11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4000 í B-deild Alþingistíðinda. (3668)

396. mál, utanríkismál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. vitnaði hér í dag í bandarískar heimildir um samskipti Íslendinga og Bandaríkjamanna í aðdraganda hernámsins árið 1951. Þetta voru bandarískar heimildir og hann skoraði á hæstv. utanrrh. að birta íslenskar heimildir frá þessum tíma.

Hv. 5. þm. Austurl. talaði ekki um það í ræðu sinni að menn hefðu látið múta sér, heldur var hann að vitna í opinber skjöl, skjöl sem koma frá Bandaríkjunum. Og ég vil mótmæla sérstaklega þeim óhróðri og þeim ósmekklegu fullyrðingum, sem fram komu hér í ræðu hv. formanns utanrmn., þegar hann fullyrti að vinstri stjórnin 1956-1958 hefði látið múta sér. Hann sagði það orðrétt, hv. þm. Ég kannast ekki við það áður að slíkar fullyrðingar hafi verið bornar fram hér í þessum sal með þessum hætti. Ég tel að það sé afar ósmekklegt að ekki sé meira sagt, m.a. með tilliti til þess að hér er um að ræða liðinn tíma sem enginn okkar hefur tök á að meta að fullu. Ég fullyrði að enginn þeirra manna, sem stóðu að vinstri stjórninni 1956-1958, jafnvel þeir sem vildu samskiptin við Bandaríkin sem mest, voru að láta múta sér. Enginn.

Og mér þætti fróðlegt ef nokkur þm. getur staðið hér upp nú og bent á einhvern þm. í sögunni sem sat á þessum bekkjum fyrir 10, 20, 30 eða 40 árum og sagt: Þessi maður lét múta sér. Því að maður, sem lætur múta sér af stórveldi með þeim hætti sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gaf í skyn hér áðan, er ekki þess verður að vera kallaður hv. þm. meir. Svo mikið er víst.

Ég satt að segja hélt að málflutningur af þessu tagi væri ekki tíðkaður hér á þessum stað og ég fullyrði að maður eins og hv. 5. þm. Austurl., sem talaði hér af hálfu okkar Alþýðubandalagsmanna fyrr í dag, verður ekki sakaður um stóryrði, fúkyrði eða áburð af þessum toga yfirleitt á sína pólitísku andstæðinga. Ég tel ekki ástæðu til að mótmæla þessum orðum hv. þm. frekar vegna þess að ég vona að þau dæmi sig sjálf.

Ég vil víkja aðeins, herra forseti, hér að þeim umræðum sem fram hafa farið um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Ég ætlaði mér satt að segja að ræða hérna dálítið um Framsfl. og þau ánægjulegu tíðindi að hann skyldi hafa fengið þá niðurstöðu að hann hefði stefnu í utanríkismálum.

Hv. þm. Páll Pétursson lýsti því yfir að Framsfl. hefði gert samþykkt í utanríkismálum og þar hefði m.a. verið tekin ákvörðun um að það þyrfti að halda öðruvísi á utanríkismálum en gert hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar, sérstaklega á herstöðvarmálinu og samskiptum við herinn, og því væri jafnframt lýst yfir í þessari samþykkt Framsfl., sem var gerð seint á árinu 1986, að það kæmi ekki til greina af hálfu Framsfl. að það yrði liðið að Bandaríkjamenn byggðu hér fleiri radarstöðvar eða fleiri stöðvar yfirleitt á þeim tíma sem Framsfl. sæti í ríkisstjórn. Það má segja að það hafi ekki verið seinna vænna að gefa slíka yfirlýsingu því Framsfl. er búinn að sitja í þessari ríkisstjórn síðan 1983, ríkisstjórn sem hefur í rauninni stuðlað að víðtækari framkvæmdum í tengslum við hersetuna en nokkur önnur stjórn hefur gert á jafnskömmum tíma. Í því sambandi má benda á ratsjárstöðvar í tveimur byggðarlögum. Það má benda á Helguvíkurframkvæmdirnar, það má benda á sprengjuheld flugskýli, það má benda á neðanjarðarstjórnstöð, það má benda á endurnýjun flugvélaflota. Allt þetta samþykkti Framsfl. þegjandi og hljóðalaust og aldrei, aldrei, öll þessi ár síðan 1983 hefur Framsfl. heyrst kvaka úr þessum ræðustól við umræður um skýrslu utanrrh. fyrr en nú. Og hver er skýringin? Það á að fara að kjósa. Það á nefnilega að fara að kjósa og það þarf að gefa einum og einum vinstri sinnuðum framsóknarmanni von um að það sé hugsanlega rétt að kjósa framsóknarliðið einu sinni enn þó það beri ábyrgð á öllu þessu sem hefur verið að ganga hér yfir á undanförnum árum. Þvílík hræsni! Þvílíkur tvískinnungsháttur!

