12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4092 í B-deild Alþingistíðinda. (3692)

Almennar stjórnmálaumræður

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Kosningabaráttan snýst að sjálfsögðu um verk ríkisstjórnarinnar og þann árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu, en einnig um þær stefnur og þær leiðir sem þjóðinni er boðið upp á í kosningunum.

Auðvitað geta menn deilt um margt af því sem ríkisstjórnin hefur gert, en allir sanngjarnir og hugsandi menn hljóta þó að viðurkenna staðreyndir sem blasa við öllum sjáandi mönnum.

Fyrri ræðumenn Sjálfstfl. hér í kvöld, þeir Ólafur G. Einarsson og Þorsteinn Pálsson, hafa rakið ítarlega þessar staðreyndir og sýnt fram á árangurinn á kjörtímabilinu.

Þessi árangur: Að ná niður verðbólgunni, að bæta lífskjörin og auka frjálsræðið, kom ekki af sjálfu sér. Auðvitað hafa ytri skilyrði hjálpað til. En ytri skilyrði hafa áður verið hagstæð án þess að vera hagnýtt í þágu þjóðarinnar eins og Þorsteinn Pálsson rakti rækilega í sinni ræðu hér fyrr í kvöld. Það kostaði baráttu að ná niður verðbólgunni. Það tókst og skilaði sér í betri lífskjörum. Það kostaði einnig baráttu að auka frjálsræðið. Það tókst þrátt fyrir hrakspár og fordóma vinstri flokkanna. Við sjálfstæðismenn munum halda áfram á þessari braut.

Í umræðunum hér í kvöld er það fátt sem hefur vakið mikla athygli áheyrenda hygg ég. En það er þó eitt sérstaklega og það er það hversu Alþfl. er viðkvæmur fyrir því að honum sé svarað, að tillögur hans hafi verið skoðaðar og þær reiknaðar út. Alþfl. er nefnilega vanur því að geta leikið lausum hala án þess að nokkur taki eftir því hvað hann aðhefst hér í þingsölum. Sá tími er liðinn. Þeir verða að venjast því Alþýðuflokksmenn að þeim sé svarað í umræðum eins og þessum.

Á landsfundi Sjálfstfl., sem haldinn var um síðustu helgi, ríkti samstaða og eindrægni. Yfir 1000 fulltrúar hvaðanæva af landinu komu saman og mótuðu kosningastefnu flokksins. Við höfum valið okkur kjörorðið „Á réttri leið“. Með því viljum við leggja áherslu á þann árangur sem hefur náðst undir forustu sjálfstæðismanna um leið og við óskum eftir umboði til að halda áfram á leið til bættra lífskjara og aukins frjálsræðis. Nú eins og ætíð áður var unga fólkið áberandi í starfinu á landsfundinum. Það er Sjálfstfl. mikil hvatning að finna þann hljómgrunn sem sjálfstæðisstefnan á meðal yngstu kjósendanna, ekki síst vegna þess að nú í vor ganga 26 þúsund nýir kjósendur að kjörborðinu.

Það er mér sérstakt ánægjuefni að mega segja frá því hér í þessum umræðum að í kosningum til stúdentaráðs Háskóla Íslands, sem fram fóru í dag, sigraði Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta mjög glæsilega og tók einn mann af vinstri mönnum. Þetta sýnir m.a. hvert straumurinn liggur hjá unga fólkinu fyrir þessar kosningar.

Unga fólkið vill meira frelsi. Unga fólkið skilur betur en aðrir að frelsið færir okkur ný tækifæri og nýja möguleika. Unga fólkið hefur kjarkinn til að takast á við ný verkefni og kraftinn til að leysa þau. Unga fólkið er óhrætt við frelsið og ábyrgðina sem því fylgir.

Í nýlegri skoðanakönnun var spurt um það hver væri óskastjórnin eftir kosningar. Þrír af hverjum fjórum, eða 75% þeirra sem spurðir voru, vildu að Sjálfstfl. myndaði næstu ríkisstjórn. Þetta er auðvitað ánægjuleg viðurkenning á störfum og stefnu Sjálfstfl. og sýnir að þjóðin treystir sjálfstæðismönnum best fyrir stjórn landsins. Þessi niðurstaða er einnig til marks um það að kjósendur vilja ekki glundroðastjórn vinstri flokkanna. Þeir hafa aldrei verið sundraðri en nú og bjóða fram í sjö fylkingum og flokksbrotum. En hvernig er hægt að tryggja þann vilja þjóðarinnar að Sjálfstfl. verði í næstu ríkisstjórn?

Formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, hefur oftar en einu sinni látið að því liggja að með því að kjósa Alþfl. þá sé næsta öruggt að mynduð verði stjórn með Sjálfstfl. Með þessum málflutningi reynir formaður Alþfl. að koma þeim áróðri inn hjá kjósendum að hann sé búinn að ákveða samstarf með Sjálfstfl. og hafna vinstra samstarfi.

