12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4057 í B-deild Alþingistíðinda. (3681)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Árangur stjórnarstefnunnar í miðju góðærinu má draga saman í eftirfarandi niðurstöður:

1. Vaxandi hallarekstur og skuldasöfnun í ríkisbúskapnum þrátt fyrir hagstæð ytri skilyrði. Ástæðurnar eru aðallega tvær: Tekjujöfnunarkerfi ríkissjóðs er hrunið. Launþegum einum er ætlað að bera þær byrðar. Og í annan stað: Útgjöld ríkisins aukast ár frá ári samkvæmt lögmálum sjálfvirkni og síþenslu.

2. Félagslegt misrétti birtist okkur t.d. í ranglátu skattakerfi, í misrétti í lífeyrismálum, í harmkvælum í húsnæðismálum þar sem lánsloforðum hæstv. félmrh. verður vísað innistæðulausum til nýrrar ríkisstjórnar.

3. Úrelt stjórnkerfi. Það birtist okkur með ýmsu móti, í pólitískri ríkisforsjá í fjármálalífi sem ekki veldur verkefnum sínum, sbr. hrun Útvegsbankans, í úreltri sveitarstjórnarskipan sem gerir sveitarfélögin að niðursetningi í stjórnkerfinu, í seinvirku réttarfarskerfi sem glatað hefur trausti almennings.

4. Í úreltri atvinnustefnu. Undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar er haldið í bóndabeygju pólitísks skömmtunar- og kvótakerfis í sovéskum stíl. Óeðlileg hagsmunavensl tryggja sérhagsmuni og einokunaraðstöðu í stjórnkerfi, fjármálalífi og viðskiptum. Frjálsræði ríkir í gjaldeyrissóun en ströng höft á gjaldeyrisöflun.

Stjórnmálamenn dreifa kröftum sínum í allar áttir. Þeir bregðast venjulega við vandanum í stað þess að sjá hann fyrir. Viðbrögðin ráðast einatt af skammtímasjónarmiðum og gera oft illt verra. Niðurstaðan af slíku háttalagi er ævinlega á sömu lund. Hún endar í fúski. Fúskið er orðið einkenni opinberrar stjórnsýslu á Íslandi.

Þetta birtist okkur í misvægi milli vaxandi einkaneyslu og hnignandi opinberrar þjónustu. Kannist þið ekki við dæmin? Heimilin eru vídeó- og tölvuvædd en skólarnir eru vanbúnir. Einkabíllinn er fínn og gljábónaður en vegakerfið minnir víða á Ódáðahraun. Hafnirnar grotna niður þótt þessi þjóð lifi á fiskveiðum og útflutningi. Flugið á framtíðina, segja menn, en flugvellirnir eru eintómt forað.

Afleiðingin er m.a. atgervisflótti úr opinberri þjónustu yfir í einkageira. Hann stafar af því að ríkið sem vinnuveitandi vanmetur starfið og misbýður sjálfsvirðingu starfsmanna sinna.

Þetta kalla þeir góðu menn að vera á réttri leið og boða meira af svo góðu. Góðærið á að vera þeim eins konar fjarvistarsönnun fyrir góðri stjórnun. En ætli sjálfhælnin sé ekki hér sem oftar til þess að fylla upp í eyður verðleikanna?

Herra forseti. Í íslenskri stjórnmálaumræðu er mikið flaggað orðaleppum eins og frjálshyggja, félagshyggja. Reynt er að stilla þessum hugtökum upp sem ósættanlegum andstæðum.

Ræður félagshyggjumanna einkennast oft af frösum eins og þessum: Það vantar meiri peninga, það vantar meira af þessu eða hinu, það vantar fleiri stofnanir, það vantar hærri styrki eða eitthvað á þeim nótum. Frjálshyggjutrúboðið talar á öðrum nótum: Ríkið á að gera minna, segja þeir, af hinu og þessu, minni ríkisafskipti, minni opinbera þjónustu. Smám saman er fólk farið að trúa því að þetta séu ósættanlegar andstæður. Samt er það á misskilningi byggt. Hér er um að ræða tvær hliðar á sama máli. Mér finnst því umræðan einkennast oft af fordómum og frösum í stað hugsunar.

