11.03.1987
Neðri deild: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3980 í B-deild Alþingistíðinda. (3652)

316. mál, flugmálaáætlun

Frsm. samgn. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Samgn. Nd. Alþingis hefur að undanförnu fjallað um frv. til l. um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum.

Á fundi nefndarinnar komu Pétur Einarsson flugmálastjóri, Jóhann H. Jónsson skrifstofustjóri, Ragnhildur Hjaltadóttir deildarstjóri, Birgir Guðjónsson deildarstjóri og Leifur Magnússon framkvæmdastjóri.

Fyrir nefndinni lá að fjalla um fyrrgreint frv. sem byggt er á tillögu flugmálanefndar, sem kölluð hefur verið, er skipuð var af samgrh. þann 6. febr. 1984. Nefndin skilaði frá sér ítarlegri skýrslu í október 1986. Álit nefndarinnar telur um 130 bls. og með því fylgja þrír viðaukar.

1. Nákvæm kostnaðaráætlun fyrir hvern einstakan flugvöll.

2. Skýrsla um könnun meðal innanlandsfarþega allra félaga á árinu 1985.

3. Skýrsla um áhrifavalda um framtíðarþróun flugumferðar.

Verkefni nefndarinnar voru samkvæmt skipunarbréfi eftirfarandi:

Nefndin semji áætlun um almenna flugvelli sem taki til framkvæmda við flugbrautir, tækjageymslur, flugskýli og flugstöðvar. Enn fremur var nefndinni falið að fjalla um flugvöll á Egilsstöðum og um flugstöð á Reykjavíkurflugvelli og um stað fyrir varaflugvöll á Íslandi vegna millilandaflugs.

Í því lagafrv. sem hér liggur fyrir er nær eingöngu fjallað um almenna flugvelli og framkvæmdir tengdar þeim.

Fjórir meginþættir koma fram í áliti flugmálanefndar.

Í fyrsta lagi leggur nefndin til að íslenskir flugvellir verði flokkaðir í fimm flokka. Beitt verði alþjóðlegri skilgreiningu og fylgt alþjóðlegum stöðlum alls staðar sem því verður við komið og landfræðilegar ástæður hamla ekki og reynt verði að fylgja alþjóðlegum tilmælum til hins ýtrasta. Með þessu hefur nefndin tekið af skarið um það hvernig byggja eigi íslenska flugvelli, en til þessa dags hefur vantað eina ákveðna stefnumörkun í þeim málum.

Í öðru lagi hefur nefndin lagt til hvaða útbúnaður skuli vera á flugvöllum. Í 30 atriðum hefur verið sundurliðað hvers konar búnaður skuli vera á áætlunarflugvöllum og lendingarstöðum.

Þá hefur nefndin í þriðja lagi gert tillögur um forgangsröðun framkvæmda á flugvöllum. Þau atriði eru tíu talsins og er byggt á sameiginlegri niðurstöðu frá öryggisnefnd Félags ísl. atvinnuflugmanna, flugmálastjórn og flugráði. Sú ákvörðun er mjög leiðbeinandi um vinnubrögð um forgang verkefna og mikilvægt að eftir henni verði farið. Þar er gert ráð fyrir að fyrst verði lokið flugbrautum og hlaði ásamt nauðsynlegum öryggissvæðum og merkingu hindrana og að hindranir verði fjarlægðar þar sem því verður við komið og athafnasvæði flugvallanna verði girt. Þar á eftir komi nauðsynlegar byggingar fyrir tækjabúnað og þá slökkvi- og björgunarbúnaður. Næsta stig verði snjóhreinsibúnaður og nauðsynlegur búnaður til þeirra hluta. Þar á eftir komi blindflugsbúnaður, hvort sem það eru rafeindatæki eða ljósabúnaður og loks verði malbik eða tilsvarandi varanlegt yfirborð á öllu athafnasvæði flugvéla.

Þá hefur nefndin framkvæmt mikla vinnu við að raða áætlunarflugvöllum í forgangsröð. Notuð var stærðfræðileg aðferð til að finna út vægi hvers flugvallar. Var þá stuðst við farþegatölur á árunum 1984-1985 og flutningi á þessum tveim árum um viðkomandi flugvöll gefinn margföldunarstuðull. Þá var reynt að ákveða verkefni flugvallarins, þ.e. landsflugvöllur, svæðisflugvöllur eða safnflugvöllur. Og í þriðja lagi eru sveitarfélögum eða svæðum gefin einangrunarstig. Þannig hefur Reykjavík lægsta einangrunarstig, en t.d. Grímsey hæsta einangrunarstig.