Framsfl. hefur leikið það á undanförnum árum og áratugum að ganga lengra í hræsni og tvískinnungshætti en nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur og er þá vissulega langt til jafnað. Framsfl. hefur venjulega haft það þannig þegar hann hefur verið í hægri stjórn að hann hefur færst til vinstri þegar nær líður kosningum. Þegar hann hefur verið í vinstri stjórn hefur hann færst til hægri eftir því sem nær líður kosningum. Ég man eftir því að í umræðum um skýrslu utanrrh. 1984 spáði ég því úr þessum ræðustól að Framsfl. mundi fyrir næstu kosningar þar á eftir, þegar færi að losna um stjórnarsamstarfið, snúa við blaðinu og reyna að stíga örlítið í vinstri fótinn. Það þarf ekki mikinn spámann til að sjá þetta fyrir. Menn sem hafa reynslu af samstarfinu við framsóknarmenn vita hvernig þeir haga sér. Hv. þm. Páll Pétursson var nákvæmlega eins og hugur manns í þessu efni, flaug upp í stólinn og ruddi upp úr sér alls konar áherslum í herstöðvarmálinu sem gætu hafa verið komnar að sumu leyti frá herstöðvaandstæðingum í þessu landi, því fólki sem hefur verið á móti framkvæmdunum í herstöðinni á undanförnum árum, kom fram í þessum ræðustól ef það mætti verða til að beita á öngulinn aftur fyrir þá sem eru gjörsamlega búnir að afskrifa Framsfl. sem hugsanlegan aðila varðandi það að standa í lappirnar fyrir hönd íslenskrar utanríkisstefnu gegn þeim yfirgangi Ameríkanans sem okkur hefur birst hér síðan 1983, frá því að George Bush, varaforseti Bandaríkjanna, kom hér í júlí 1983, tekið á móti honum af formanni Framsfl., hæstv. forsrh., og hæstv. þáv. utanrrh., þegar plönin voru lögð fyrir allt þetta kjörtímabil.

Það er ómerkilegt satt best að segja þegar stjórnmálamenn, sem bera alla ábyrgð á þessari þróun eins og hv. þm. Páll Pétursson, eru að velta sér út úr þessari ábyrgð með ódýrum hætti eins og hann gerði áðan. Það er ómerkilegt. En þó sýnir það kannske að það er taug enn þá í hv. 2. þm. Norðurl. v. Það er ærleg taug. Hann skammast sín fyrir hönd Framsfl. og það er vel. En það dugir ekki til þess að kjósendur sjái ekki í gegnum þá mynd sem hann hefur verið að reyna að draga hér upp.

Ég ætla ekki að fara frekar yfir samþykktir Framsfl. frá síðasta flokksþingi þeirra 1986 þegar þeir lýstu því yfir að þeir væru á móti öllu því sem gerst hefur á kjörtímabilinu. Það er ástæðulaust að fara frekari orðum um það., Þó var það táknrænt þegar hv. þm. Páll Pétursson lýsir því yfir um hæstv. utanrrh. að hann sé í rauninni hinn versti haukur sem snúi út úr ályktunum Alþingis. Mér þætti vænt um ef hæstv. utanrrh. svaraði einni fsp. frá mér í þessum umræðum. Hún er þessi: Hefur Framsfl. í ríkisstjórninni hreyft athugasemdum við framkvæmd utanríkisstefnunnar? Hefur hann gert það? Hefur hæstv. forsrh. kvartað yfir stefnu hinna „hörðu hauka“ í íslenska stjórnarráðinu á fjórðu hæð eða hvað það nú er í stjórnarráðinu á Hverfisgötu, í húsinu næst við hliðina á Alþb.? (Gripið fram í: Fimmtu.) Fimmtu, ég bið hæstv. forseta og ráðherra að afsaka. Á fimmtu. En við hliðina á Alþb. er húsið. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvort það er þannig að hæstv. forsrh. hafi hreyft athugasemdum eða kannske hæstv. forsrh. hafi ekki lesið samþykktir flokksþings Framsfl. Það gæti auðvitað verið. En ég vænti þess að hæstv. utanrrh. sjái sér fært að svara þessari frómu spurningu minni.

