10.03.1987
Efri deild: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3871 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

395. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. félmn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. sem félmn. hefur fjallað um varðar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Meginefni frv. er það að gert er ráð fyrir því að ekki verði lögð stimpilgjöld á veðskuldabréf vegna Byggingarsjóðs verkamanna í sambandi við verkamannabústaði. Reyndar er gert ráð fyrir því eins og verið hefur að kostnaður við þinglýsingar verði greiddur. Hér er ekki um umtalsverðar fjárhæðir að ræða en fjárhæðir þó sem tekjutap ríkissjóðs.

Í grg. með frv. er vikið að því hvert tekjutap ríkissjóðs er vegna niðurfellingar umræddra stimpilgjalda og hirði ég ekki um að lesa það upp. Hv. þingdeildarmenn geta glöggvað sig á því. En sem dæmi er gert ráð fyrir því að frv. hefði í för með sér niðurfellingu stimpilgjalda á árinu 1986 sem svarar 7,7 millj. kr. Greiðslur þessara stimpilgjalda hafa verið umtalsverðar hjá húsnæðiskaupendum vegna húsakaupa. Í grg. er tekið dæmi um 4 millj. kr. íbúð sem er fjármögnuð hugsanlega að öllu leyti með láni. Þá yrði greiðsla stimpilgjalda allt að 60 þús. kr. Þetta eru umtalsverðar fjárhæðir fyrir einstaklinga sem eru við bágan fjárhag að koma yfir sig þaki. Um þetta frv. ætla ég ekki að hafa fleiri orð. Það er í sjálfu sér afskaplega einfalt í sniðum. Flm. frv. eru allmargir hv. deildarmenn og félmn. leggur einróma til að það verði samþykkt.