29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

85. mál, sveitarstjórnarlög

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flm. ánægjulega hugvekju og fróðlega. Varðandi það mál sem hér er til umræðu er ég fyrir mitt leyti sammála þeirri hugsun sem liggur að baki tillögunni, en á hinn bóginn tel ég óþarft í okkar þjóðfélagi að binda þessa hugsun svo rammlega í lög. Ástæðan fyrir því er sú að í litlu þjóðfélagi eins og okkar er meiri samvinna og meira samstarf, meira samband á milli manna en í mörgum stærri þjóðfélögum og einmitt þess vegna er minni ástæða en víða annars staðar til að hnýta svo ramma hnúta í lög.

Það er jákvætt að gera okkar stjórnkerfi eins lýðræðislegt og mögulegt er, en það má þó ekki gera það flóknara en það er ef ekki er ástæða til þess. Ég tel að ekki sé ástæða til að flækja stjórnsýsluna eins og þessi lagabreyting ber með sér. Ef 1/10 hluti kjósenda óskar atkvæðagreiðslu um mál er það nú svo í okkar þjóðfélagi, þar sem samstarfið og samskiptin eru mikil, að það er mjög einfalt að vera með sífelld uppþot, ef svo má að orði komast, um alls kyns mál, búa til mál. Við vitum að Íslendingar taka snaggaralega á og eru að því leyti óbilgjarnir. Þess vegna teldi ég að þetta fyrirkomulag mundi skapa óþarfa ófrið í byggðum.

Æskilegt er að það sé ákveðið jafnvægi, ákveðin kyrrð og með eðlilegum titringi í stjórn hverrar byggðar, en það er ekki æskilegt að fámennir hópar geti haft möguleika til þess með lagaákvæði að efna til sífelldra uppþota. Lítil þjóð, sem þarf að vinna mikið fyrir lágum launum, þarf að hugsa um marga þætti í þessum efnum. Þessi þjóð gerir miklar kröfur. Við þurfum því að horfast í augu við að vera ekki að búa til nokkrar sveitarstjórnir innan einnar. Þess vegna finnst mér tillagan að þessu leyti óþörf. Grunnhugsunin er rökrétt, en við höfum alla þessa möguleika til staðar í sveitarfélögum með eðlilegum skilningi og sambandi á milli manna. Við höfum mörg fordæmi fyrir því að það er fjallað um mál á svipaðan hátt og hér er gert ráð fyrir, en það er auðvitað bundið við samningaleið. Þarna er um að ræða hluti sem eru alltaf samningaleið hvort sem við erum að tala um sex vikna tímabil lágmark eða fjögurra ára. Fyrst og fremst vil ég undirstrika að mér finnst óþarfi að gera okkar stjórnsýslukerfi flóknara en það er.