29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Auðvitað munu stjórnarandstöðuflokkarnir meta afstöðu sína til þessa máls og þessarar fjáröflunaraðferðar með venjulegum hætti, þ.e. hlusta á rök með og móti þegar þetta mál kemur til meðferðar í nefnd.

Það er athyglisvert að íhuga hvernig þróun söluskattsins hefur verið og þá um leið hversu rík sú tilhneiging er þegar einu sinni er búið að bæta tímabundnu gjaldi við svona skatt, eins og þarna var gert til að leysa þessi greiðsluerfiðleikamál, velur ríkisstjórnin nær ævinlega - og þá hygg ég að sé nokkurn veginn sama hvaða ríkisstjórn á í hlut, auðveldustu leiðina, þ.e. að gera hið tímabundna gjald, sem upphaflega átti að vera, varanlegt. Þetta sést afar ljóst þegar litið er á yfirlit yfir söluskattinn sem var upp tekinn árið 1960 og var þá 3%. Söluskatturinn núna frá 1. júlí á þessu ári er 25%. Ég held að þessi þróun sé fyrir löngu komin út í öfgar. Þessi söluskattsprósenta er mjög há, ég hygg hún sé með því hæsta sem þekkist. Og freistingin til að sjá svo til að þessi skattur skili sér ekki allur í vasa innheimtumanna ríkisins, eða ríkissjóðs, vex náttúrlega með hverri prósentu sem þessi skattur hækkar. Fyrir utan það að allir vita hversu hriplekt og handónýtt þetta söluskattskerfi raunar er.

Ég hef því miklar efasemdir um að þetta sé rétt leið. Þetta er auðvitað fljótvirkasta leiðin, má segja. Þegar þarf að grípa til svona skyndiinnheimtu til að bjarga málum eins og þessum greiðsluerfiðleikalánum er þetta tiltölulega fljótvirk leið. En ég held að hún sé ekki mjög virk og ég held að hún sé ekki mjög skynsamleg vegna þess að þetta kerfi er löngu, löngu ónýtt, og um það eru menn nokkuð sammála. Ég held að þetta sé ekki heppileg leið og að þetta séu í rauninni mjög óæskileg vinnubrögð, að afnema aldrei þann skatt sem einu sinni hefur verið á settur. Þessi ríkisstjórn er mjög trú þeirri stefnu að afnema aldrei neitt það gjald sem einu sinni hefur verið á lagt og þess sér merki einmitt núna. Auðvitað geta menn kannske bent á skrautfjaðrir eins og skattinn á ferðamannagjaldeyri sem vissulega var afnuminn á sínum tíma. Það er kannske undantekningin sem sannar þessa reglu. En ég held að hér séum við á hálum ís og hættulegum brautum.