Ég ætla þá aðeins að víkja að umræðunum um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd og víkja að því að það eru nokkur ár síðan umræða hófst um þau mál og það má segja að það mál hafi fyrst náð formlegri niðurstöðu á alþjóðlegum vettvangi þannig að tíðindum hafi sætt í lokayfirlýsingu aukaþings Sameinuðu þjóðanna um afvopnunarmál 1978. Þar sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Myndun kjarnorkuvopnalausra svæða á grundvelli frjálsra samninga milli ríkja á viðkomandi svæði er mikilvægur þáttur í afvopnun. Rétt er að styðja myndun slíkra svæða með það endanlega markmið í huga að losa heiminn að fullu við kjarnorkuvopn. Við myndun slíkra svæða skal tekið tillit til sérkenna hvers svæðis. Þau ríki sem þátt taka í myndun slíkra svæða ættu að skuldbinda sig til að styðja að fullu markmið, tilgang og grundvallarreglur þeirra samninga eða samkomulags er miða að stofnun svæðanna og tryggja þar með að þau verði í raun laus við kjarnorkuvopn. Hvað varðar slík svæði er gert ráð fyrir að kjarnorkuveldin taki á sig vissar skuldbindingar sem samið skal um við lögmæt yfirvöld á svæðinu, einkum:

a. Að virða að fullu stöðu hins kjarnorkuvopnalausa svæðis,

b. að virða bann við beitingu eða hótunum við beitingu kjarnorkuvopna gegn ríkjum á svæðinu.“

Síðan er það nákvæmlega rakið með hvaða hætti er skynsamlegt að standa að því að koma á kjarnorkuvopnalausum svæðum. Í sambandi við þá norrænu vinnu sem unnin hefur verið í þingmannanefnd um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum er grundvallaratriði að byggja á þessari yfirlýsingu aukaþings Sameinuðu þjóðanna frá 1978.

Yfirlýsing um kjarnorkuvopnalaust svæði er í rauninni ekki lokað ferli, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson, hæstv. utanrrh. og hv. talsmenn Sjálfstfl. ýmsir aðrir virðast gera ráð fyrir. Það er ekki lokað ferli heldur er gert ráð fyrir því að það sé gefin út yfirlýsing um kjarnorkuvopnaleysi tiltekins svæðis. Jafnframt og í framhaldi af því sé leitað tryggingar kjarnorkuvelda og gerðir séu viðbótarsamningar við samninginn við hið kjarnorkuvopnalausa svæði. Að tala um einhliða yfirlýsingar í þessu sambandi er því annaðhvort tilraun til að blekkja eða þá að það stafi af því að menn skilji ekki hvernig bæði Suður-Ameríkusamningurinn og Roratongasamningurinn hafa verið gerðir og unnir.

Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa þetta í huga vegna þess að mér finnst að í sambandi við þessi mál séu menn að gera það tortryggilegt með því að segja: einhliða yfirlýsing og punktur. Málin eru ekki og hafa aldrei verið hugsuð út frá þeirri forsendu heldur hafa menn litið á kjarnorkuvopnalaus svæði sem þátt í allsherjarviðleitni til að draga úr kjarnorkuvopnum, spennu og ófriðarhættu í heiminum.

