12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4069 í B-deild Alþingistíðinda. (3684)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Nú er fjögurra ára starfstíma ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. senn lokið og þá spyrja menn: Hvernig hefur til tekist með landsstjórnina á þessum fjórum árum, hverju hefur miðað í framfara- og réttlætisátt?

Ríkisstjórnin byrjaði á því í upphafi ferils síns að skerða laun landsmanna um fjórðung og þrátt fyrir bullandi góðærið hefur hún ekki skilað vinnandi fólki þessum launahlut sínum til baka. Og þrátt fyrir góðærið sem þessi ríkisstjórn hefur notið á starfsferli sínum hefur henni ekki tekist að reka ríkissjóð hallalausan. Hallinn á ríkissjóði nú er a.m.k. 6 milljarðar og víst er að ekki hafa þessar skuldir orðið til vegna stórtækra félagslegra framkvæmda. Það er nú öðru nær. Trú hinum hörðu gildum hefur ríkisstjórnin skammtað naumt framlög til margvíslegra félagslegra og menningarlegra mála. Þar má nefna framlög til dagvistarmála barna sem farið hafa hríðlækkandi frá ári til árs, framlög til framkvæmda við skóla, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, framlög til þróunaraðstoðar, framlög til listrænnar starfsemi og þannig mætti áfram telja. Það er ekki vegna þess að fé hafi farið til þessara hluta að ríkissjóður er lítið annað en botnlaus skuldahít. Það er ekki þess vegna. Það er vegna þess að ríkisstjórnin og þær ríkisstjórnir sem á undan henni komu hafa veitt fé landsmanna til óarðbærra framkvæmda. Ég nefni Blönduvirkjun sem dæmi, virkjun sem við höfum engin not fyrir eins og sakir standa, en vaxtakostnaðurinn einn af þeim lánum sem við höfum þegar tekið vegna hennar nemur í ár 162 millj. kr. Það er vegna fjármunameðferðar af þessu tagi sem innlenda og erlenda skuldasúpan er tilkomin og það verður svo sannarlega ekki heiglum hent að taka við stjórn ríkissjóðs úr höndum þessarar ríkisstjórnar.

En það kemur fleira til. Þessi ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur á starfsferli sínum markvisst rétt fjármagnseigendum og fyrirtækjum hér á landi hjálpandi hönd með margvíslegum frádráttarliðum og ívilnunum og þar með skert tekjur ríkissjóðs. Nú er það fjarri mér að halda því fram að ekki þurfi að hlúa að atvinnulífi hér á landi. Blómlegt atvinnulíf er vitaskuld ein undirstaða hagsældar. En í þessum efnum hefur ríkisstjórnin borið í bakkafullan lækinn og niðurstaðan er stórfelldur flutningur fjármagns frá almennum velferðarmálum til fyrirtækja og fjármagnseigenda.

Hið sama er uppi á teningnum í þeim frumvörpum til nýrra skattalaga, illa unnum og meingölluðum, sem ríkisstjórnin hefur skellt inn á hv. Alþingi á síðustu starfsdögum þess. Staðgreiðsla skatta hefur frá upphafi verið eitt af stefnumiðum Kvennalistans og höfum við í tvígang á þessu kjörtímabili flutt tillögur þar um. Kostir staðgreiðslukerfisins eru margir og þá ekki síst að öllu erfiðara er að svíkja undan skatti en annars. En hvað gerist? Frumvörp ríkisstjórnarinnar ná aðeins til launamanna. Þau ná ekki til fyrirtækja og fjármagnseigenda. Og þá má spyrja: Eru það fyrst og fremst launamenn sem hafa færi á að stunda skattsvik hér á landi? Nei, það eru ekki launamenn. Samkvæmt opinberum skýrslum eru það fyrirtæki og þeir sem geta millifært eigna- og fjármagnstekjur og það eru einmitt þessir aðilar sem skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar ná ekki til. Hvers vegna byrjaði ríkisstjórnin ekki á skattlagningu þeirra? Hvers vegna byrjaði hún á launamönnum? Ætli ástæðan sé ekki sú að hagur fyrirtækja og fjármagnseigenda er nær hjarta þessarar ríkisstjórnar en hagur ríkissjóðs því það er ríkissjóður og þar með landsmenn allir sem bera skarðan hlut frá borði hvað þetta varðar.