En geta kjósendur treyst Alþfl.? Lítum aðeins til sögunnar. Arið 1978 var starfandi hér ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., rétt eins og nú. Alþfl. var í stjórnarandstöðu og í kosningabaráttunni hamaðist Alþfl. á Framsfl. og Alþb. og gaf það sterklega í skyn að hann mundi mynda stjórn með Sjálfstfl. að loknum þeim kosningum. En hvað gerðist? Alþfl. vann sinn glæsilegasta sigur fyrr og síðar. En það var ekki mynduð stjórn með Sjálfstfl., Alþfl. myndaði stjórn með Alþb. undir forustu Framsfl. Og hver var nú helsti hugmyndafræðingur þeirrar stjórnar? Enginn annar en Jón Baldvin Hannibalsson, núverandi formaður flokksins. Þetta kallar Jón Baldvin reyndar meiri háttar pólitískt umferðarslys nú á dögum. En hver treystir því að sagan endurtaki sig ekki? Og hver er tilbúinn til þess að taka á sig þá ábyrgð að tryggja það að Alþfl. lendi ekki á ný í pólitísku umferðarslysi? Síðast í fyrradag skoraði einn af frambjóðendum Alþfl. í Reykjavík á stuðningsmenn sína í Háskólanum að kjósa Alþb. í stúdentaráðskosningunum sem fram fóru í dag. Árangurinn varð enginn.

En hver treystir slíkum flokki? Jón Baldvin Hannibalsson sló sér á brjóst í ræðu sinni, orðskrúðsræðu sinni hér áðan og sagði: „Við í Alþfl. segjum það sem við meinum og meinum það sem við segjum.“ Hann hefði fremur getað lýst sínum eigin flokki með því að orða sína hugsun á þennan veg: Við döðrum til hægri en veljum vinina til vinstri.

Eina haldbæra tryggingin fyrir þá sem vilja Sjálfstfl. í ríkisstjórn er þess vegna að Sjálfstfl. sjálfur vinni sigur í kosningunum í næsta mánuði. Þetta verða kjósendur að hafa í huga þegar þeir ganga að kjörborðinu til að velja sér stjórn fyrir næsta kjörtímabil.

Í kosningabaráttunni, sem nú er að hefjast, þarf Sjálfstfl. ekki að eyða mörgum orðum í að lýsa hvað hann ætlar sér að gera eftir kosningar og gefa loforð á báðar hendur. Sjálfstfl. getur vitnað til eigin verka og látið verkin tala.

Á síðasta ári voru gerðir kjarasamningar sem mörkuðu tímamót vegna þess að launþegar og atvinnuveitendur í landinu höfðu skilning á því að minni verðbólga er forsenda þess að bæta lífskjörin. Þetta gerðu þessar hreyfingar á grundvelli þess sem við sjálfstæðismenn köllum stundum að stétt vinni með stétt. Þessi þjóðarsátt, sem við hikum ekki við að kalla svo, tókst og var innsigluð í samvinnu við ríkisstjórnina, m.a. og kannske ekki síst vegna þess að í ríkisstjórninni situr Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., en hann nýtur óskoraðs trausts, bæði hjá launþegum og vinnuveitendum.

Einmitt þetta traust er í hrópandi ósamræmi við afstöðu verkalýðshreyfingarinnar á sínum tíma til Alþb., en það var oftar en tíu sinnum á síðasta kjörtímabili sem Alþb. stóð að því að skerða laun, samningsbundin laun, með lagaboði.

Við óskum eftir stuðningi þjóðarinnar við Sjálfstfl. í komandi kosningum til að halda áfram á réttri leið. Á réttri leið frá upplausn til ábyrgðar. Á réttri leið frá höftum til frjálsræðis. Á réttri leið frá stéttasundrungu til stéttasamvinnu. Á réttri leið til bættra lífskjara og betra mannlífs.

Góðir áheyrendur. Í kosningunum stöndum við frammi fyrir tveimur skýrum kostum. Annar kosturinn er að kjósa Sjálfstfl. og fá þannig sterka stjórn sem tryggir stöðugleika í efnahagslífi, þorir að takast á við verðbólgu og berst fyrir auknu frjálsræði. Hinn kosturinn er að kjósa einhvern vinstri flokkanna og opna þannig dyrnar fyrir verðbólgudraugnum, en sá vágestur hefur verið og verður ætíð fastur fylgisveinn vinstri stjórna.

Spurningin er hvort við viljum vekja upp verðbólgudrauginn eða kveða hann niður fyrir fullt og allt. Ykkar er að velja. Það val er auðvelt.