Ef menn hafa lesið í gegn þá pappíra sem Olof Palme-nefndin lét frá sér fara kemur þetta grundvallaratriði mjög glöggt fram þar sem eru tillögur um kjarnorkuvopnalaus svæði, kjarnorkuvopnalaust svæði í gegnum Evrópu, kjarnorkuvopnalaus svæði í Evrópu, jafnvel á tveimur svæðum sitt hvorum megin við þennan kjarnorkuvopnalausa gang, ef ég má orða það svo. Þetta eru tillögur sem SPD, sósíaldemókrataflokkurinn í Vestur-Þýskalandi, hefur tekið undir. Þetta eru flokkar eins og danski jafnaðarmannaflokkurinn, eins og vesturþýski jafnaðarmannaflokkurinn sem telja tvímælalaust að viðkomandi ríki eigi að vera í Atlantshafsbandalaginu, en samt sem áður vinna þessir flokkar að þessum atriðum með þeim hætti sem ég hef lýst.

Ég tel að á þeim fundi sem haldinn var í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum misserum um þessi mál þar sem voru fulltrúar frá 47 þingflokkum á Norðurlöndum, þar sem voru fulltrúar frá öllum íslensku þingflokkunum, hafi komið fram skilningur á því að miðað við allar aðstæður sé eðlilegt að þessi mál séu rædd á Norðurlöndunum og milli Norðurlandanna af fullri alvöru. Talsmenn Sjálfstfl. á fundinum í Kristjánsborg seint á árinu 1985 töldu allir að það væri nauðsynlegt að Ísland fylgdist með vegna þess að þeir höfðu og hafa skilning á því að hvað sem öllu öðru líður er það slæmt fyrir Ísland að verða viðskila við hin Norðurlöndin. Það getur þýtt aukinn þrýsting á Íslendinga frá Atlantshafsbandalaginu og Bandaríkjamönnum að taka við tækjum sem geta borið kjarnorkuvopn.

Á þessum fundi í Kristjánsborg fyrir áramótin 1985-1986 kom þessi skilningur fram hjá þm. Sjálfstfl. auk þm. Alþb., Samtaka um kvennalista, Bandalags jafnaðarmanna og Framsfl., en á þessum fundi var það einn þm, frá Íslandi sem skildi sig nokkuð frá öðrum þm. í þessu efni og það var hv. 5. þm. Reykjavíkurkjördæmis, Jón Baldvin Hannibalsson. Hins vegar gerðist það síðar, þegar þingmannanefndin var stofnuð, að Alþfl. ákvað að taka þátt í starfi þingmannanefndarinnar, en Sjálfstfl. vildi ekki taka þátt í starfi þessarar þingmannanefndar og hefur ekki gert enn þá.

Hver var tilgangur þingmannanefndarinnar? Hann var sá að ræða málið og kanna hver væri hinn pólitíski og þinglegi vilji í hinum ýmsu þjóðþingum Norðurlandanna. M.ö.o.: þar átti hinn pólítíska könnun að fara fram. Í framhaldi af því þótti eðlilegt í danska þinginu m.a. og víðar að það yrði til embættismannanefnd til að fara yfir málið vegna þess að þingmannanefnd getur ekki náð utan um svona mál að fullu því að á undirbúningsstigi málsins verða að fara fram viðræður við ríki eða ríkjabandalög og þeir einu sem geta lagt slíkar viðræður fyrir sig eru ríkisstjórnir. Af sjálfu leiðir.

Þegar umræðurnar hófust hins vegar um þessa embættismannanefnd fara menn að bera fyrir sig hluti eins og þetta: Stofnun embættismannanefndar án pólitískrar yfirstjórnar, það er alveg út úr kú. Nánast þetta sagði hv. 3. þm. Reykn. Ég spyr: Búum við við menntað einveldi eða hvað? Er það ekki alveg ljóst að embættismenn eiga ekki að vera til án pólitískrar yfirstjórnar? Auðvitað er það þannig að embættismannanefnd væri undir pólitískri yfirstjórn. Það getur ekki annað verið. Síðan segir hv. þm. Kjartan Jóhannsson: En fagleg rannsókn kemur til greina. Allt í lagi. Ef menn vilja kalla þetta faglega rannsókn, þá mín vegna. En það er eðlilegt að þetta sé unnið samhliða bæði í þjóðþingunum og á vegum ríkisstjórnanna. Ég tel að það sé höfuðatriðið í þessu máli, eins og öðrum utanríkismálum og öðrum málum sem við ræðum hér, að við reynum að grafa okkur í gegnum vandamálin ofstækislaust, skoða hlutina eins og þeir eru. Og ég trúi ekki öðru en að menn geti fallist á að það sé eðlilegt að hér verði til norræn embættismannanefnd og að Íslendingar taki þátt í henni. Íslendingar taki þátt í henni, rannsaki þessi mál, fari yfir þessi mál og átti sig á því hvernig best er að vinna að málinu, næstu skref, hafa samband við Atlantshafsbandalagið. Auðvitað hljóta menn að hafa samband við Atlantshafsbandalagið. Þegar um það er að ræða að við erum með þingmeirihluta sem ákveður að vera í Atlantshafsbandalaginu hafa menn auðvitað samband við Atlantshafsbandalagið. Hvað annað? Að sjálfsögðu.

