11.03.1987
Neðri deild: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3988 í B-deild Alþingistíðinda. (3665)

119. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. á þskj. 827 um frv. til umferðarlaga.

Nefndin hefur ekki haft langan tíma til þess að fjalla um svo viðamikið og mikilvægt mál sem hér er á ferðinni. Frv. var vísað til nefndarinnar er það var lagt fyrst fram í Ed. þann 25. febrúar s.l. eða fyrir 13 dögum og hefur nefndin síðan haldið marga fundi um frv. vegna þess að tíminn er mjög naumur orðinn þar til þinglausnir fara fram en hér er á ferðinni mál sem full ástæða er til að þetta þing sem nú situr láti verða af því að afgreiða. Þar af leiðir að segja má að nefndin hafi lagt nótt við dag til þess að fjalla um frv. og þær breytingar sem á því voru gerðar við meðferð þess í Ed. Niðurstaðan hefur orðið sú að nefndin leggur til 40 brtt. við frv. eins og það kom frá Ed. að vandlega athuguðu máli. Nefndinni er ljóst að svo margar brtt. munu ekki auka frv. byr hér í gegnum þingið en hins vegar þótti allshn. vera enn þeir gallar ýmsir á frv., bæði að því er varðaði málfar en einnig efnisatriði, að óhjákvæmilegt væri, þrátt fyrir fullan vilja að stilla brtt. sem mest í hóf til þess að flýta málinu hér í þinginu, að gera þó þær brtt. sem hér liggja fyrir.

Ég minni á það í þessu sambandi, þegar ég ræði um nauðsyn þess að Alþingi láti nú verða af því að afgreiða þetta frv. til umferðarlaga, að það hefur legið lengi fyrir Alþingi. Það hefur verið borið fram á síðustu tveimur þingum, þetta er þriðja þingið sem frv. er borið fram á, án þess að hljóta afgreiðslu. Þegar frv. var til meðferðar á síðasta Alþingi lágu fyrir margvíslegar umsagnir margra aðila. Við þinglok í fyrra hafði allshn. Ed., sem hafði frv. til athugunar, ekki lokið yfirferð sinni á því og umsögnum þeim sem borist höfðu. Til þess að undirbúa frv. fyrir það þing sem nú situr skipaði dómsmrn. þann 12. maí 1986 fjóra þm. úr allshn. í sérstaka milliþinganefnd til þess að endurskoða frv., m.a. með hliðsjón af athugasemdum og umsögnum sem fram höfðu komið. Jafnframt var ákveðið að Ólafur W. Stefánsson skrifstofustjóri dómsmrn. skyldi starfa með nefndinni af hálfu ráðuneytisins.

Þessi milliþinganefnd, sem hafði frv. í allt sumar til sérstakrar skoðunar, skilaði niðurstöðu sinni til ráðuneytisins með bréfi dags. 6. okt. 1986. Þá hafði fjöldi skriflegra athugasemda, umsagna og ábendinga borist til viðbótar. Ed. hefur síðan haft málið til umfjöllunar og því er vísað til Nd. og þá allshn. þann 25. febrúar s.l.

Miðað við að þetta er þriðja þingið sem fjallar um málið er vissulega full ástæða til að freista þess að fá það afgreitt sem lög á þessu þingi, ekki síst vegna þess að sú umferðarlöggjöf sem nú er í gildi í landinu og er að vísu í lagasafninu merkt árinu 1968 er engu að síður að stofni til 10 árum eldri, frá því að Íslandi voru í fyrsta sinn sett heildstæð umferðarlög árið 1958, orðin 30 ára gömul. Það er ljóst að ýmsu þarf að breyta. Allshn. hefur átt viðræður við ýmsa aðila sem hún kvaddi til fundar til að fjalla um frv. Ég nefni sérstaklega fulltrúa dómsmrn., Ólaf W. Stefánsson, sem mikinn þátt hefur átt í fyrstu gjörð frv. og unnið með efrideildarnefndinni og milliþinganefndinni og reynst allshn. Nd. mjög nytsamur að því er ráðleggingar og starf varðar. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka honum sérstaklega fyrir hans starf að þessu máli. Jafnframt komu á fund nefndarinnar fulltrúar Umferðarráðs, lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, umferðarnefndar Reykjavíkur og Ökukennarafélags Íslands. Nefndinni bárust einnig á þeim stutta tíma sem hún hafði málið til umfjöllunar allmörg erindi um efni frv. sem nefndin hefur fjallað um.