En það er ekki nóg með að ríkisstjórnin hafi byrjað á öfugum enda í skattamálunum. Skattafrumvörpin hennar fela í sé að skattbyrðin flyst frá hátekjuhópum til þeirra sem meðaltekjur hafa og frá barnlausum hjónum og einhleypingum til þeirra sem börn eiga. Það eru barnafjölskyldur með meðaltekjur sem hlutfallslega mesta skatta eiga að greiða. Ef einhver hefur farið í grafgötur um fjölskyldupólitík núverandi stjórnarflokka þarf þess ekki lengur. Hún stendur svört á hvítu í þessum skattafrumvörpum.

Og með hverju á svo fólk að borga skattana sína? Hvernig skilar þessi ríkisstjórn af sér í launa- og kjaramálunum? Svo dæmi sé tekið munu skólar og sjúkrahús landsins lamast innan fárra daga ef ekkert verður að gert vegna uppsagna starfsfólks sem ekki getur lifað af laununum sínum. Hér er um fjölmennar kvennastéttir að ræða og staðreyndin er sú að launamisréttið á milli kvenna og karla hér á landi hefur farið vaxandi í tíð þessarar ríkisstjórnar. Samkvæmt nýjustu opinberum upplýsingum jókst launamunur kvenna og karla frá árinu 1982 að telja um 6% körlum í hag. Karlar hafa nú um 60% hærri meðallaun á ársverk en konur. Vitaskuld er þetta ekkert annað en himinhrópandi virðingarleysi við og vanmat á störfum kvenna.

Víst er að ekki hefur góðærið góða skilað sér í léttar pyngjur vinnandi kvenna. Það eru konur sem þræla á skammarlega lágum kauptöxtum. Það eru fyrst og fremst konur sem fá 26 500 kr. lágmarkslaunin sem samið var um í síðustu kjarasamningum og sem við vitum að ekki er hægt að lifa af. Það eru konur sem ekki njóta launaskriðs, hlunninda eða yfirborgana undir borðið. Þær vinna á lágum töxtum, í vanmetnum kvennastörfum og heimilisstörfin, sem þær hafa sinnt svo lengi sem nokkur man, komast varla á blað í efnahagsreikningi þjóðfélagsins. Þetta eru staðreyndir málsins og því vill Kvennalistinn að fram fari gagngert endurmat á störfum kvenna þar sem uppeldis-, þjónustu- og umönnunarþættir hefðbundinna kvennastarfa eru metnir til jafns við frumkvæðis- og ábyrgðarþætti hefðbundinna karlastarfa, hækka sérstaklega lægstu laun með það að markmiði að ein dagvinnulaun nægi til heimilisframfærslu; meta starfsreynslu við heimilisstörf til jafns við starfsreynslu á vinnumarkaðinum, stytta vinnuvikuna án launaskerðingar og koma á sveigjanlegum vinnutíma, afnema afkastahvetjandi og heilsuspillandi launakerfi og tryggja atvinnuöryggi foreldra sem vilja vera heima til að sinna þörfum ungra barna.

Á þessu þingi hefur Kvennalistinn þegar lagt fram tillögur um gagngert endurmat á störfum kvenna, um lágmarkslaun sem dugi a.m.k. einstaklingi til framfærslu og um atvinnuöryggi foreldra ungra barna. Ekkert af þessum málum hefur fengist samþykkt. Virðingarleysið við störf og framlag kvenna til þjóðfélagsins stendur með blóma hér innan veggja Alþingis rétt eins og annars staðar í þjóðfélaginu. - Eða hvað? Var ekki heilbrmrh. að leggja fram frv. um fæðingarorlof, kynni einhver að spyrja. Mikið rétt. Frv. heilbrmrh. um fæðingarorlof sá dagsins ljós fyrir nokkrum dögum hér á hæstv. Alþingi. Eftir því hefur verið beðið síðan í haust þegar framlagning þess var boðuð en það kemur ekki fyrr fram en nú og Alþingi er gert að afgreiða það í snarhasti og án viðunandi umfjöllunar. Á hverju þingi fram til þessa hefur Kvennalistinn lagt fram frv. til laga um lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex og full laun kvenna í fæðingarorlofi. Það frv. hefur aldrei fengist svo mikið sem afgreitt úr heilbr.- og trn. Ed. þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um og þrátt fyrir að nefndinni hafi á sínum tíma verið afhentar hátt á fimmta þúsund undirskriftir þess efnis að afgreiða frv. Þannig starfar meiri hlutinn hér á Alþingi.