En kratarnir á þinginu og íhaldið eru stundum að reyna að snúa þessum málum allt öðruvísi, rétt eins og hérna sé um að ræða eitthvað stórhættulegt og fjandsamlegt, stórkostlega hættulegt sem þurfi fyrir alla muni að keyra niður hið allra fyrsta. Þetta sé einhver vond uppfinning kommúnista eða annarra álíka hættulegra rauðliða, tala nú ekki um Kvennalistann.

Nei, ég held að við eigum að fara yfir þetta efnislega. Og þá vil ég skýra frá því að á fundi norrænu þingmannanefndarinnar 2. mars s.l. var ákveðið að ganga frá tillögu um grundvallaratriði varðandi kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og fela formanni nefndarinnar, Anker Jörgensen, að senda öllum þingflokkum á Norðurlöndum, sem aðild eiga að þingmannanefndinni, þessa greinargerð til umfjöllunar. Þessi niðurstaða verður birt í Kaupmannahöfn á morgun af Anker Jörgensen og verður send þeim flokkum sem fulltrúa eiga í nefndinni næstu daga og verður farið fram á að þeir svari með brtt. eða með öðrum hætti fyrir 21. apríl þegar næsti fundur þingmannanefndarinnar verður haldinn í Helsinki.

Nú stendur svo á að ég á ekki von á því að margir íslenskir þm., sem eru í framboði a.m.k., eigi heimangengt þá daga og þess vegna var m.a. ákveðið að flokkarnir gætu komið sínum svörum skriflega á framfæri. Á blaðamannafundi, sem haldinn var í Osló 2. mars s.l., gerði Anker Jörgensen grein fyrir helstu niðurstöðum þessarar nefndar.

Nú veit ég ekki hvað sést hefur af þeim blaðamannafundi í norrænum blöðum. Ég hef þó séð eitthvað frá þeim fundi, en það hefur ekki verið ítarlegt sem fram hefur komið. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði úr þessu plaggi sem ekki getur talist trúnaðarmál en verður þó formlega ekki til opinberrar birtingar endanlega fyrr en á morgun þegar Anker Jörgensen mun koma þeim niðurstöðum á framfæri í sínu landi og sjálfsagt víðar.

Í þessu plaggi er því fyrst slegið föstu að á ráðstefnu í Kaupmannahöfn 29.-30. nóvember 1985 hafi 47 flokkar á Norðurlandaþingunum átt fulltrúa og þar hafi komið fram verulegur áhugi á hugmyndunum um kjarnorkuvopnalaust svæði og óskir um að vinna áfram að athugun málsins. Þar er í öðru lagi bent á að eftir þessa ráðstefnu var sett niður norræn þingmannanefnd sem hafi haft það verkefni að rannsaka pólitíska möguleika á því að koma upp kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum. Þessi þingmannanefnd var mynduð að frumkvæði sósíaldemókrataflokkanna á Norðurlöndum, þ.e. allra á hinum Norðurlöndunum, og það var einkum danski sósíaldemókrataflokkurinn sem beitti sér í þessu máli. Þingmannanefndin hefur haldið fundi um þessi mál 26. ágúst 1986, 3. nóv. 1986, 19. jan. 1987 og 2. mars 1987.

