10.03.1987
Neðri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3902 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þessi frv. sem er verið að ræða um eru náttúrlega þannig að það er erfitt að átta sig á út í hvað menn eru í sjálfu sér að stökkva. Í fyrsta lagi er það að það er aðeins fram komið í sambandi við skatta launafólks og hitt virðist mér vera raunar í nokkurri þoku hvernig á að framkvæma það, þannig að þó að þessi frumvörp öll verði nú samþykkt er það ljóst að það er margt eftir áður en hægt er að framkvæma það sem stefnt er að. Það hefur að vísu komið fram hjá flestum að staðgreiðslukerfið út af fyrir sig sé til bóta og ég geri ráð fyrir því að það sé rétt. En það eru mörg atriði þarna mjög óljós.

Ég vil minna á það að á 105. löggjafarþinginu, vorið 1984, var samþykkt breyting á stjórnarskrá lýðveldisins. Þá urðu nokkrar umræður um þann aðstöðumun sem er í þjóðfélaginu. M.a. var sagt í grg. með frv., en flm. þess frv. voru formenn allra þáverandi stjórnmálaflokka, með leyfi forseta:

„Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M.a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismunar vegna búsetu gætir helst.“

Í sambandi við þau mál sem við erum að ræða um nú er kjörið tækifæri til þess að efna þau loforð sem gefin voru í þessu tilliti fyrir tveimur árum. Ég hef lesið þetta frv. og ég sé ekki betur en að það hafi annaðhvort gleymst eða það hafi, þegar þessi loforð voru gefin, aldrei verið meiningin að efna þau. Ástandið í þessum málum er þannig, eins og hv. þm. vita, að það er stöðugur straumur fólks hér til höfuðborgarsvæðisins, ekki síst vegna þess að framfærslan er langtum dýrari víða, t.d. hitunarkostnaðurinn. Hann er þrisvar sinnum meiri á Akureyri og hann er meira en þrisvar sinnum hærri á Akranesi og þar í kring en hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef réttlætis ætti að leita og áhugi væri fyrir því að efna gefin heit væri tilvalið að auka persónufrádráttinn á þeim stöðum þar sem framfærslan er meiri en hér. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Ég mun flytja brtt. og útbýta henni á morgun sem mun verða á þessa leið:

„Við 10. gr. Við 1. mgr. A-liðar bætist: Persónuafsláttur samkvæmt þessari mgr. skal þó vera breytilegur eftir sveitarfélögum eða landsvæðum með sambærilegan framfærslukostnað. Skal afslátturinn breytast hlutfallslega í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar í hverju umdæmi tvisvar á ári og skulu breytingar taka gildi 1. janúar og 1. júlí ár hvert, sbr. 121. gr. Hagstofa Íslands reiknar framfærsluvísitöluna skv. þessari mgr. Ráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um útreikning framfærsluvísitölu og persónuafsláttar skv, þessari mgr., skiptingu landsins í umdæmi o.fl.“

Ég vænti þess að þessi tillaga, þegar ég hef útbýtt henni, verði tekin til athugunar í þeirri nefnd sem þetta mál kemur til, fjh.- og viðskn., og það verði séð um það með öðrum hætti en þessum að staðið verði við það fyrirheit sem ég vitnaði í áðan.

Það hafa verið umræður um það, bæði hér í hv. Alþingi og úti í þjóðfélaginu, að það þyrfti að létta eitthvað t.d. á hitaveitum þar sem þær eru að sliga almenning og þar sem húseigendur þurfa að greiða eins og ég sagði, þrefalt, jafnvel fjórfalt meira gjald en er hér og á sumum stöðum úti á landi. En það hefur að ég veit til ekkert gerst í því máli. Það var verið að ræða um áðan af hæstv. fjmrh. og þeim ræðumönnum sem hafa talað hér á undan mér að það þyrfti að laga þetta og hitt en þetta var ekki nefnt þó að þessi mismunur á framfærslu valdi e.t.v. að verulegu leyti þeirri byggðaröskun sem fram fer nú í þjóðfélaginu. Það er eitthvað fleira sem kemur þar til, en þegar tekjurnar eru lægri og framfærslan verulega meiri er eðlilegt að fólk sæki frekar á þá staði þar sem hvort tveggja er, ódýrari framfærsla og hærra kaup.

Það væri hægt að hafa langa ræðu um þetta mál. Ég geri ráð fyrir því að við 2. umr. muni ég fylgja þessu máli betur eftir ef það kemur á daginn að því á ekki að sinna, en því vil ég ekki trúa að óreyndu.