12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4083 í B-deild Alþingistíðinda. (3689)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á morgun, 13. mars eru fjögur ár liðin frá því að konur komu saman og stofnuðu Kvennalista. Við þekktum gamla máltækið „Guð hjálpar þeim sem hjálpar sér sjálfur“ og vissum líka af langri reynslu að konur verða sjálfar að berjast fyrir rétti sínum, aðrir gera það ekki fyrir okkur. Hefðbundnar aðferðir höfðu ekki dugað til að skila konum til þeirra áhrifa að þær gætu fært sín eigin mál til betri vegar og jafnframt stuðlað að betri heimi. Þess vegna litum við hver á aðra og leituðum lausna á vanda kvenna. Þess vegna stofnuðum við Kvennalista.

Sú málamiðlun sem gert hefur það mögulegt fyrir konur að sameinast um sérframboð kvenna byggist fyrst og fremst á þeirri sannfæringu okkar að það sé svo miklu fleira og mikilvægara sem sameinar konur en sundrar þeim. Hún byggist jafnframt og ekki síður á því að fylkja sér um ákveðna sérstaka stjórnmálastefnu, kvennapólitík. Forsendur þessarar stjórnmálastefnu eiga rætur í lífreynslu kvenna sem er ólík lífsreynslu karla, ekki síst vegna ólíkra kynhlutverka og starfa. Þessar forsendur byggjast á því að leggja lífssýn og verðmætamat kvenna til grundvallar allri stefnumótun. Þetta gerir Kvennalistann frábrugðinn öðrum stjórnmálasamtökum hér á landi. Þar eru karlmenn í miklum meiri hluta og sjónarmið þeirra leiðandi í stefnumótun. Sjónarmið kvenna eiga hins vegar erfitt uppdráttar innan þeirra valdastofnana karla sem hefðbundnir stjórnmálaflokkar eru, hvað þá að þau fái að njóta sín.

Kanadískar rannsóknir á félagsstarfi og stjórnmálaþátttöku kvenna hafa sýnt að þær konur sem eru virkar í starfi kvennahreyfinga hefðbundinna stjórnmálaflokka geta nánast gleymt öllum væntingum sínum um að komast í framboð. Þær eru yfirleitt ekki valdar til frama heldur hinar sem láta sig kvennastörfin og kvennamálin minna varða. Þessar kanadísku niðurstöður eiga sér hliðstæður víða og þær vekja áhyggjur því að samkvæmt þeim eiga þær konur greiðasta braut til áhrifa í stjórnmálum sem eru ólíklegastar til að sinna málefnum kvenna sérstaklega eða vera málsvarar þeirra.

Markmið Kvennalistans er að gera viðhorf, reynslu og menningu kvenna að stefnumótandi afli í samfélaginu, ekki síður en reynslu, menningu og viðhorf karla. En því verður mér svo tíðrætt um stjórnmálaþátttöku kvenna að hún er nauðsynleg ásamt og með mörgum öðrum aðgerðum til þess að viðhorf, reynsla og menning kvenna geti í raun og veru orðið að stefnumótandi afli í samfélaginu.

Veist þú, hlustandi góður, að frá því að Alþingi var endurreist árið 1845 og til ársins 1982 munu um 500 karlar hafa verið kjörnir á þing, en einungis 12 konur? Þó hafa konur verið ríflega helmingur landsbúa allan þennan tíma eins og nú. Þessar tölur gefa óþyrmilega til kynna hve litlu viðhorf kvenna hafa ráðið í stefnumótun allt fram til vorra daga. En nú hafa konur gripið til sinna eigin ráða og bjóða nú fram sín stefnumið á eigin forsendum. Vaxandi fjölda kvenna og reyndar líka karla finnst boðskapur og starfshættir Kvennalistans höfða til sín og Kvennalistinn á hljómgrunn meðal kvenna, enda skjóta angar hans rótum hratt og víða um landið á þessu kosningavori. En frelsisbarátta kvenna hefur verið löng og ströng og er það enn.

Sagan af mótstöðu karla gegn þessari baráttu er ekki síður eftirtektarverð en sagan af frelsisbaráttunni sjálfri. Gömlu flokkunum og sumum körlum stendur nú nokkur stuggur af tilveru Kvennalistans. Það er eins og þeim finnist þetta bara ágæt hlutföll, 500 á móti 12, annað sé bara framhleypni. Þeir vilja ekki konur sem spila upp á eigin spýtur, en finna sæmileg vonarsæti handa konum í eigin flokki til að kaupa sér frið. Kvennalistakonum hefur svo verið núið því um nasir að framboð okkar geti hæglega leitt til þess að þingleiðir lokist dugmiklum og einörðum jafnréttiskonum á öðrum listum þar sem þær sitja í sæmilegum vonarsætum, eins og sagt var í leiðara Þjóðviljans í janúarlok.