Á fundinum 2. mars 1987 kom það fram í fyrsta lagi að í danska þinginu virðist vera meiri hluti fyrir þessum grundvallaratriðum af hálfu sósíaldemókrata, Sosialistisk Folkeparti og Radikale venstre. Í Svíþjóð er um að ræða verulegan stuðning af hálfu sósíaldemókrata, Vinstri flokksins, kommúnistanna og Miðflokksins. Í Finnlandi hafa allir flokkar lýst stuðningi við þessi sjónarmið. Í Noregi hafa Verkamannaflokkurinn og Sosialistisk venstre parti lýst stuðningi við þessi sjónarmið og á fundinum í Osló um daginn voru fulltrúar frá Kristeligt folkeparti og Centerpartiet. Fjórir flokkar á Íslandi hafa tekið þátt í starfi þingmannanefndarinnar með ýmsum hætti og m.a. hefur Alþfl. gert grein fyrir sínum sjónarmiðum í nefndinni með skriflegri skýrslu sem send hefur verið fulltrúum allra flokka sem hafa átt sæti í nefndinni. Það eru sjónarmið sem hér voru kynnt við umræður á Alþingi að ég hygg síðast 29. janúar þegar þessi mál voru til meðferðar og hæstv. utanrrh. og við fleiri áttum nokkurn orðastað um embættismannanefnd um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum.

Ég ætta ekki að fara yfir einstök atriði í þessu plaggi, en ég vil undirstrika að það er samstaða um það í þingmannanefndinni, það hefur komið fram opinberlega í blöðum, að óska eftir því að skipuð verði embættismannanefnd. Það hefur m.a. komið fram í bréfi sem þingmannanefndin sendi utanríkisráðherrum Norðurlanda að ég hygg í ágúst 1986 og það hefur einnig komið fram í blaðaviðtölum. Það er einnig ljóst að innan Norðurlandanna hafa verið uppi þær raddir að í rauninni væri erfitt að hugsa sér svæðið með Íslandi. Það væri flókið að sjáhlutina þannig fyrir sér. Í umræðum um þessi mál hefur það verið okkar afstaða, fulltrúa Íslands, að segja sem svo: Ef Ísland verður ekki með verður það að vera ákvörðun Íslendinga sjálfra. Það er ekki ykkar hlutverk, hef ég sagt við þá, að kljúfa Norðurlöndin. Þess vegna er eðlilegt að Íslendingar taki þátt í umræðu um málið og að gert sé ráð fyrir því þegar í upphafi þangað til annað kemur í ljós að Ísland og íslenska svæðið séu með.

Af þessum ástæðum er um það alger samstaða í þingmannanefndinni að þetta svæði, norræna kjarnorkuvopnalausa svæðið nái yfir Ísland, Noreg, Svíþjóð, Finnland, Danmörk, Grænland, Færeyjar og Álandseyjar. Auðvitað er líka, út af orðum hv. þm. Kjartans Jóhannssonar að mig minnir í dag, gert ráð fyrir að glíma við það verkefni af fullri alvöru að hafsvæðin sem tilheyra þessum löndum séu einnig hluti af þessu svæði þó svo að því sé slegið föstu að þjóðréttarreglur um siglingarétt séu haldnar í heiðri. Þó hefur það verið tekið fram og það hefur komið fram opinberlega, í blaðaviðtölum m.a., að þennan alþjóðlega siglingarétt megi ekki nota til að flytja kjarnorkuvopn á hafnir sem eru á þessum svæðum og því er einnig lýst yfir að mönnum beri að glíma við það verkefni að ná því fram að loftsvæðið yfir þessum löndum sé hluti af hinu kjarnorkuvopnalausa svæði. Varðandi það hvað eru ekki kjarnorkuvopn í þessu efni, hvað það er að hafa ekki kjarnorkuvopn, vitna menn ósköp einfaldlega í NPT-samninginn, 2. gr. hans, þar sem það er skýrt tekið fram og skýrt kveðið á hvernig ríki skuldbindur sig til að hafa ekki kjarnorkuvopn.

