11.03.1987
Neðri deild: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3986 í B-deild Alþingistíðinda. (3659)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. félmn. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. félmn. Nd., en hún hefur fjallað um frv. og mælir með því að það verði samþykkt með nokkrum breytingum sem eru á sérstöku þskj., nánar tiltekið á þskj. 823. Þess skal þó getið að hv. þm. Karvel Pálmason og Guðmundur J. Guðmundsson skrifa undir nál. með fyrirvara og enn fremur vil ég að það komi fram að Gunnar S. Björnsson, en hans er getið í nál., er formaður Meistarasambands byggingamanna og á sæti í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins.

Þetta frv., sem hér er nú til umræðu, fjallar einkum um fjögur atriði:

1. Skv. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að lánsréttur einstaklinga sem eiga lánsrétt samkvæmt þessum lögum, sem hafa verið í gildi frá því í vor, miðist við að borgað hafi verið í lífeyrissjóði í samtals 20 mánuði á undanförnum 24 mánuðum en ekki að um 24 mánuði þurfi að vera að ræða eins og er í gildandi lögum.

2. Í þessu frv. í 3. gr. er tryggt að öryrkjar og fatlaðir og stofnanir sem hafa að markmiði að byggja fyrir öryrkja og fatlaða geta sótt um í hinu almenna kerfi og hlotið lán með sömu skilmálum og um getur í lögunum. Þó þurfa stofnanir að hafa starfsleyfi hlutaðeigandi ráðuneytis.

3. Komið er til móts við námsmenn, í fyrsta lagi þá sem hafa tekið námslán áður og fá þeir rétt til lána samkvæmt ákvæðum bráðabirgðaákvæðis. Eftir þetta ár gildir það sama um námsmenn eins og aðra að þeir þurfa að hafa greitt iðgjald til lífeyrissjóðs í 20 mánuði samtals á undanförnum 24 mánuðum.

4. Fjallað er um stærðarreglur, en þær reglur sem nú eru í gildi og voru tiltölulega einfaldar á pappírnum reyndust nokkuð erfiðar í framkvæmd að sögn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Hér er gerð tilraun til að gera reglurnar betri með því að vitna til staðla sem um getur í c-lið 2. gr. frv. Eftir talsverðar umræður í nefndinni var þó lagt til að ekki væri beinlínis miðað við íslenskan staðal nr. 50 í lagagreininni heldur yrðu stærðarmörkin samkvæmt reglugerð þar sem skýrt væri tekið fram hvert sé nýtingargildi húsnæðis.

Um þetta flytur félmn. brtt. sem er önnur brtt. á þskj. 823, b-liður. Að öðru leyti eru brtt. varðandi fyrirsögn frv. þar sem hún er stytt og 1., 3. og 2. brtt. a er í framhaldi af þeirri styttingu.

Herra forseti. Það liggja fyrir brtt. fluttar annars vegar á þskj. 728 frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðmundi J. Guðmundssyni og hins vegar á þskj. 787 frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Varðandi fyrri till. á þskj. 728 skal það tekið fram að þær till. fjalla um allt önnur efnisatriði en verið er að breyta með því frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á Alþingi. Aðspurður sagði Ásmundur Hilmarsson á nefndarfundi að hann teldi ekki hyggilegt að breyta lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins og koma inn í þau nýjum atriðum á þessu stigi málsins því að reynslutími þyrfti að verða á lögunum eins og þau eru nú í gildi áður en svo stórvægilegar breytingar yrðu teknar til greina. Aðspurður sagði hann jafnframt að hann teldi hæfilegan reynslutíma vera tvö ár. Þess vegna fellst meiri hl. hv. nefndar ekki á að styðja þessar till. sem um getur á þskj. 728.

Varðandi brtt. á þskj. 787 sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson flytur ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur skal það tekið fram að fyrri hluti till. beinist að því að reyna að koma í veg fyrir að sjálfvirkni lána verði til þess að þeim sem jafnvel eru að minnka við sig húsnæði eða hafa ekki að öðru þörf fyrir lán úr Byggingarsjóði ríkisins verði ekki gefinn kostur á sams konar lánum og öðrum. Af þessu tilefni tel ég rétt að lesa bréf sem nefndinni barst frá Alþýðusambandi Íslands en þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundi miðstjórnar ASÍ í gær var rætt um þann biðtíma sem nú blasir við og fer vaxandi í nýja húsnæðiskerfinu. Þó miðstjórn telji ekki að kerfið sé sprungið telur hún nauðsynlegt að gerðar séu allar tiltækar ráðstafanir til þess að stytta biðtímann. Því telur miðstjórn rétt að í lögunum verði heimild til takmörkunar á þeirri sjálfvirkni í lánveitingum sem nú er. Þá bendir miðstjórn á að fjárveiting frá ríkissjóði hafi verið skorin verulega niður frá síðasta ári. Úr því verður að bæta því kerfið lendir augljóslega í erfiðleikum ef fjárveiting helst ekki a.m.k. óbreytt að raunvirði. Treystir miðstjórn því að félagsmálanefnd beiti sér fyrir því að nauðsynlegar ráðstafanir verði gerðar.“ Undir þetta ritar Ásmundur Stefánsson, en bréfið er dagsett 27. febr. 1987.

Það er álit meiri hl. nefndarinnar að hægt sé að koma til móts við þau sjónarmið sem koma fram í bréfi Alþýðusambands Íslands, svo og í 1. brtt. á þskj. 787 án þess að það sé gert með lagabreytingu. Vaxtaupphæðin er ekki tiltekin í lögum og stjórn Húsnæðisstofnunar og ráðherra geta með reglugerð gert mun á vöxtum ef svo ber undir. Þetta er álit meiri hl. nefndarinnar og ég vil að það komi hér fram.

Varðandi síðari liðinn á þskj. 787 vil ég segja það að nú þegar hefur aukafjárveiting fengist fyrir 150 millj. sem eiga að renna til þess að létta skuldabyrði þeirra sem keyptu eða byggðu íbúð á árunum 1980-1985.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. en nefndin leggur til að það verði samþykkt með þeim breytingum sem lýst er á þskj. 823 og meiri hl. nefndarinnar mun leggjast gegn öðrum brtt.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.