11.03.1987
Sameinað þing: 62. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4049 í B-deild Alþingistíðinda. (3676)

396. mál, utanríkismál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þau félagar mínir, sem hér hafa talað næst á undan mér, hafa farið rækilega yfir mörg mál þannig að ég hef í sjálfu sér ekki miklu þar við að bæta og verð að hryggja þingheim með því að ég tala sennilega ekki langt mál í þetta skiptið, sem ég sé hér strax út undan mér að einhverjir þm. sakna og leiðist þessi yfirlýsing, en ég verð að hryggja þá með því.

Í ræðu minni hér í kvöld spurði ég hæstv. utanrrh. að því hvort Framsfl. eða formaður hans hefði gert athugasemdir á ríkisstjórnarfundum um framkvæmd utanríkisstefnunnar. Og hæstv. utanrrh. svaraði þessu orðrétt á þessa leið: „Ég hef ekki orðið var við slíkar athugasemdir á ríkisstjórnarfundum.“

Þetta kom hv. þm. Páli Péturssyni bersýnilega á óvart. Hann var hissa, eins og formaður hans verður oft, undrandi á þessum firnum. Og ég get ekki neitað því að það kom mér líka á óvart vegna þess að ályktun flokksþings Framsfl. frá í nóvember 1986 var með þeim hætti að það hefði verið eðlilegt að formaður Framsfl., sem samkvæmt orðum hv. þm. Páls Péturssonar samþykkti tillöguna, hefði komið henni á framfæri í ríkisstjórninni vegna þess að í ályktuninni felst veigamikil gagnrýni á framkvæmd stjórnarstefnunnar í utanríkismálum.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Páli Péturssyni að hann hefur iðulega haft uppi aðrar skoðanir á utanríkismálum en ýmsir aðrir framsóknarmenn og er það vissulega þakkarvert. Hins vegar hefur hann verið býsna hógvær í þessum efnum á þessu kjörtímabili, enda sagði hæstv. utanrrh. orðrétt líka: „Ég þekkti ekki þennan tón hjá hv. þm. Páli Péturssyni," þannig að hér er bersýnilega um það að ræða að þetta kemur okkur nokkuð á óvart, bæði mér og hæstv. utanrrh., að Framsfl. skuli ætla að hrista af sér slyðruorðið í þessu máli nú í lok kjörtímabilsins og sérkennilegast er að frétta af því fyrst núna. Það hefur farið ákaflega hljótt. Það hefur ekki verið tekið upp í ríkisstjórninni og ekki verið gert mikið úr því á öðrum vettvangi.

Ég tel rétt að það komi hér fram að mér fannst athugasemdir hv. þm. Páls Péturssonar einkennast af dálitlum sárindum og mér þykir leitt að hafa valdið þeim. Hv. þm. Páll Pétursson er mjög oft fyndinn og skemmtilegur og í þetta skiptið var þetta nú ekki gæðingaspor sem hann steig. Þetta var ekki Eiríksstaðatöltið, sem við sáum til hv. þm. Páls Péturssonar, sem er einhver fegursti töltgangur sem er til í íslenskum hestum eins og hv. þm. Páll Pétursson veit og þekkir af eigin raun. Þetta var víxlað hjá honum. En það skýrist af því að honum sárnaði. Ég skildi hann svo að ég hafi valdið honum vonbrigðum fyrst og fremst vegna þess að hann vildi gjarnan vera samherji minn í þessu máli og ég væri að berja frá mér liðsmann. Það þykir mér leitt að heyra ef svo er og býð hann velkominn til liðs við Alþb. við fyrsta tækifæri. Það eru margir góðir framsóknarmenn sem hafa gengið til liðs við Alþb. (Gripið fram í.) Fyrst nefni ég að sjálfsögðu þann sem hér stendur. Síðan nefni ég Ólaf Ragnar Grímsson og það er bersýnilegt að nýr liðsmaður er á leiðinni og ég vil síst verða til þess að víkja honum úr okkar húsum og er hann boðinn hjartanlega velkominn við fyrsta tækifæri.

