10.03.1987
Sameinað þing: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3862 í B-deild Alþingistíðinda. (3526)

400. mál, fyrirhleðslur á vatnasvæði við Markarfljót

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eftir flóð sem urðu í Markarfljóti í febrúar 1984 og ollu töluverðu tjóni var hafist handa um úttekt á fyrirhleðslum við fljótið. Svæðið var allt kortlagt til að gera samanburð við eldri kort á upphleðslu auranna og færslu farvega og ekki síður til að hafa góðan grunn víð endurskoðun og hönnun garðakerfisins. Í framhaldi af því var gerð áætlun um endurbætur á görðum ofan brúarinnar, en áreynsla er þar mikil á garða sem stýra fljótinu til suðurs og mest hætta á tjóni á landi og vegum ef vatn kemst þar í gegn. Áætlun þessi fól í sér hækkun og styrkingu garða og í nokkrum tilvikum lengingu garða eða byggingu nýrra. Enn fremur vinnslu grjóts umfram það sem þurfti til styrkingar garða þannig að alltaf væri fyrir hendi grjót sem grípa mætti til ef garðar verða fyrir staðbundnum áföllum. Kostnaður við þennan áfanga var áætlaður 8,5 millj. kr. Þar með talinn kostnaður við úttekt og kortagerð. Framkvæmdir eru langt komnar og lýkur á fyrri hluta þessa árs.

Með þeim aðgerðum sem að framan var lýst eru garðar ofan brúar á Markarfljóti taldir í viðunandi horfi. Ný brú á Markarfljót með tilheyrandi vegi og görðum var sett á annað tímabil í langtímaáætlun. Sú brú er áformuð mun neðar en núverandi brú eða vestur af Seljalandi. Er hönnun hennar nú að hefjast.

Ljóst er að staðsetning brúar og garðar þeir sem nauðsynlegir eru vegna brúarinnar munu hafa veruleg áhrif á rennsli fljótsins bæði ofan hennar og neðan. Í tengslum við hönnun brúarinnar verður garðakerfið á þessu svæði tekið til skoðunar og þá mun koma í ljós hvort breytingar eða viðbætur verða taldar nauðsynlegar.