11.03.1987
Neðri deild: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (3653)

316. mál, flugmálaáætlun

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Okkur hafa borist í hendur veruleg gögn í flugmálum og ég þakka fyrir þá miklu vinnu sem greinilega hefur verið lögð í þetta, en spyr aftur á móti hvort sumt í þeirri flokkun, sem hér er sett fram, orki ekki verulega tvímælis. Það fer ekki á milli mála að við lifum á þeirri tækniöld að það segir nánast minnst um öryggi flugvallar hvort hann er 600 m, 800 m, 1200 m eða 2000 m. Það er flugvélin, tegund hennar, sem ætlar að lenda á viðkomandi velli, sem segir allt um þetta. Sumar flugvélar hefja sig lóðrétt til lofts og getur þess vegna varla talist að það sé neitt óeðlilegt þó að þangað væri þyrluflug á viðkomandi völl eða með öðrum þeim tegundum sem henta til flugs á mjög stuttar brautir. Ég tel að sú flokkun sem framkvæmd hefur verið hér, að sleppa því að tala um það sem raunhæfan kost að áætlunarflugvellir séu til styttri brauta en 800 m, sé byggð á hreinni vanþekkingu. Mér er ljóst að það er ekki sama hvaða flugvélategund er um að ræða, en það eru til þær flugvélategundir sem eiga auðvelt með að lenda á flugvöllum með stuttum brautum. Mér finnst að það sé að ástæðulausu með því að setja þetta upp á þennan hátt verið að skapa vissan ótta hjá fólki við að fljúga til ákveðinna staða. Mér fyndist að það hefði verið miklu eðlilegra að allir þeir vellir sem í dag eru notaðir sem áætlunarflugvellir hefðu haft rými innan þess ramma sem hér er, en svo hefðu verið sett inn ákvæði um hvaða flugvélategundum væri heimilt að stunda áætlunarflug til ákveðinna staða.

Það er nú einu sinni svo að það er misjöfn aðstaða til að búa til brautir af þeirri lengd sem farið er eftir og það er einnig misjöfn aðstaða frá náttúrunnar hendi hvort það séu nægilega stór öryggissvæði. Við erum með flugvelli í þessu landi sem þverbrjóta alþjóðlega staðla í þessum efnum. Það kallar á að það sé mjög gáð að sér með hvaða flugvélategundir eru notaðar til flugs á viðkomandi staði og það kallar á enn þá meira aðhald gagnvart veðri, en ég tel að það sé rangt að ala á sérstökum ótta við að fljúga á ákveðna staði, eins og mér sýnist að sú uppsetning sem er viðhöfð á 3. gr. beinlínis geri.

Ég held að það þurfi vissulega að gæta alls öryggis og mun í engu leggjast gegn slíkum hlutum, en mér finnst aftur á móti að ýmsar setningar sem snerta þetta öryggi sveiflist til í hugum manna, stundum eftir atburðum sem hafa verið að gerast, og það sé ekki beint samræmi á milli skoðana þeirra manna sem fljúga á þessa staði og annarra. Flugslys munu eilíflega eiga sér stað í landinu. Þau eru óumflýjanleg. Mér er sagt að yfir höfninni í Hamborg í Vestur-Þýskalandi hafi þeir skráð, Þjóðverjarnir: „siglingar eru nauðsyn en lífið ekki“ og kannske viljað undirstrika á þann hátt að menn þyrftu að halda uppi samgöngum þó að því fylgdi áhætta.

Mér þótti það fádæma ósmekklegt þegar flugslys varð á Ísafjarðardjúpi og engin rannsókn hafði farið fram á orsökum slyssins að hafið var aðkast að ákveðnu flugfélagi og það var tekin ákvörðun um að breyta áður samþykktum reglum um hvenær væri heimilt að fljúga til Ísafjarðar. Svona getur engin yfirstjórn, sem er ábyrg, starfað að mínu viti.

Í mjög málefnalegri grein eftir ungan Vestfirðing rakti hann kosti þess að leyfa flug til staðarins á rýmri tíma og vakti m.a. athygli á því að það gæti stuðlað að mun meira öryggi í flugi ef það yrði leyft en ef það yrði þrengt. Þá hlýt ég að spyrja þegar ég rekst á slíka hluti hvort menn sveiflist til í afstöðu eftir slysum sem geta átt sér stað og munu eiga sér stað.

Ég er þeirrar skoðunar að við búum á margan hátt við sérstæða aðstöðu í flugmálum og samgöngumálum almennt. Við höfum ekki varið því fjármagni til uppbyggingar flugvallanna sem nauðsynlega hefði þurft að verja. Við búum líka við þær aðstæður í þessu landi að stórir staðir eins og Ísafjörður hafa ekki nægilega góða möguleika landfræðilega til að hafa þar flugvöll. Það eru fleiri staðir á Vestfjörðum sem búa við þetta. Lítill staður eins og Súgandafjörður býr við þetta líka.

En því vek ég athygli á þessu hér að mér finnst að efnisumfjöllun sums staðar í þeim athugasemdum sem hér eru sé dálítið sérstæð. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, seinustu setninguna í umsögninni um Súgandafjörð og vona að þeir sem hér eru inni skilji: „Flug til þess flugvallar þennan flugvöll er varasamt.“ Ég skil ekki uppbygginguna á þessari setningu, en það má vel vera að menn skynji hvað þarna er verið að tala um.

Ég tel að það sé samt svo að sem heild beri að þakka fyrir framlagningu þessa frv. og það mikla verk sem hér er unnið, eins og ég gat um áðan, þó ég sé ósáttur við suma hluti og framsetningu þeirra og hefði talið að önnur framsetning hefði verið betri.