10.03.1987
Neðri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (3574)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Það er 346. mál þingsins á þskj. 810.

Við gerð kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna í desember s.l. voru skattamál til umræðu. Ríkisstjórnin gaf þá fyrirheit um að frv. um staðgreiðslu beinna skatta yrði lagt fram á því þingi er hún situr þannig að unnt verði að taka upp staðgreiðslu beinna skatta í ársbyrjun 1988. Í tengslum við frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á lögunum um tekjustofna sveitarfélaga. Meginbreytingarnar sem lagðar eru til í þessu frv. felast í breyttu fyrirkomulagi við álagningu útsvara og við innheimtu þeirra. Einnig þótti rétt að gera nokkrar breytingar á ákvæðunum um innheimtu aðstöðugjalda.

Í frv. er lögð til sú meginbreyting að stofn til álagningar útsvars verði hinn sami og tekjuskattsstofn samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981 með þeim breytingum sem nú eru lagðar til í frv. til laga um breytingar á þeim lögum. Þetta hefur í för með sér verulega hækkun á útsvarsstofninum. Ef miðað er við árið 1986 var útsvarsstofninn 57 milljarðar 953 millj. kr. Með þeim breytingum sem nú eru lagðar til er talið að hann hefði orðið 64 milljarðar 737 millj. kr. Álagt útsvar 1986 var 5 milljarðar 373 millj. kr. Ef miðað er við 33,5% hækkun launa milli áranna 1985 og 1986 hefði útsvarsstofninn samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi orðið 86 milljarðar 424 millj. kr. Útsvarið sem álagt var 1986 hefði verið um 6,22% af útsvarsstofninum í staðgreiðslu.

Með tilliti til þessa er lagt til að hundraðshluti útsvara verði lækkaður annars vegar úr 11% í 7,5% og hins vegar úr 3% í 2% vegna barna. Þegar frv. var lagt fram í Ed. var gert ráð fyrir að útsvarsprósentan væri 7%, en í meðförum deildarinnar var þetta hækkað í 7,5% og er þannig komið til móts við nýjar upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun að nokkru.

Þrátt fyrir ákvæði um hámarksálagningu útsvara er gert ráð fyrir að sveitarfélögin hafi sömu möguleika til viðbótarálags og áður, þ.e. 10%. Sjálfstæði sveitarfélaga og möguleikar þeirra til að ráða eigin tekjustofnum er því á engan hátt takmarkað frá því sem verið hefur. Lagt er til að félmrh. ákveði með reglugerð árlega nýtingu álagningarhlutfallsins og sú ákvörðun verði tekin að fenginni umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga og með tilliti til áforma sveitarfélaga um útsvarsálagningu á komandi ári. Miðað er við að reglugerð verði gefin út fyrir 15. nóvember ár hvert vegna ákvörðunar um álagningu og innheimtu í staðgreiðslukerfi árið eftir. Hver sveitarstjórn ákveður síðan við afgreiðslu fjárhagsáætlunar hver endanleg álagningarprósenta verður.

Herra forseti. Ég mun ekki rekja hér frekar efni þessa frv., en vísa til grg. með því og framsöguræðu minnar í Ed. Staðgreiðslukerfið og þær breytingar sem hér eru lagðar til í sambandi við tekjustofna sveitarfélaga munu hafa þann meginkost í för með sér að tekjur sveitarfélaga af útsvörum verða verðtryggðar sem aldrei hefur verið áður. Þetta er mjög þýðingarmikið því að útsvörin eru meira en helmingur af skatttekjum sveitarfélaganna og þessi tekjustofn hefur rýrnað mikið á verðbólguárum.

Útreikningar hafa verið gerðir á því hvernig hið nýja kerfi hefði reynst sveitarfélögunum miðað við s.l. fjögur ár. Þar kemur fram að sú hámarksprósenta sem lögð er til í frv. hefði öll árin gefið sveitarfélögunum nokkru rýmri möguleika á útsvarstekjum en núverandi kerfi gerir. Ég hef í fórum mínum útreikninga á 54 sveitarfélögum sem sýna þetta í nákvæmri útfærslu og miðað við það sem hér er lagt til ættu tekjur sveitarfélaga að aukast allverulega.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að því frv. sem ég hef hér gert grein fyrir verði vísað til 2. umr. og hv. félmn. að lokinni þessari umræðu.