Mér fannst hins vegar í athugasemdum hans um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd gæta sjónarmiðs sem ég vil vara sérstaklega við í sambandi við það mál. Og það er að hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd séu úreltar að verða vegna þess að hugmyndir Rússa í afvopnunarmálum séu með þeim hætti að þær gefi vonir um betri tíð og að hugmyndirnar um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd verði þess vegna óþarfar. Ég tel að þær tillögur og hugmyndir sem fram hafa komið frá ráðamönnum í Sovétríkjunum séu jákvæðar, skipti miklu máli. Ég er hins vegar ekki svo trúaður á þá eða aðra leiðtoga stórveldanna, ekki hins stórveldisins heldur, að ég telji rétt að við bíðum, höldum að okkur höndum og aðhöfumst ekkert í máli af þessu tagi. Ég held þvert á móti að það sé nauðsynlegt einmitt til þess að stórveldaleiðtogarnir og aðrir taki á þessum málum af fullri alvöru að þeir finni hreyfingu og áhuga alls staðar, einnig hér á Norðurlöndum, einnig í kröfunum um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd.

Ég lít svo á að hér sé um að ræða hugmyndir sem ekki bara skipta máli fyrir okkur, heldur sé hér um að ræða hugmyndir sem geti haft víðtækari alþjóðleg áhrif og ég tel að það eigi að halda þeim til streitu hvað svo sem menn eru að gera í höfuðstöðvum stórveldanna. Þess vegna vara ég mjög við því að vera með hugmyndir um það að stórveldaleiðtogarnir leysi þetta. Við verðum sjálf að hafa sjálfstætt frumkvæði í utanríkismálum, þessum þætti þeirra eins og öðrum.

Hæstv. utanrrh. nefndi hér fyrr í kvöld hugmyndirnar um varnarbandalag Norðurlanda sem komu hér upp fyrir fjórum áratugum og því miður urðu ekki að veruleika. Því miður tókst að kljúfa Norðurlöndin í það skiptið. Kannske tekst það nú í sambandi við kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd að ná samstöðu um utanríkismál á Norðurlöndum og alþjóðamál sem hafi alþjóðleg áhrif.

Það er ljóst að á næstu vikum reynir á í þessu efni. Í fyrsta lagi á ríkisstjórnina hvort hún fellst á hugmyndirnar um embættismannanefnd til að athuga kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd og í annan stað mun það koma fram hvaða afstöðu flokkarnir hafa til þessara tillagna fyrir 21. apríl þegar næsti fundur þingmannanefndarinnar verður haldinn í Helsinki. Við munum fyrir okkar leyti í Alþb. ganga mjög ákveðið eftir því á næstu vikum að afstaða flokkanna liggi fyrir. Ég tel að þetta mál muni ráðast á næsta kjörtímabili og þess vegna sé nauðsynlegt að flokkarnir geri skýra grein fyrir þessum málum í kosningabaráttunni sjálfri.

Varðandi ummæli hv. 5. landsk. þm. um ræðu mína hér fyrr í kvöld vil ég segja: Það sem fram kom í ræðu minni hér fyrr í kvöld var einungis það sem hafði komið fram í blöðum á Norðurlöndum og á blaðamannafundi sem ég sat á sjálfur ásamt Anker Jörgensen, fyrrverandi forsætisráðherra Dana. Það sem hins vegar gerist á morgun eða öllu heldur í dag í Danmörku er það að þessi niðurstaða þingmannanefndarinnar verður birt í heild og þá verður unnt að taka hana til nákvæmari umræðu hér í íslenskum stjórnmálum sem annars staðar. Ég vona að hún verði til þess að skapa nýjan flöt í utanríkismálum á Íslandi og menn nálgist þessa hugmynd og þessar tillögur með opnum huga. Læsi sig ekki fasta, heldur umgangist þetta eins og viti bornar verur. Og það sakaði ekki þó menn brygðu fyrir sig Eiríksstaðatöltinu þegar þeir nálgast verkefnið.