En góðir áheyrendur. Það er nokkuð langt síðan orðið „sæmilegur“ þýddi „sæmandi“. Konum duga engin sæmileg vonarsæti lengur né heldur sætta þær sig við þau. Kvennalistakonur vildu fegnar sjá sem flestar dugmiklar og einarðar baráttukonur fyrir réttindum kvenna í öruggum sætum á öllum listum og óska þeim öllum velgengni. Hins vegar geta menn tæpast í lýðræðisþjóðfélagi með þessar óréttlætanlegu fjarvistir kvenna frá stefnumótun samfélagsins ætlast til þess að baráttukonur fyrir réttindum kvenna liggi þolinmóðar í hinum ljúfa kyrrþey og bíði með frumkvæði sitt eftir því að örugglega allir framboðslistar annarra séu nú komnir fram. Ef þá kæmi í ljós að engin, alls engin kona væri svo mikið sem í ylvolgu sæti á neinum lista, þá og aðeins þá mættu þær stökkva fram og óþekktast svolítið með sérframboð.

En hver er svo þessi réttur sem konum ber og þær þurfa að sækja eins og gull í greipar þeirra sem þjóðfélaginu ráða? Það er að sjálfsögðu réttur okkar til að ráða yfir eigin lífi og gerðum og vera metnar að verðleikum. Hins vegar hefur réttur annarra ávallt staðið konum nær. Réttur barna, aldraðra, fatlaðra, réttur fjölskyldunnar og svo er enn.

Stefna Kvennalistans byggir á verðmætamati sem setur mannleg gildi og félagslega samábyrgð í öndvegi. Áhersluatriði í nýsaminni stefnuskrá okkar fyrir þessar kosningar lýsa vel þeim grundvallarmun sem er á stefnu okkar og verkum þessarar stjórnar sem þrátt fyrir óvænt og ríkulegt góðæri hefur ekki tekist að skipta byrðum og býtum jafnt milli þegna landsins, en skilur við fjárreiður ríkisins í miklum ólestri.

Það er engin tilviljun að nú eru yfirvofandi uppsagnir starfsfólks, bæði á sjúkrahúsum og í skólum og á dagvistarheimilum. Þarna eru fjölmennar kvennastéttir sem geta ekki lifað af launum sínum. Uppsagnir þeirra eru afleiðing stjórnarstefnunnar, þeirrar stefnu sem virt hefur að vettugi mannlegar þarfir, þarfir fjölskyldunnar, stefnu sem fylgt hefur mýrarljósi frjálshyggjunnar.

Kvennalistinn hefur stundum verið nefndur sértrúarflokkur og tímaskekkja, en það er undarlegur heiðindómur sem kennir sig við frjálshyggju, fullur mannfyrirlitningar og leiðir til mannfórna. Og það er undarleg þversögn í þeirri stefnu sem kennir sig við frelsi og eflingu einstaklingsins að hvenær sem þarf að sinna einstaklingnum, ala hann upp, mennta hann, hlúa að honum og styðja hann - í stuttu máli: hvenær sem hann þarf mest á því að halda, þá hlaupa stuðningsmenn þessarar stefnu undan og skilja einstaklinginn eftir einan og óstuddan. Það er augljóst að þessir menn kunna ekki einföldustu grundvallaratriði í mannrækt. Þeim væri hollt að lesa ítarlega stefnuskrá Kvennalistans fyrir þessar kosningar. Þar er lögð áhersla á mannrækt og málefni fjölskyldunnar.

Sú hugmynd hefur komið fram og er ágæt að Ísland sé að loknum leiðtogafundi vænlegur griðastaður fyrir mikilvæga fundi friðar og afvopnunar. En við skulum líta okkur nær. Meðan hópar Íslendinga geta illa brauðfætt sig vegna lágra launa, nauðungaruppboð gerð á heimilum manna og fjórða hver fjölskylda undir fátæktarmörkum er Ísland ekki einu sinni griðastaður fyrir þá sem hér búa. Við skulum rækta garðinn okkar fyrst af öllu. Þar vilja Kvennalistakonur leggja hönd að verki. Og Kvennalistinn er ekki tímaskekkja heldur samstillt aðgerð kvenna á eigin forsendum til að leiðrétta þá óþolandi tímaskekkju sem réttindaleysi kvenna er.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.