Eins og fram kemur í nál. leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hún flytur á sérstöku þskj., þskj. 819. En jafnframt tekur nefndin sérstaklega fram í nál. sínu að hún telur nauðsyn á að setja nýjar reglur um ökukennslu og ökunám, annaðhvort í sérstökum lögum eða reglugerð, þar sem ítarlegar verði fjallað um þessa tvo mikilvægu málaflokka en gert er í frv. Nefndin var þeirrar skoðunar að þó að mjög mikilvægt væri og kannske eitt mikilvægasta atriðið til að bæta ökumenningu á Íslandi og draga úr slysum væri að setja nýjar reglur um ökukennslu og ökunám væri hæpið að taka það á þessu stigi inn í frv. til umferðarlaga. Heppilegra væri að fjalla um það síðar í sérstakri löggjöf eða reglugerð. Þar ætti m.a. að fjalla um menntun ökukennara og námsefni og lágmarksfjölda kennslustunda til ökuprófs sem er miklum mun meiri á öðrum Norðurlöndum en hér á landi. Mun strangari ákvæði gilda yfirleitt í öðrum Evrópulöndum um ökukennslu og ökunám en hér hjá okkur.

Þá taldi nefndin einnig brýna nauðsyn að setja skýr ákvæði í reglugerð um kennslu sem veiti réttindi til að stjórna léttu bifhjóli og torfærutæki en slík ákvæði skortir nú í reglugerð.

Guðrún Agnarsdóttir sat fundi nefndarinnar um þetta mál.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem hún flytur á sérstöku þskj. - ég tek það fram að Guðrún Agnarsdóttir stendur ekki að þeim breytingum enda sat hún sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni - en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma við meðferð málsins.

Þetta nál. er dagsett í gær og undir það rita auk mín Guðrún Helgadóttir, Friðjón Þórðarson, Pálmi Jónsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Ólafur Þ. Þórðarson og Stefán Guðmundsson.

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um þær allmörgu brtt. sem allshn. Nd. hefur gert við frv. eftir að það kom frá Ed. Það er vegna þess hve hér er um mikilvæga lagasetningu að ræða og í ljósi þess nauðsyn að skýra, vonandi stuttlega þó, helstu brtt.

Fullyrða má að um er að ræða eina mikilvægustu löggjöf sem sett er í hverju ríki þar sem umferðarlögin eru. Það er löggjöf sem snertir nánast hvern einasta þegn þjóðfélagsins, ekki síst á Íslandi þar sem bílaeign er nú orðin einna mest allra Evrópuríkja og eykst enn. Því skiptir það afar miklu máli að þau ákvæði og þær reglur sem eru settar í ný umferðarlög séu skýrar, ljósar, skynsamlegar og skilvirkar. Dag hvern þarf þorri þjóðarinnar að hafa þær í huga og fara eftir þeim.

Ef við lítum á frv. og þær brtt. sem gerðar hafa verið má segja að allshn. hafi jafnvel þótt frv. vera einum of ítarlegt og e.t.v. bera nokkurn keim af því að það er samið að hætti norrænnar löggjafar og með alþjóðasamninga um umferðarmál í huga sem Ísland hefur annaðhvort gerst aðili að eða hyggst undirrita og fullgilda í framtíðinni.

Í stórum dráttum hafa mestu breytingarnar verið gerðar á XIII. kafla frv. sem fjallar um fébætur og vátryggingar. Frv. hefst á ýmsum orðaskýringum. Þar hafa nokkrar en ekki miklar breytingar verið á gerðar. Hið gamla og velþekkta orð „öxulþungi“ hefur verið, svo að ég taki dæmi, notað af neðrideildarnefndinni í stað orðsins „ásþunga“ sem er í frv.

