10.03.1987
Neðri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3908 í B-deild Alþingistíðinda. (3569)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Það er eitt þeirra þriggja frv. sem eru á dagskrá deildarinnar í dag og eru samtengd. Í reynd hafa umræður um öll þessi þrjú frv. og þar á meðal um gildistöku staðgreiðslulaga farið fram undir umræðum um frv. til breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt og þakka ég hv. þingdeildarmönnum fyrir að greiða fyrir framgangi málsins með því að ræða frv. á þann veg.

Ég vil aðeins víkja að ræðum hv. þm. sem töluðu í umræðum um frv. til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Hv. 3. þm. Reykv. ræddi nokkuð almennt um ástand og horfur í efnahags- og stjórnmálum og ætla ég ekki að fara út í þá umræðu hér. Hann vék að því að allar lausnir í þeim efnum og þar á meðal í skattamálunum sem hér eru til umræðu væru fengnar að láni frá verkalýðshreyfingunni. Ég ætla ekki að fara út í umræður um þá fullyrðingu, en aðeins varpa þeirri spurningu fram til umhugsunar til hv. þm. hvers vegna verkalýðshreyfingin, þar sem hann á marga vini eða a.m.k. átti, þeim hefur kannske eitthvað fækkað, var ekki tilbúin að lána slíkar lausnir þegar hv. þm. sat í ríkisstjórn. Að öðru leyti ætla ég ekki að gera þetta að umræðuefni.

Hv. 5. þm. Reykv. ræddi hér mikið um þann þátt skattalaga sem ekki er til umræðu í dag og þarf ég því ekki að fara orðum um meginhluta ræðu hans. Hv. 5. þm. Reykv. vék einnig að fullyrðingu formanns Sambands ísl. sveitarfélaga um að frv. væru ófullnægjandi og full af vitleysum, en með því að þessi yfirlýsing formanns Sambands ísl. sveitarfélaga var ekki rökstudd þarf ég ekki heldur að fara neinum orðum um hana.

Hv. 3. þm. Reykv. óskaði eftir því að skipuð yrði sérstök nefnd til að athuga og kanna þessi mál á milli þinga. Það hefur legið fyrir frá upphafi að nauðsynlegt yrði að skoða nýjustu upplýsingar sem fást við álagningu á árinu 1987 með tilliti til þessara nýju laga þannig að þær hefðu verið athugaðar og metnar áður en nýja skattkerfið tekur gildi í ársbyrjun 1988. Það er sjálfsögð og eðlileg vinnuregla sem út frá hefur verið gengið. Ég vil því taka undir þá hugmynd sem hv. 3. þm. Reykv. setti hér fram um skipan nefndar af þessu tagi og hef ákveðið að skipa slíka nefnd og leita eftir tilnefningum þingflokkanna í þá nefnd. Fyrir því verður þingflokkum skrifað svohljóðandi bréf:

„Fjármálaráðuneytið telur mikilvægt að athuga nýjustu upplýsingar sem fást eftir álagningu skatta 1987 áður en staðgreiðslukerfi skatta tekur gildi í ársbyrjun 1988. Fyrir þá sök fer fjármálaráðuneytið þess á leit við þingflokkana að þeir tilnefni einn fulltrúa í sérstaka samráðsnefnd er fylgjast á með og vera til ráðuneytis um framkvæmd nýju skattkerfisbreytingarinnar, þar með talin athugun á væntanlegum lögum með tilliti til álagningar 1987. Formaður nefndarinnar verður Indriði H. Þorláksson skrifstofustjóri.“

Ég vænti þess að með þessu móti verði unnt að hafa eðlilegt og sjálfsagt samráð um þá athugun og skoðun sem hér fer fram. Ég er þeirrar skoðunar að um svo víðtæka breytingu þurfi að takast sem víðtækust samstaða og ég fagna því að hún hefur komið fram hér á Alþingi og vil fyrir mitt leyti greiða fyrir því að hún geti haldið áfram með því að slík nefnd starfi.

Ég ætla þá að víkja í örfáum orðum að því frv. sem hér er til umræðu um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ég hef í framsöguræðu fyrir frv. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt gert grein fyrir meginþáttum þeirra breytinga á skattkerfinu sem eru forsenda þess frv. sem hér er til umræðu. Þeim atriðum eru auðvitað gerð einnig ítarleg skil í athugasemdum með þessu frv.

Staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars skv. frv. þessu nær til almennra launþega og einstaklinga með atvinnurekstur. Staðgreiðsla skatta af tekjum launþega er í höndum launagreiðanda, en einstaklingum með atvinnurekstur ber að reikna sér endurgjald og miðast mánaðarlegar skattgreiðslur þeirra við þær tekjur, þó eigi lægri en þær tekjur sem viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra ákveða. Það staðgreiðslukerfi sem frv. þetta gerir ráð fyrir byggir á tiltölulega einföldum grunni þar sem sömu frádráttarreglur gilda um alla launamenn. Einstaklingsbundin frávik koma til afgreiðslu við eftiráuppgjör þegar framtali staðgreiðsluársins á undan hefur verið skilað. Þá koma skattar á eignir einnig til álagningar. Sérstakir afsláttarliðir, eins og sjómannaafsláttur og húsnæðisbætur, koma til útreiknings utan við staðgreiðslukerfið sjálft. Sama er að segja um barnabætur sem greiddar verða hlutaðeigandi aðilum beint.

Í aðalatriðum gengur kerfið þannig fyrir sig að launþegi afhendir aðallaunagreiðanda sínum skattkort í upphafi árs eða þegar hann hefur störf. Á skattkortinu koma fram persónubundnar upplýsingar um viðkomandi skattgreiðanda, upplýsingar um skatthlutföll og staðfesting ríkisskattstjóra á því að hlutaðeigandi skattgreiðandi eigi rétt á persónuafslætti. Stundi maki launþegans ekki launað starf er heimilt að leggja skattkort hans inn hjá launagreiðanda hins makans og kemur persónuafsláttur tekjulausa makans til frádráttar skatti hins að 4/5 hlutum. Aðeins aðallaunagreiðanda, þ.e. þeim launagreiðanda sem afhent hefur verið skattkort launþegans, er heimilt að draga persónuafslátt frá skatti viðkomandi launþega. Öðrum launagreiðendum ber að innheimta og standa skil á fullum skatti samkvæmt skatthlutfalli án afsláttar.

Þegar laun eru greidd reiknar launagreiðandi skatt af launum viðkomandi og dregur frá persónuafsláttinn og millifærðan persónuafslátt maka ef því er að skipta. Skatturinn skiptist milli sveitarfélags og ríkis í þeim hlutföllum sem lögin gera ráð fyrir og leggjast greiðslurnar inn á tilgreindan reikning eða reikninga í bankastofnunum eða póststöð ásamt skiptingu á innheimtufé staðgreiðslu á milli ríkissjóðs og sveitarfélaga.

Eftir að staðgreiðsluárinu er lokið fer fram endanleg álagning tekjuskatts og útsvars. Kemur þá í ljós hvort munur er á álögðum skatti og þeim skatti sem inntur hefur verið af hendi með staðgreiðslu. Eigi gjaldandi inni eftirstöðvar af staðgreiðslu ganga þær fyrst til skuldajöfnunar á öðrum ógoldnum en gjaldföllnum opinberum gjöldum, en eru ella endurgreiddar með verðbótum og er það nýmæli. Skuldi gjaldandi hins vegar tekjuskatt og útsvar koma þau til innheimtu með verðbótum ásamt öðrum opinberum gjöldum, eins og til að mynda eignarskatti, sem lögð kunna að vera á viðkomandi skattgreiðanda.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efnisatriði frv., en vísa að öðru leyti til athugasemda með því. Það er ljóst að frá sjónarmiði almennrar efnahagsstjórnunar er staðgreiðslukerfi betri kostur en það kerfi sem nú er við lýði. Í breytilegu árferði og hagsveiflum hefur núverandi kerfi yfirleitt virkað andstætt við þær kröfur sem gera þarf til góðs hagstjórnartækis. Staðgreiðslukerfið mun hins vegar stuðla að jafnvægi, draga frá neyslu á þenslutímum og draga úr skattbyrði ef kaupmáttur dregst saman.

Ég vil að lokum geta þess að nokkrar minni háttar lagfæringar voru gerðar á frv. í Ed. Þar var samþykkt að lækka kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga úr 1% í 0,5% af innheimtu útsvari og er þannig komið til móts við óskir sveitarfélaganna í þessu efni.

Ég vil að lokum óska þess, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.