10.03.1987
Neðri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (3572)

341. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil varðandi ummæli hæstv. fjmrh. um efnahagsmál, húsnæðismál og skattamál í tíð þessarar ríkisstjórnar ekki vera að hefja almennar pólitískar umræður. Aðeins benda á að skýringin á því að komið var fram með till. um lausnir á ýmsum vandamálum í tíð núverandi ríkisstjórnar kann að hafa verið sú að menn hafi talið óhjákvæmilegt að leysa ýmislegt og breyta til um stefnu í efnahagsmálum, húsnæðismálum og skattamálum frekar en að þörf hafi verið á því áður. En að öðru leyti tel ég mjög mikilvægt að hæstv. fjmrh. hefur gefið þá yfirlýsingu að hann muni skipa nefnd með fulltrúum flokkanna á Alþingi til að fara yfir þessi mál áfram. Það auðveldar meðferð málsins á Alþingi og auðveldar sérstaklega þingflokkunum að taka á þessu máli núna. Það var varla hægt að ætlast til þess að flokkarnir afgreiddu mál af þessum toga á nokkrum sólarhringum og því jákvætt að þeir skuli fá tækifæri til þess með formlegum hætti að hafa áhrif á þróun þessara mála á komandi mánuðum hvernig sem mál skipast um stjórn landsins eftir kosningarnar.