefna ákvæði í lögum sem takmarka möguleika erlendra aðila til þátttöku í atvinnustarfsemi hér á landi. Varfærin stefna íslenskra stjórnvalda hefur einnig haft sín áhrif í þessu efni. Þó ber að nefna að um umtalsverðar erlendar fjárfestingar hefur verið að ræða á sviði stóriðju, en athuganir í þeim efnum eru enn í gangi.

Ég vil að lokum, herra forseti, um leið og ég beini þessari fsp. til viðskrh. og þá í framhaldi af skýrslu sem hann hefur látið dreifa hér á Alþingi um erlenda fjárfestingu og íslenskt atvinnulíf, leggja á það áherslu að hér er fyrst og fremst spurt um fjármagn til nýrrar atvinnustarfsemi, rýmkun reglna að því er varðar fjárfestingu á því sviði. Jafnframt verðum við að gjalda varhug við því að erlent fjármagn fái rétt til þess að koma inn í þær atvinnugreinar sem byggja á nýtingu íslenskra auðlinda hvort sem er til lands eða sjávar. Það verður að tryggja skilyrðislaust forræði Íslendinga einna yfir slíkum auðlindum og yfir slíkri atvinnustarfsemi.