11.03.1987
Sameinað þing: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3962 í B-deild Alþingistíðinda. (3603)

Skýrsla um utanríkismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Mér finnst einkennilega að þessum málum staðið af forustumönnum þingsins, ég verð að segja það. Hér er í gær frestað umræðu um utanríkismál sem boðað hafði verið að yrði á þriðjudegi. Þessi skýrsla hæstv. ráðh. kemur fram undir lok þingsins og hefði auðvitað verið í lófa lagið að hún kæmi fram í þinginu áður. Hér er verið að rjúfa í annað sinn þingfund, umræðu um þetta mál, áður en fulltrúar einstakra þingflokka hafa fengið að taka þátt í umræðunni og að því er virðist til þess að koma hér fram atkvæðagreiðslum og öðru og síðan að færa þessa umræðu fram á kvöld og kannske fram á nótt. Ég finn að þessum vinnubrögðum. Ég tók drjúgan tíma í umræðu áðan og gerði það vissulega í trausti þess að aðrir ættu kost á að tala í málinu án þess að kæmi til tafa af þessu tagi eða rofi á fundum um svo mikilvægan þátt sem umræða um utanríkismál er.

Ég sé ekki annað en þm. stjórnarliðsins geti alveg eins verið hér að störfum í kvöld og nótt til að taka á þeim málum sem verið er að boða að eigi nú að koma til umræðu. Mér finnst hálfgerð vanvirða við hæstv. utanrrh. að fara svona með umræðu um þetta mál og hlýt að gera athugasemd við það þó ég hafi fengið að taka þátt í umræðunni fyrr í dag og ætlaði ekki að blanda mér í hana frekar. Ég verð að segja að mér finnst afar undarlega að máli staðið af hálfu forustu þingsins og geri mínar athugasemdir við það.