10.03.1987
Sameinað þing: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (3524)

369. mál, erlent áhættufjármagn

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af þessari síðustu athugasemd hefur Alþingi markað stefnu hverju sinni. T.d. var með byggingu og rekstri álversins á sínum tíma heimiluð erlend fjárfesting. Um allar meiri háttar fjárfestingar tel ég eðlilegt í framtíðinni að Alþingi marki stefnu. Í minni háttar fjárfestingum tel ég sjálfsagt að við séum ekki alltaf, Íslendingar, að taka lán hjá öðrum þjóðum heldur mega þá erlendar þjóðir einnig koma með sitt fjármagn sem áhættufjármagn en ekki eiga tryggt að fá allt til baka með ábyrgð íslenska lýðveldisins.