10.03.1987
Sameinað þing: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (3525)

400. mál, fyrirhleðslur á vatnasvæði við Markarfljót

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Á þskj. 727 er fsp. til hæstv. samgrh. um fyrirhleðslu á vatnasvæði við Markarfljót. Hér hef ég leyft mér að biðja um upplýsingar um hvað hafi verið gert til að varna því að Markarfljót brytist út úr farvegi sínum, eins og átt hefur sér stað t.d. á árinu 1984 og oftar. Þar sem um stórfljót er að ræða, sem getur valdið gífurlegri eyðileggingu á mannvirkjum og ræktun ásamt stórfelldum truflunum og erfiðleikum á þeirri einu samgönguleið sem liggur um austurhluta Suðurlands, hef ég beðið um þessar upplýsingar. Fjármagn hefur verið veitt til að leitast við að tryggja að slíkt komi ekki fyrir á komandi árum. Ég veit að fólk sem býr í nágrenni fljótsins hefur af því miklar áhyggjur að eignir og gróðurlönd eru í sífelldri hættu ásamt því að kaldavatnsleiðsla í Landeyjar og í einn stærsta útgerðarbæ landsins, Vestmannaeyjar, er líka í sömu áhættu. Sama má segja um raforkuleiðslu til Vestmannaeyja. Það mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar ef þau mannvirki og leiðslur yrðu fyrir meiri háttar skemmdum. Hér er því mikið í húfi og ástæða til þess að vel sé fylgst með því að halda við varnargörðum og byggja nýja þar sem hætta hefur skapast, enda segir í lögum frá 1932, um samgöngubætur og fyrirhleðslur á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts, í 9. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin skal hafa eftirlit með því að mannvirkjum þeim er gerð verða sé sem best við haldið.“

Og í 1. gr. 4. lið segir svo: „Gerðar skulu nauðsynlegar fyrirhleðslur og önnur mannvirki til varnar gegn yfirvofandi stórfelldum skemmdum á vatnasvæðinu að dómi atvmrh."

Þess vegna spyr ég hæstv. samgrh.:

„1. Hvað hefur verið gert til að fyrirbyggja vatnsflóð og landskemmdir við Markarfljót?

2. Hefur verið gerð áætlun um að halda áfram fyrirbyggjandi aðgerðum við Markarfljót svo að það ógni ekki byggðinni, samgönguleiðum og öðrum mannvirkjum og gróðurlendi í framtíðinni?"