Þá hefur verið fjallað sérstaklega um torfærutæki og reyndar er orðið „vélsleði“ horfið úr frv., skilgreining á vélsleða, og það tæki er fellt undir torfærutæki. Um torfærutæki hafa fram til þessa engin ákvæði verið í lögum á Íslandi enda innflutningur þeirra nýbyrjaður. Hér eru sett ákvæði í frv. um þessi nýju farartæki og í brtt. nefndarinnar er gert ráð fyrir því að lágmarksaldur til þess að stjórna þeim verði 15 ár.

Nefndin gerði nokkrar breytingar á aldursmörkum að því er varðar önnur atriði í umferðarlögunum. Lágmarksaldur við akstur dráttarvéla, þegar þær eru notaðar við landbúnaðarstörf, var lækkaður úr 14 árum í 13 ár. Aldur til að aka léttu bifhjóli eða skellinöðru var lækkaður úr 16 árum, eins og það var í frv. frá Ed., í 15 ár eins og það er í gildandi lögum. Varðandi torfærutækin leggur nefndin til að lágmarksaldur verði 15 ár en var í frv. 16 ár til aksturs vélsleða. Spyrja má hvers vegna nefndin hafi fremur lækkað þessi aldursmörk en hin. Það er einfaldlega vegna þess að hún taldi það raunhæfari leið að unglingar ækju þessum tækjum löglega og hefðu þá hlotið þá ökukennslu sem þar er um að ræða, fremur en að hækka aldursmarkið eða hafa það tiltölulega hátt, að því er varðaði skellinöðru aðeins einu ári lægra en aldursmark réttinda til að aka bifreið, þar sem vitað væri að þá yrði miklu meira um það að þessi ákvæði væru brotin og tilgangslítið að setja ákvæði í lög sem maður veit fyrir fram að verða illa haldin. Það er ekki góð lagasetning.

Mikil breyting var gerð á frv. af hálfu neðrideildarnefndarinnar að því leyti til að lagt er til að bílnúmerakerfi verði óbreytt frá því sem nú er en ekki tekið upp nýtt númerakerfi fyrir landið allt þar sem númerið fylgir bifreiðinni allan hennar lífsaldur. Þetta var gert í ljósi andstöðu við hið nýja fyrirkomulag. Að því má færa mörg rök. Nefndarmenn töldu að ef fast hefði verið haldið í hið nýja kerfi, eins og frv. gerði ráð fyrir, hefði það valdið því að frv. hefði strandað í þinginu og ekki náð fram að ganga að þessu sinni. Hins vegar er tekið undir það sem í frv. stendur og frá efrideildarnefnd kemur að heimilt verður að beita sektum ef menn nota ekki bílbelti.

Ég vil nú, herra forseti, vísa til brtt. allshn. á þskj. 819. Ég tel nauðsynlegt og raunar óhjákvæmilegt að gera, mjög stuttlega þó, grein fyrir þessum tillögum og hví þær eru fram settar vegna þess að það er ljóst að frv. verður að fara aftur til meðferðar í Ed. þar sem því er hér í allnokkrum atriðum breytt frá afgreiðslu þar.

Við 2. gr., og það er 1. brtt., er lagt til að í staðinn fyrir orðið „ásþungi“ komi „öxulþungi“. Er það í samræmi við ákvæði gildandi umferðarlaga og málvenju. Þá er lagt til að í staðinn fyrir orðin „stór fólksbifreið“, sem notuð eru í frv. eins og það liggur fyrir, verði tekið upp orðið „hópbifreið“. Til greina komu ýmis önnur orð eins og „almenningsvagnar“, „rútur“, en það eru ekki slík farartæki sem raunverulega er um að ræða. „Hópbifreið“ er í rauninni nýyrði.

Að öðru leyti er um að ræða breytta skilgreiningu á hugtakinu „torfærutæki“. Skilgreiningin sem var tekin inn í frv. í Ed. er einfölduð en jafnframt er felld undir liðinn skilgreining sú sem í frv. er nú að því er varðar vélsleða. Eru ökutækjaflokkar þessir og notkunarsvið þeirra svipað og taldi nefndin rétt að láta sömu reglur gilda um hvor tveggja ökutækin, bæði vélsleðana og hin nýju torfærutæki. Jafnframt er skilgreiningum á bifhjóli og bifreið breytt þannig að ekki orki tvímælis að torfærutæki og hjól, sem ætluð eru til fólks- eða vöruflutninga utan vega, flokkist ekki jafnframt sem annaðhvort bifhjól eða bifreið, en á því hefði ella getað verið hætta.

