29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

85. mál, sveitarstjórnarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Segja má að það hafi verið til þess mælst af hv. 2. þm. Austurl. að ég mælti örfá orð sem formaður félmn. Ed. Að vísu skánaði að mörgu leyti ágæt ræða hans þegar leið á seinni hlutann. Mér heyrðist í fyrri hluta ræðu hv. þm. að hann léti jafnvel að því liggja að 54. gr. frv. til sveitarstjórnarlaga hefði orðið einhver ásteytingarsteinn á sínum tíma. Því fer víðs fjarri. Það voru allt önnur atriði frv. á þeim tíma sem rætt var um. Ég viðurkenni að tíminn var afskaplega naumur til að fjalla um þetta mál og fundir voru afar fáir. Reyndar kynntu einstakir nefndarmenn sér málið að ég hygg nokkuð ítarlega þótt tíminn væri naumur því að sem betur fer eru hv. alþm. orðnir vanir því að vinna hratt og við skulum minnast þess að frv. til sveitarstjórnarlaga var til meðferðar tvö þing í röð.

En nokkur orð um frv., sem hér liggur fyrir, og hv. flm. María Jóhanna Lárusdóttir hefur flutt góða ræðu, enda þótt ræðan væri að meginhluta til fyrir utan efni frv. Ég þakka henni kærlega fyrir góða ræðu eigi að síður.

Ég tek undir þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram, að það beri að stuðla að auknum áhrifum hins almenna íbúa í sveitarfélögunum. Hins vegar kann það að vera vandmeðfarið. Við skulum hafa í huga að sveitarstjórnir eru kjörnar á fjögurra ára fresti til að ráða að meira og minna leyti málefnum sveitarfélagsins. Það er sem sagt á fjögurra ára fresti sem aðstæður eru til að skipta um einstaklinga í sveitarstjórnum og það er auðvitað gert. Ég hef þá skoðun að það sé varlegt að stofna í of ríkum mæli til reglna sem geta veikt eftir atvikum stöðu sveitarstjórna. Og ég tek undir það, sem hér kom fram, að allar slíkar reglur verða að vera fljótvirkar og það má ekki halda sveitarstjórn í spennitreyju vikum eða mánuðum saman. Það er útilokað. Það þarf að fást lausn með fljótari hætti að ég hygg en hér er gert ráð fyrir.

En með það í huga að æskilegt er þrátt fyrir allt að íbúar sveitarfélags séu ævinlega meðvitaðir um aðgerðir sveitarstjórnar og að lokum séu íbúar sveitarfélagsins sáttir við framkvæmdir og aðgerðir sem stofnað hefur verið til vil ég skoða frekar með hvaða hætti er hægt að koma þarna á skilvirkara og traustara sambandi með það að markmiði að íbúar sveitarfélagsins séu með á nótunum, ef ég má svo að orði komast.

Sem formaður félmn. mun ég örugglega leitast við að stuðla að því að þetta mál fái góða umfjöllun. Við komumst ekki hjá því að afla okkur margvíslegra upplýsinga. Og það vita allir hvað það táknar þegar formaður nefndar lofar því að mál fái góða og ítarlega umfjöllun.