29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

85. mál, sveitarstjórnarlög

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég þakka Maríu Jóhönnu Lárusdóttur fyrir vandaða ræðu sem vissulega var athyglisverð. Ég tel hins vegar að margir meinbugir séu á þessari tillögu. Ég er fylgjandi því að komið verði á almennum atkvæðagreiðslum í sveitarfélögum og það þarf að setja ákveðna rammalöggjöf um það sem tekur yfir fleiri þætti en hér er greint frá. Ég tel að eins og tillagan er sett fram geti hún verið mjög hamlandi fyrir sveitarstjórnir og fráleitt að skilgreina ekki nánar hvernig að skuli fara.

Það segir í frvgr.: „Sveitarstjórn er skylt að fresta framkvæmdum varðandi þau mál er íbúar óska atkvæðagreiðslu um þar til úrslit atkvæðagreiðslu liggja fyrir.“

Segjum sem svo að einhverjum detti í hug að afla undirskrifta til slíkrar atkvæðagreiðslu. Ég er ekki í vafa um að það yrði létt að fá undirskriftir. Það er mjög létt að fá undirskriftir undir næstum því hvað sem er. En ég vil ekki gera mikið úr því. Hins vegar væri mjög bagalegt fyrir sveitarstjórnir og fólkið í byggðarlögunum ef það væri almennur vilji fyrir því t.d. eða nokkuð góður vilji fyrir því að byggja skóla, sundlaug, íþróttahús o.s.frv. og útboð hefði farið fram, framkvæmdir ættu að fara að hefjast, en síðan kæmi þetta upp á og sveitarstjórn yrði skylt að hverfa frá þessu og jafnframt yrði sveitarstjórn skaðabótaskyld vegna þess að frestunin hefði átt sér stað. Útkoman gæti orðið sú mjög líklega að í atkvæðagreiðslunni yrði tillaga meiri hluta sveitarstjórnar samþykkt og þá hefði það aðeins skeð að frestun hefði á orðið.

Ég sætti mig heldur ekki við að það sé vísað í lýðræði í Svisslandi. Mér er mjög á móti skapi hversu það hefur tekið langan tíma fyrir konur í Sviss að fá atkvæðisrétt og mun það vera enn í einhverjum kantónum að konur hafi ekki atkvæðisrétt. Ég tel það alls ekki til fyrirmyndar og frábið mér að slík dæmi séu nefnd. Hitt er annað að það er margt jákvætt, sem vissulega má sækja til Sviss, á öðrum sviðum.

Í Bandaríkjunum tíðkast svona atkvæðagreiðslur í ríkum mæli og þar eru ákveðnar reglur um hvernig með skuli fara. Ég tel að það mætti í mörgu breyta ákvörðunartöku sveitarstjórna. T.d. held ég, ef það væri mjög ríkur vilji fyrir því hjá sveitarstjórn að byggja skóla, íþróttahús eða sundlaug en fjármunir væru ekki til samkvæmt þeim tekjustofnum sem fyrir hendi væru, að það væri ástæða til að setja í lög, ef sveitarstjórnir eru sammála um að leggja á aukinn skatt, aukna útsvarsprósentu eða mjög aukinn meiri hluti, kannske 8 eða 9 í 9 manna bæjarstjórn, að heimilt sé að gera það. Slík heimild er ekki fyrir hendi í dag. Nefna má fleiri dæmi. En ég tel að það þurfi að setja sérstaka löggjöf um hvernig með skuli fara ef farið er út í svona atkvæðagreiðslur, fyllri en hér er getið.

Ég á heldur ekki von á því að í sveitarfélögum þar sem búa kannske 5000 íbúar og kjósendur eru 2500 eða 3000 mundu sveitarstjórnir neita því að hafa atkvæðagreiðslur eða sveitarfund ef 250 til 300 manns óskuðu eftir því. Mér finnst mjög ólíklegt að það mundi ske. Það gæti verið ástæða fyrir því að skylda menn til að láta slíkar atkvæðagreiðslur eða sveitarfundi eiga sér stað. Það er matsatriði. En ég endurtek að setja þyrfti fyllri reglur um þessi efni.

Ég endurtek þakkir mínar fyrir vandaða ræðu og læt þessu lokið.