12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4095 í B-deild Alþingistíðinda. (3693)

Almennar stjórnmálaumræður

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Er það virkilega rétt að máttur þeirra Þorsteins Pálssonar og Steingríms Hermannssonar sé slíkur að þeir ráði olíuverði í gervöllum heiminum? Er það tilfellið að Halldór Ásgrímsson hafi af eigin rammleik hækkað hitastig sjávar og aukið fiskigengd á Íslandsmiðum? Er það svo að Matthías Bjarnason hafi í krafti síns viðskiptaráðherraembættis lækkað vexti í heiminum öllum? Eða að Alexander Stefánsson hafi byggt einn og óstuddur ókeypis húsnæði yfir hálfa þjóðina? Er góðærið ráðherrum ríkisstjórnarinnar prívat og persónulega að þakka, en allt sem miður hefur farið öðrum að kenna?

Málflutningur talsmanna stjórnarflokkanna hér í kvöld og undanfarið hefur gengið út á þetta. Það er góðæri, kjósið íhaldið. Það fiskast, kjósið framsókn. En hvað er þetta góðæri? Hverjum er það að þakka og hvert hefur það farið? Góðærið er komið frá íslenskum sjávarútvegi, þessum atvinnuvegi sem íhaldsöflin höfðu afskrifað þegar augu þeirra mændu blóðrauð og þrútin á erlenda stóriðju. Það er aukinn afli, hagstæð ytri skilyrði, en þó fyrst og fremst vinna sjómanna og landverkafólks sem dregið hefur aflann úr sæ og unnið úr honum. Það er fólkið, verkþekking þess, tilvera þess í hinum dreifðu byggðum hringinn í kringum landið sem hefur skapað góðærið nú eins og áður.

En hvert fór þá góðærið? Fór það í uppbyggingu og endurnýjun, tæknivæðingu og nýsköpun í sjávarútveginum og í byggðarlögum landsbyggðarinnar? Fór það í að rétta hlut launafólks? Fór það í stórátak til að snúa vörn í sókn í byggðamálum? Fór það í félagslega uppbyggingu, í skóla og dagvistir? Svarið er nei við þessu öllu, því miður. Góðærið streymir í gróðahítina. Þar er milljónum troðið í verslunarhallir undir einu einasta þaki. Svarið er í raun einfalt: Góðærið fór og fer í gæðinga ríkisstjórnarinnar, þá alikálfa sem hún hefur velþóknun á.

Sjálfstfl. segist vera á réttri leið og veifar plastkortunum. Frelsi og hamingja hafa nú að sögn Þorsteins Pálssonar tyllt sér inn á íslensk heimili í formi krítarkorta. Slík er málefnaleg staða Sjálfstfl. og formanns hans í upphafi kosningabaráttunnar að hálfum ræðutíma sínum hér ver hann í lofgjörð um plastkort. Þjóðin á að lúta höfði og þakka og kjósa Þorstein og Sjálfstfl. út á plastspjöld. Út á hvað á hún að kjósa hann næst? Pappaspjöld eða gúmmíspjöld eða nælonspjöld? Hver veit það? Nei, Sjálfstfl. segist vera á réttri leið vegna þess að verslunin græðir, að hermangið blómstrar og vegna þess að þeir sem eiga mikla peninga eru að eignast enn þá meiri peninga. Og fyrir þessi öfl er Sjálfstfl. auðvitað á réttri leið. Fyrir þessi 3-5% þjóðarinnar sem eiga stóreignir, sem fleyta rjómann ofan af í verslun og þjónustu, sem fitna á hermanginu, og svo ekki sé nú minnst á okrarana. Auðvitað er Sjálfstfl. á réttri leið fyrir okrarana, sem eru nú orðin lögleyfð og að því manni skilst virðingarverð stétt í þessu þjóðfélagi. Þessi 3-5% eiga auðvitað að kjósa Sjálfstfl. Hann á það skilið. Hann hefur staðið sig vel í hagsmunagæslunni fyrir þessi öfl. En aðrir eiga ekki að gera það.

Hvergi er það jafnbrýnt og jafnaugljóst að knýja verður fram gerbreytta stjórnarstefnu og úti á landsbyggðinni. Það er óhjákvæmilegt að draga stjórnarflokkana og sjálfa stjórnarstefnuna til ábyrgðar vegna fólksflóttans og ófremdarástands í byggðamálum. Stórfelldur niðurskurður til félagslegra framkvæmda úti um landið, efnahagsstefna sem er andstæð framleiðslugreinunum en hyglar milliliðunum og fjármagnseigendum, niðurskurður og sveltistefna í landbúnaði, eyðibýlastefna Jóns Helgasonar ásamt með atlögu að fjárhag sveitarfélaganna, m.a. með stórfelldri skerðingu Jöfnunarsjóðs, allt hefur þetta ýtt undir og aukið á þá erfiðleika sem við er að glíma í atvinnu- og félagsmálum byggðarlaga á landsbyggðinni. Til þarf að koma gerbreytt og ný stefna, ný viðhorf.