Í fjórða lagi hefur nefndin í framhaldi af þessum ákvörðunum gert kostnaðaráætlun um uppbyggingu íslenskra flugvalla. Kostnaðaráætlunin miðast við að framkvæmdum ljúki á tíu árum. Í heildina kosta endurbætur á íslenskum flugvöllum rúma 2 milljarða kr. á verðlagi í byrjun síðasta árs. Þar af eru áætlunarflugvellir I með 40,5% fjármagn eða rúmlega 810 millj., áætlunarflugvellir II eru með 16,7% eða rúmar 336 millj., áætlunarflugvellir III með 32,2% eða rúmar 647 millj. Lendingarstaðir eru með 3,1% eða rúma 61 milljón. Þá er enn fremur áætlað í nauðsynlegan flugleiðsögubúnað 4,1%, 86 millj. rúmar, innifalið í þessari fjárhæð, en utan áætlunar sjálfrar eru sérstök verkefni sem eru svo fjárfrek að talið er rétt að þau verði sérgreind. Þar er um að ræða í fyrsta lagi endurnýjun á malbiki Reykjavíkurflugvallar sem kostar tæpar 90 millj. kr. á verðlagi síðasta árs, nýja flugbraut á Egilsstöðum sem kostar 160 millj. kr. á verðlagi í byrjun síðasta árs og flugstöð í Reykjavík sem kostar 260 millj. kr. á sama verðlagi.

Að baki þessum áætlunum liggur mjög nákvæm kostnaðarsundurliðun þar sem farið er yfir framkvæmdaþætti á hverjum einasta flugvelli landsins og byggt á byggingarvísitölu og erlendum gjaldmiðli eftir því sem við á. Kostnaðaráætlun er þannig til búin að við hana má styðjast allt framkvæmdatímabilið. Þegar framkvæmdum er lokið má strika þær út úr áætlun og sjá þannig á hverjum tíma hvað mikið er eftir ógert. Þá er einnig auðvelt að gera sér grein fyrir kostnaði sem eftir er á hverjum tíma því að auðvelt er að uppfæra verð.

Rétt er að leggja áherslu á að þó að flugvöllum sé raðað í áhersluröð hefur það í sjálfu sér lítið vægi og mun væntanlega ekki valda mikilli mismunun umfram það að framkvæmdir í tilteknum flugvelli gætu orðið ári seinna á ferðinni en ella, þ.e. ef hann væri fyrr í framkvæmdaröðinni. Nefndin tók hins vegar ákvörðun um að raða flugvöllunum í ákveðna flokka, þ.e. eins og áður tilgreindi áætlunarflugvelli I, II og III, og síðan lendingarstaði í IV. og V. flokki. Ekki er víst að allir séu ánægðir og ásáttir með þessa röðun. T.d. kom fram í nefndinni að það væri mjög mikil spurning hvort flugvellirnir í Aðaldal og Vestmannaeyjum ættu ekki frekar að vera í fyrsta flokki en í öðrum eins og er raðað í þessari skýrslu.

Herra forseti. Ég vek athygli á prentvillu sem er í 2. mgr. 7. gr. frv. og fer fram á við forseta að hún verði leiðrétt. Í ákvæðinu er talað um börn innan eins árs aldurs sem undanþegin eru gjaldskyldu, en á að vera börn innan tveggja ára aldurs eins og sjá má af 8. og 9. gr. frv. sem fjalla um upphæð flugvallagjalds og gjaldskyldu. Samkvæmt þeim greinum skal ekkert gjald greiða fyrir yngri farþega en tveggja ára. Í grg. með þessum ákvæðum frv. segir að þau séu í samræmi við ákvæði laga nr. 8 frá 1976, um flugvallagjald, en þar er ávallt rætt um börn innan tveggja ára aldurs. Þessu til frekari skýringar má enn fremur benda á skýrslu flugmálanefndar sem er fylgiskjal með frv. Í VII. kafla skýrslunnar er tillaga að lagafrv. og er þar í 2. mgr. 7. gr. á bls. 113 talað um börn innan tveggja ára aldurs. Leiðrétting þessi er gerð í samráði við formann samgn. Ed. Ég óska eftir því við forseta að hann leiðrétti þetta við atkvæðagreiðslu á eftir.

Nefndin er sammála um að leggja til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.