Í þessum umræðum hefur verið rætt um hvers konar samning ætti að gera um kjarnorkuvopnalaust svæði og hvernig á að tryggja að samningurinn og það sem honum tilheyrir sé haldið. Hvernig á að tryggja að þessir hlutir séu í lagi? Þar hefur verið rætt um þann möguleika að byggð verði upp norræn eftirlitsstofnun, t.d. með beinni aðild eða óbeinni aðild með samningum. Það yrði hugsanleg aðild fleiri alþjóðlegra stofnana. Þar er t.d. bent á alþjóðakjarnorkumálaskrifstofuna í Vín sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Í þessum umræðum hefur einnig alltaf verið gengið út frá því að eins og samþykkt Sameinuðu þjóðanna segir verði stuðlað að því að tryggja að kjarnorkuveldin lýsi því yfir að þau virði svæðið og lýsi því yfir að þau muni ekki hóta þessum svæðum á neinn hátt þrátt fyrir að þessi lönd eða ríki hafa kjarnorkuvopn. Það er lögð á það áhersla að þarna eigi menn fyrst og fremst, á þessu norræna svæði, að snúa sér að Bandaríkjunum og að Sovétríkjunum og að Atlantshafsbandalaginu og að Varsjárbandalaginu. Það hefur verið rætt um það í þessu sambandi, og það er í mínum huga algerlega sjálfsagður hlutur, að inn í þessa mynd á einhverju stigi, og þá endurtek ég að hér er ekki um neitt lokað ferli að ræða, verður að taka upp málefni Eystrasaltsins og það verður líka á einhverju stigi að taka upp þá staðreynd að á svæðum í grenndinni við Norðurlönd eru kjarnorkuvopn og það á að nota þennan vilja Norðurlandanna til friðar til að þrýsta þeim vopnum út, í burtu. Menn eiga að horfa á þetta sem eina heildarmynd og ekki læsa sig alveg fastir inn í eitthvert lokað endanlegt mótað ferli. Það er óþarfi að taka þannig á málunum.

Ég held þess vegna að það sé skynsamlegt fyrir Ísland að taka þátt í umræðum um þessi mál á undirbúningsstigi, bæði í þingmannanefndum og embættismannanefndum, og ég skora á ríkisstjórnina að fallast á að Íslendingar eignist aðild að embættismannanefndinni strax í upphafi. Mér heyrist að vísu að það megi kannske orða það þannig að það sé hér á þinginu meiri hluti fyrir því að vera ekki með í embættismannanefndinni. En þá vísa ég til þess sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði fyrr í dag. Hann talar um að embættismannanefnd án pólitískrar yfirstjórnar komi ekki til greina. Svoleiðis embættismenn eiga ekki að vera til. Embættismenn án pólitískrar yfirstjórnar eiga ekki að vera til í þessum löndum og það væri fróðlegt ef menn vildu benda mér á einhverja slíka í þessu landi. En hann sagði, ég held ég muni orðin rétt, ég var með þau hjá mér hérna einhvers staðar: Fagleg rannsókn kæmi til greina. Ef menn vilja orða þetta einhvern veginn frekar svo að embættismannanefnd eigi að fást við faglega rannsókn er það í mínum huga algjört aukaatriði. Aðalatriðið í mínum huga er að Íslendingar verði ekki viðskila við þann norræna meginstraum sem uppi er í þessum málum.

Ég hef ekki, herra forseti, farið yfir einstök atriði í afstöðu þingmannanefndarinnar heldur tæpt á því sem komið hefur fram í blöðum að undanförnu. Það gefst kostur á að fara yfir þetta í einstökum atriðum fljótlega þegar þessi plögg verða send út og gerð opinber.

Ég held að það sé nauðsynlegt að lokum að ítreka að ég hygg að það sé svo í þessari skýrslu utanrrh., a.m.k. var það í einhverjum skýrslum frá honum, og í flestum yfirlýsingum ríkisstjórnar og stjórnmálaflokka á Íslandi, að talað er um að tvær alþjóðastofnanir séu hafnar yfir allan ágreining á Íslandi. Það er hið norræna samstarf, Norðurlandaráð, og Sameinuðu þjóðirnar í raun og veru líka. Þeir sem vilja hafa þessa hornsteina, þessi grundvallaratriði í heiðri, stuðla þannig að sem víðtækastri samstöðu um málin hér innanlands, mega gjarnan hafa það í huga að umræðan um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd byggir einmitt á þessum tveimur hornsteinum, annars vegar norrænu samstarfi og hins vegar samhljóða samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Út frá þessum jákvæðu forsendum eigum við að reyna að nálgast málin að mínu mati, herra forseti.