Það er sérstaða okkar jafnaðarmanna í íslenskum stjórnmálum að við viljum takmarka afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu, binda þar endi á sólund og bruðl einmitt af því að við viljum að ríkisvaldið einbeiti starfskröftum sínum og fjármunum að velferðarmálum fólks. Og þetta finnst okkur vera kjarni máls.

Við viljum skilgreina hlutverk ríkisvaldsins upp á nýtt. Við viljum að ríkið takmarki afskipti sín af atvinnulífinu við það að móta stefnu, setja almennar leikreglur, skapa atvinnulífinu stöðugleika og vaxtarskilyrði til framtíðar. Félagsleg þjónusta, sem við viljum bæta, verður ekki bætt á næstu árum nema á grundvelli öflugra atvinnuvega, atvinnuvega sem halda uppi hagvexti en greiða líka sinn hlut til sameiginlegra þarfa, og þar er mikill misbrestur á. Þess vegna þurfum við öflugra markaðskerfi, meiri samkeppni, minni ríkisíhlutun, minni einokun í atvinnulífinu. Af því að aukin samkeppni örvar framleiðslu og lækkar verð og er forsenda bættra lífskjara.

Þetta á ekkert skylt við gelda hugmyndafræði eða orðaleppa eins og frjálshyggju. Þetta er þvert á móti kjarninn í nútímalegri jafnaðarstefnu. Öflugt markaðskerfi, sem lýtur félagslegri stjórn, er forsenda velferðar, tvær hliðar á sama máli.

Allir menn, sem kenna sig við vinstrið, eru sammála um markmiðin, það góða sem við viljum gera. Það er uppi ágreiningur um leiðirnar, einkum milli Alþýðubandalagsmanna annars vegar og okkar jafnaðarmanna hins vegar. Hægri menn leggja höfuðáherslu á frjálst framtak í atvinnulífinu í orði kveðnu. En við segjum: Það frjálsa framtak má aldrei verða að forréttindum í skjóli ríkisvalds, eða snúast upp í einokun. Og atvinnulífið verður að skila sínum hlut til samneyslunnar. Það er grundvallaratriði.

Ríkisstjórn sem Alþfl. á aðild að mun taka upp gerbreytta stefnu í anda þessara viðhorfa, í hagstjórn, í atvinnulífi og í félagsmálum. Það verður ábyrg stjórn en í anda jafnréttis. Hvernig viljum við leysa okkar helstu vandamál?

Lítum í fyrsta lagi á ríkisbúskapinn. Við leggjum fram tillögur um heildarendurskoðun á ónýtu skattakerfi. Tillögur um staðgreiðslu skatta varða aðeins innheimtufyrirkomulag á sköttum launafólks. Þær eru til bóta svo langt sem þær ná. En launamenn hafa alltaf staðgreitt sína skatta. Aðalatriðið í skattamálum er heildarendurskoðun með það að markmiði að uppræta meinsemd skattsvikanna. Það er grundvallaratriði að menn eiga að vera jafnir fyrir lögum.

En hvað með ríkisútgjöldin, spyrja menn. Við segjum: Við viljum fækka útgjaldaliðum fjárlaga. Við munum bregða skurðarhnífnum á velferðarkerfi fyrirtækjanna, sem tekur í sinn hlut allt að 1/3 af útgjöldum ríkisins, en það þýðir í reynd að fyrir milligöngu ríkisvaldsins eru færðar til tekjur frá launþegum til hinna efnameiri í þjóðfélaginu. Á það munum við binda endi. Við viljum gera þetta vegna þess að við viljum verja þessum fjármunum betur í þau forgangsverkefni að byggja upp traust velferðarríki.

