11.03.1987
Efri deild: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3978 í B-deild Alþingistíðinda. (3641)

420. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 54 frá 6. apríl 1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, sbr. lög nr. 41 6. maí 1986. Hér er um litla breytingu að ræða: Aftan við 3. mgr. 5. gr. laganna bætist, þ.e. um dráttarvaxtatöku, að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að víkja frá þessari dráttarvaxtatöku ef um sérstaka félagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara. Nánari ákvæði um þetta atriði skulu sett í reglugerð.

Ég þarf ekki að lýsa þessu. Það kemur fram í athugasemdum með frv. Þetta er gert til þess að gefa möguleika á að taka tillit til þessara erfiðleika hjá þeim meðlagsgreiðendum sérstaklega sem eru t.d. með 4-10 börn á framfærslu og skulda háar fjárhæðir. Það er verið að reyna að milda þetta en stjórn stofnunarinnar telur sig ekki hafa lagarétt til þess að beita slíkum samningum þar sem lögin gera fortakslaust ráð fyrir að dráttarvextir skuli teknir og á lagðir. Ég hef rætt um þetta við alla forustumenn þingflokkanna hér á Alþingi og það varð samkomulag um að gera þessa litlu breytingu á lögunum af þessum sökum og hleypa því hér í gegnum afgreiðslu þingsins á þeim stutta tíma sem eftir lifir. Þess vegna skal ég ekki hafa um þetta lengra mál en óska þess að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og félmn.