11.03.1987
Sameinað þing: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3964 í B-deild Alþingistíðinda. (3608)

317. mál, Egilsstaðaflugvöllur

Frsm. allshn. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur fjallað um till. til þál. um framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli og varð nefndin sammála um að mæla með samþykkt till. Till. er þess efnis að heimila ríkisstjórninni að láta nú þegar hefja undirbúning og forvinnu vegna nýrrar flugbrautar á Egilsstaðaflugvelli. Skal með verk þetta farið eftir tillögum flugmálanefndar. Stefnt skal að því að framkvæmdir hefjist á árinu 1987. Ríkisstjórninni er heimilt í þessum tilgangi að taka lán allt að 60 millj. kr., eins og segir í þessari tillgr.

Tillaga flugmálanefndar var að byggja nýja flugbraut vestan við núverandi braut, nær Lagarfljóti, en sú braut er talin mun öruggari vegna betra aðflugs auk þess sem hægt er að nota núverandi braut á meðan á þeim framkvæmdum stendur þannig að ekki þarf að fella niður flug til Egilsstaða á meðan ný braut er byggð. Egilsstaðaflugvöllur er mjög mikilvægur flugvöllur í samgöngukerfi Austurlands. Nefndin, sem fékk til viðtals við sig þá Pétur Einarsson flugmálastjóra og Jóhann Jónsson framkvæmdastjóra flugvalla, varð eins og fyrr segir sammála um að mæla með samþykkt þessarar till.