Þessum róttæku kerfisbreytingum á ríkisbúskapnum viljum við koma fram í áföngum á næsta kjörtímabili.

Við boðum líka, herra forseti, nýja atvinnustefnu. Hlutverk ríkisins á að vera eins og ég sagði að tryggja atvinnulífinu stöðugleika og festu, koma í veg fyrir einokunarverðmyndun, örva samkeppni, stuðla að framförum. Þess vegna viljum við meiri markaðsbúskap og minni ríkisforsjá í atvinnulífinu. Dæmi:

Við viljum sveigjanlegt veiðileyfakerfi í útgerð í stað kvóta á hvert skip.

Við viljum frjálst fiskverð og fiskmarkaði, staðbundna eða fjarskiptamarkaði.

Með viðskiptasamningum við önnur ríki á að tryggja háþróaðri fiskréttaframleiðslu á Íslandi greiðan aðgang að mörkuðum og leysa þannig kreppu frystiiðnaðarins.

Við viljum svæðaskipulag í landbúnaði í stað kvóta á hvert býli.

Við viljum fjárstuðning við vöruþróun á sölu afurða en ekki við framleiðsluaukningu.

Við viljum beita okkur fyrir langtímaætlun um gróðurvernd og landgræðslu og skapa þar ný störf.

Við viljum afnám ríkistryggðrar einokunar á vinnslu og sölu landbúnaðarafurða.

Við viljum frjálsan útflutning.

Við viljum rannsóknir í þágu nýrra hátæknigreina og stuðning við smáfyrirtækin.

Þetta eru allt saman róttækar kerfisbreytingar, ekki nöldur um meira af þessu eða hinu í óbreyttu kerfi. Þetta viljum við gera fyrst og fremst til þess að treysta undirstöður velferðarríkisins sem er meginmarkmiðið með okkar pólitíska starfi.

Herra forseti. Menn tala stundum um þjóðarsátt. Meiri hluti þjóðarinnar er sammála um þessi markmið, um það góða sem við viljum gera í félagslegum umbótum. Hingað til hefur verið ágreiningur um leiðir. Það er sannfæring okkar jafnaðarmanna að skapa megi þjóðarsátt um nýjar leiðir að sameiginlegum markmiðum á grundvelli jafnaðarstefnunnar.

Við viljum bæta gæði skólastarfs. Það kallar á hærri laun kennara.

Við viljum tryggja jafnrétti til náms, án tillits til efnahags foreldra en við munum standa við það með fjármunum.

Við viljum tryggja hinum öldruðu mannsæmandi lífeyri.

Við viljum leggja fram opinbert fé til að leysa fólk úr skuldafangelsi húsnæðismálanna, auka valfrelsi milli kaupa og leigu og þar skiptir sköpum að koma í framkvæmd tillögum okkar um nýtt kerfi kaupleiguíbúða sem mun leysa vanda hinna ungu og hinna öldruðu út frá þeirri forsendu að húsnæðiskostnaðurinn verði viðráðanlegt hlutfall launa.

Við viljum líka auknar fjárveitingar til skapandi menningar og lista.

Hver út af fyrir sig er andvígur þessum góðu markmiðum? Kjarni málsins er þessi: Ekkert af þessu verður vel gert nema á grundvelli öflugs atvinnulífs og með ráðdeild og endurskipulagningu á ríkisbúskapnum.

Herra forseti. Við jafnaðarmenn leggjum þunga áherslu á sameiginlegan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og samræmd lífeyrisréttindi. Við viljum að lífeyrissjóðurinn verði deildaskiptur eftir landshlutum, að stjórn fjármagns og ávöxtun verði heima í héraði. Takist ekki pólitísk samstaða um þetta milli stjórnmálamanna þá viljum við þjóðaratkvæði um lífeyrisréttindin. Við viljum að fólkið ráði en ekki forstjórarnir.