2. brtt. er við 3. gr. Lagt er til að ákvæði er varðar þá sem teyma eða reka búfé á vegum landsins verði fellt niður. Ekki þótti heppilegt að hafa það ákvæði í frv. þar sem því verður oft á tíðum illa komið við í framkvæmd. Að öðru leyti er um að ræða lítils háttar orðabreytingar á 2. mgr. til einföldunar.

Í 3. og 4. brtt. eru aðeins smávægilegar orðalagsbreytingar. Rétt er að taka það fram að margar af þessum 40 brtt. allshn. eru ekki efnisbreytingar sem neinu nemur heldur orðalagsbreytingar.

Í 5. brtt. er í fyrsta lagi um að ræða þá breytingu sem leiðir af því að tekið er upp orðið „hópbifreið“ í staðinn fyrir „stór fólksbifreið“. Hér er verið að fjalla um það er ökumaður í þéttbýli nálgast biðstöð þar sem hópbifreið hefur numið staðar. Það er lagt til að síðari málsgr. 18. gr. frv. verði breytt þannig að ekki verði um stöðvunarskyldu að ræða gagnvart skólabifreið sem numið hefur staðar til að hleypa farþega inn eða út, heldur einungis skyldu til að hafa sérstaka aðgát. Í frv. eins og það liggur fyrir er sú skylda lögð á alla ökumenn að nema staðar þegar þeir sjá skólabifreið sem stöðvuð hefur verið til að hleypa farþegum út. Hér var um nokkurt áhorfsmál að ræða. Niðurstaða nefndarinnar var að nægilegt væri að menn sýndu sérstaka aðgát þegar um slíkt væri að ræða en þyrftu ekki að nema staðar.

Í 7. brtt. sem er við 32. gr., ljósaákvæðin, er lögð til lítils háttar breyting á uppsetningu en ekki er um að ræða efnisbreytingu að öðru leyti en því að ákvæðið um ljósatíma á tímanum frá hálfri klukkustund eftir sólarlag til hálfrar klukkustundar eftir sólarupprás er fellt niður. Það er áskilnaður um það í frv., þ.e. hálfa klukkustund við sólarlag og sólarupprás, enda felst sá tími í því sem á eftir kemur, þar er talað um ljósatíma í rökkri, myrkri eða ljósaskiptum, og það var talið nægja, það þyrfti ekki að vera að setja hér hálftíma mark tvisvar á sólarhring.

Að því er 3. mgr. þessarar greinar varðar er einungis um að ræða orðalagsbreytingu og loks er lagt til að 10. mgr. verði felld niður. Hún var tekin inn í frv. við meðferð þess í Ed. en ákvæði þessa efnis er nú í umferðarlögum. Ákvæði þetta er talið óþarft þar sem um þetta efni er nú ítarlega fjallað í öðrum ákvæðum greinarinnar, einkum 6. mgr., um þokuljós og hjálparljós, svo og í 60. gr. frv. þar sem kveðið er á um að ráðherra setji reglur um búnað ökutækja.

Í 8. brtt. er bætt við ákvæði um ökutæki sem ekki er búið ljósum og stöðvað er eða lagt í myrkri á vegi þannig að fyllsta öryggis verði gætt.

Næst er rétt að staðnæmast við 14. brtt. Þar er lagt til að tekin verði upp ný grein sem ekki er í frv. og felur í sér sérreglur um notkun torfærutækja. Er þar byggt á því að torfærutæki megi ekki nota á öðrum vegum en einkavegum. Það er almenna reglan en þó er gert ráð fyrir að þau megi nota til að aka eftir vegi skemmstu leið sem hentug er þegar aka þarf yfir veg og einnig að þau megi nota þar sem aðstæður utan vegar gera þeim óhjákvæmilegt að aka eftir veginum. Það er m.ö.o. ekki talið tækt að banna að aka torfærutækjum á þjóðvegum þegar svo háttar að það er óhjákvæmileg nauðsyn.