Þetta hefur þó e.t.v. orðið til þess að stjfrv. um lengingu fæðingarorlofs liggur nú fyrir Alþingi og er það vel. En gallinn á gjöf Njarðar er sá að ætlunin er að lenging fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex taki þrjú ár. Þessi skref hefði hæglega mátt taka í einu stökki eins og við Kvennalistakonur lögðum til með því að hækka framlag atvinnurekenda til lífeyristrygginga um tæplega 1%. Slíkt vill ríkisstjórnin hins vegar greinilega ekki heyra. Og gallinn er einnig sá að í frv. heilbrmrh. er konum stórlega mismunað í fæðingarorlofsgreiðslum. Opinberir starfsmenn og bankamenn njóta þegar fullra launagreiðslna í fæðingarorlofi og kona sem tilheyrir þessum hópi og er t.d. með 45 000 kr. í mánaðarlaun fær sín 45 000 í fæðingarorlofi. Kona sem vinnur fulla vinnu annars staðar á vinnumarkaðinum fær hins vegar rúmlega 33 000 kr. Kona í hálfu starfi fær 24 000 kr. og minnst fá heimavinnandi konur eða aðeins 15 000 kr. á mánuði. Þetta er réttlætið í garð kvenna í frv. heilbrmrh.

Herra forseti. Ég vil að lokum víkja fáeinum orðum að þeim makalausu staðhæfingum sem forustumenn bæði á hægri og vinstri væng stjórnmálanna hafa að undanförnu haft uppi um Kvennalistann.

Formaður Alþb., hv. 3. þm. Reykv., og einn höfuðandstæðingur hans, Morgunblaðið, hafa keppst við að halda því fram að Kvennalistinn skipi sér við hlið Alþb. í þjóðmálum, svo að notuð séu þeirra eigin orð, og kemst ekki hnífurinn á milli þeirra.

Hér er um rakalausan áróður að ræða. Það sem hvorugur vill kannast við er að Kvennalistinn byggir á forsendum sem eru gerólíkar þeim sem íslensk karlapólitík byggir á. Kvennalistinn byggir hugmyndir sínar og stefnu á þeirri reynslu sem öllum konum er sameiginleg og sú reynsla verður hvergi skilgreind innan hægri-vinstri forsendna íslenskra karlastjórnmála. Það er vegna þess að reynsla kvenna er af öðrum toga en sú reynsla sem hingað til hefur legið til grundvallar í íslenskum stjórnmálum og þess vegna er Kvennalistinn hvorki til hægri né vinstri í stjórnmálum, heldur önnur stjórnmálavídd, og kvennapólitík annars konar pólitík en sú flokkspólitík sem stjórnmálaflokkarnir reka.

Formaður Alþb. og talsmenn Sjálfstfl. afneita þessari sérstöðu Kvennalistans og reyna báðir að þröngva Kvennalistanum inn í það hugmyndakerfi sem skilgreinir þá sjálfa. Með þessu reyna þeir að skapa konur í sinni mynd, skilgreina þær eftir sínum karlaforsendum en ekki forsendum kvenna sjálfra. Þetta er nokkuð sem flestar konur þekkja gjörla og af þessu voru konur búnar að fá nóg fyrir margt löngu. Þess vegna varð Kvennalistinn til og á meðan réttur kvenna til að vera til á sínum eigin forsendum er ekki viðurkenndur, á meðan kjör kvenna og aðstæður eru eins og raun ber vitni í íslensku þjóðfélagi, mun Kvennalistinn áfram starfa.

Ég þakka þeim sem hlýddu.