Pólitík er að vilja, sagði Olof Palme í sinni frægustu ræðu. Það er rétt. Ef við viljum breytingar á þjóðfélaginu þá getum við komið þeim fram. En pólitík er líka að velja, að velja réttu leiðirnar og mennina sem við treystum best til verka.

Hin pólitíska flóra á Íslandi er orðin skrautleg. Það lýsir miklum pólitískum áhuga, en lítilli samstöðu um leiðirnar. Samt vitum við öll af fenginni reynslu að fjölgun flokka er síst af öllu það sem þessa þjóð vanhagar um þessa stundina.

List er það líka og vinna

lítið að tæta upp í minna,

sífellt í þynnra að þynna

þynnkuna allra hinna.

eins og Stephan G. kvað.

Við þau ykkar, sem kennið ykkur við vinstrið og hafið fyrst og fremst áhuga á félagslegum umbótum, vil ég segja þetta: Flokkarnir sem kenna sig mest við félagshyggjuna, hvort heldur eru Alþb. eða Framsfl., hafa brugðist. Framsfl. er dæmdur af verkum sínum í s.l. 16 ár í ríkisstjórn. Hann er bundinn á klafa þröngra sérhagsmuna. Reynslan af Alþb. í þremur ríkisstjórnum var slæm. Þau spor hræða. Það er vegna þess að Alþb. er enn um sinn fangi fortíðarinnar á valdi úreltra hugmynda ríkisforsjár og miðstýringar. Það þarf að skipta um forrit á forustunni. Í raun og veru er Alþb. eins og önnur útgáfa af háværum Framsfl. Þetta eru flokkar fortíðarinnar.

Við ykkur, sem hingað til hafið staðið hægra megin við miðju, vil ég segja þetta: Sjálfstfl. er ekki í reynd það sem hann segist vera. Hann er bandalag ólíkra hópa. Valdamiklir aðilar í þeim flokki nýta sér ríkisstjórnarstöðu Sjálfstfl. til að tryggja sérhagsmuni í skjóli ríkisvaldsins eftir hefðbundnum leiðum pilsfaldakapítalismans á kostnað almennings. Hrun Útvegsbankans og Hafskipsskatturinn er nýjasta dæmið um þetta. Haldi Sjálfstfl. styrk sínum óbreyttum er það ávísun upp á áframhaldandi framsóknarvist. Samtryggingarkerfi þessara gömlu hagsmunaafla mun þá viðhalda áfram úreltri atvinnustefnu, úreltri landbúnaðarstefnu, úreltri pólitískri miðstýringu í bankakerfi og sjóðakerfi.

Herra forseti. Sérstaða okkar jafnaðarmanna í íslenskum stjórnmálum er skýr. ólíkt Alþb. og Framsókn og smáflokkum ýmsum til vinstri viljum við draga úr ríkisforsjá og efla markaðskerfi í atvinnulífinu. Ólíkt Sjálfstfl. erum við ekki bundnir á klafa neinna sérhagsmuna. Að því er varðar minnkun ríkisafskipta, þá er sá munurinn á þessum tveimur flokkum að við segjum það sem við meinum og meinum það sem við segjum.

Alþfl. er þess vegna sameiningar- og endurnýjunarafl í íslenskum stjórnmálum. Von framsýnna manna um róttækar breytingar á hagstjórn og félagsmálum á næsta kjörtímabili er tengt því að Alþfl. vinni myndarlegan kosningasigur í næstu kosningum. Það gæti orðið upphafið að nýju flokkakerfi, fyrsta skrefið til að brjóta niður múra úreltrar flokkaskipunar og sameina þá sem saman eiga að standa gegn öflum hagsmuna og forréttinda. Okkar verkefni er að leggja ykkur í hendur nýtt tæki til að smíða með nýtt og réttlátara þjóðfélag. Þessar nýju hugmyndir verða gott vegarnesti fyrir okkar þjóð á þeirri leið sem fram undan bíður inn í 21. öldina.

Þakka ykkur fyrir.