Þá eru ákvæði í þessari nýju grein um skyldur ökumanns torfærutækis er hann ekur inn á veg og ákvæði er banna flutning farþega á torfærutæki sem er á hjólum þegar því er ekið eftir vegi enda eru þau tæki ólíkt vélsleða ekki gerð fyrir farþegaflutninga. Þá hafa verið sett hér inn ákvæði um að torfærutæki megi ekki aka hraðar en 40 km á vegi og er þar um að ræða lítils háttar rýmkun frá því sem nú er í 38. gr. frv. en þar er hámarkið 30 km.

Loks eru ákvæði um það að þær takmarkanir á akstri sem felast í 1., 4. og 5. mgr. gildi ekki um akstur í þágu öryggis eða heilsugæslu.

Í 15. brtt., sem er við 44. gr., er lagt til að ákvæðin um það að óheimilt sé að fela ölvuðum manni stjórn ökutækis eða hests taki ekki til reiðmanns. Þetta ákvæði tekur til reiðmanns eins og það er orðað í frv. en því er hér breytt. Í frv. stendur: „Eigi má fela manni í því ástandi sem að framan greinir stjórn ökutækis eða hests“. Orðin „eða hests“ eru hér felld niður.

Síðan er rétt að vekja athygli á því að nefndin leggur til að 45. gr. verði felld niður í heild. Þar er um að ræða allsérstætt ákvæði sem m.a. má finna í loftferðalögum. Það er svohljóðandi og er rétt að ég lesi það eins og það er í frv.:

„Ökumaður vélknúins ökutækis má eigi neyta áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna í næstu sex klukkustundir eftir að akstri lauk, enda hafi hann ástæðu til að ætla að opinber rannsókn verði hafin vegna akstursins. Bann þetta á þó ekki við eftir að lögregla hefur látið taka blóðsýni úr ökumanni eða ákveðið að það skuli eigi gert.“

Nefndin leggur til að þetta verði fellt brott.

Þá er rétt að minnast á 18. brtt., en þar er um að ræða breytingu á 55. gr. frv. Í fyrsta lagi er fyrirsögn breytt þannig að vélsleði hverfur úr fyrirsögninni þar sem skilgreiningin á vélsleða hefur verið felld undir skilgreiningu á torfærutæki. Þá er aldur til að stjórna dráttarvél við landbúnaðarstörf utan alfaravega lækkaður úr 14 árum í 13 ár, en nefndin telur að 14 ára aldur sé ekki raunhæfur í þessu efni. Hér er um að ræða landbúnaðarstörf utan alfaravegar, ég legg áherslu á það. Enn fremur er lagt til að aldur til að stjórna léttu bifhjóli og torfærutæki verði færður í 15 ár svo sem er nú samkvæmt umferðarlögum, hafði verið hækkaður skv. frv. í 16 ár, og tekið er fram til áherslu að ekki megi gefa út ökuskírteini til að stjórna þessum ökutækjum nema hlutaðeigandi hafi fengið tilskilda ökukennslu, en slys hafa verið alltíð vegna aksturs léttra bifhjóla.

Þá er í 19. brtt. lagt til að 1. mgr. 59. gr. frv. verði felld niður þar sem henni var talið ofaukið. Þar segir að ökutæki skuli svo gert og því þannig haldið við að nota megi án þess að af því leiði hættu eða óþægindi fyrir aðra eða skemmd á vegi. Þetta er endurtekið síðar í greininni. Þessu var talið ofaukið.

Þá er lagt til jafnframt að 3. mgr. 60. gr. verði felld niður. Ekki verður séð að þörf sé á slíku ákvæði eins og þar um ræðir, en þar segir að dómsmrh. geti, ef nauðsynlegt er út frá umferðaröryggissjónarmiðum, bannað notkun ökutækis, enda þótt það uppfylli skilyrði reglna sem settar eru skv. upphafi greinarinnar. (Forseti: Ég vil minna hv. frsm. á að fundartíma er lokið. Það á að hefjast fundur í Sþ. núna kl. 9 skv. dagskrá og nú verður að fresta þessu máli.)

Umræðu frestað.