Alþb. vill beita sér fyrir stórátaki til alhliða uppbyggingar á landsbyggðinni. Ekkert minna dugir til að snúa svartsýni í bjartsýni, til að skapa á ný það andrúmsloft uppbyggingar og vona, þau tækifæri og þann þrótt í atvinnulíf og félagsmál sem einn getur hrakið veturinn á brott af landsbyggðinni.

Í fyrsta lagi þarf landsbyggðin sjálf að halda eftir miklu stærri hlut af eigin verðmætasköpun til að hækka laun og bæta lífskjör til að byggja upp og þróa atvinnulíf sitt.

Í öðru lagi þarf að koma til stóraukinn stuðningur við nýsköpun í atvinnulífi þannig að háþróaðar atvinnugreinar jafnt sem þróun hinna hefðbundnu greina geti boðið ungu og menntuðu fólki tækifæri úti á landi.

Í þriðja lagi þarf að gera stórátak í að jafna aðstöðu til félagslegrar þjónustu þannig að engum Íslendingi sé mismunað á grundvelli búsetu hvað varðar möguleika á menntun barna, heilsugæslu og aðra opinbera þjónustu. Þetta verður fyrst og fremst að gera með því að færa þjónustuna út til fólksins.

Pappíra eins og grunnskólafrv. menntmrh. Sverris Hermannssonar, þar sem draga á aftur inn í miðstjórnarbatteríið verkefni og völd frá landsbyggðinni, slíkum pappírum á að vefja upp í vöndul til að flengja þannig afturhaldsstefnu með til föðurhúsanna.

Í fjórða og síðasta lagi en ekki síst þarf róttæka stefnubreytingu til að snúa við blaðinu. Ráðið gegn frostavetri íhalds og framsóknar, sem legið hefur yfir landsbyggðinni, getur ekki verið að kjósa þá flokka aftur. Markaðshyggjan, leiðarljós þessarar ríkisstjórnar með niðurskurði á sviði félagsmála og opinberra framkvæmda og með gróðasjónarmið í öndvegi, er í eðli sínu andstæð byggðastefnu og því þarf grundvallarstefnubreytingu til.

Sennilega verður ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar fyrst og fremst minnst fyrir tvennt á sviði utanríkismála. Það er í fyrsta lagi fyrir að vera mesta hermangs- og hernaðaruppbyggingarríkisstjórn í sögu íslenska lýðveldisins og í öðru lagi verður ríkisstjórnarinnar minnst fyrir ótrúlega fylgispekt við harðlínu vígbúnaðarsinna, hina hörðu hauka í kjallaraliði Ronalds Reagans í Hvíta húsinu. Sú fylgispekt hefur m.a. birst í stuðningi við tilraunasprengingar Bandaríkjamanna og í andstöðu við kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Ef svo heldur fram sem horfir verður fylgispekt íhalds- og hermangsaflanna hér til þess að Ísland verður klofið frá hinum Norðurlöndunum á næsta kjörtímabili.

Ég hef lagt fram í Nd. Alþingis ásamt með fimm öðrum þingmönnum úr þremur flokkum frv. til laga um að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum, banna tilraunir og hvers kyns meðhöndlun slíkra vopna og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja um íslenska lögsögu.

Við leggjum til að Ísland, landhelgi og lofthelgi, verði alfarið og án undantekninga friðlýst og öll sérefnahagslögsagan og landgrunnið eftir því sem ýtrasti íslenskur fullveldisréttur leyfir okkur.

Og ég hlýt að spyrja: Hvort vilja menn heldur utanrrh. sem fórnar samstöðu Norðurlanda á altari fylgispektar við bandaríska hernaðarhagsmuni eða þá stefnu sem við bjóðum fram í þessu frv., stefnu afvopnunar, friðar og hlutleysis, stefnu friðlýsingar, Ísland og íslenska lögsögu án kjarnorku- og eiturefnavopna.

Góðir áheyrendur. Eftir einn og hálfan mánuð eiga 26 þúsund manns á aldrinum 18-24 ára rétt á því að kjósa til Alþingis í fyrsta sinn. Aldrei fyrr hefur svo fjölmennur hópur ungs fólks átt kost á því að leggja lóð sitt á vogarskálar íslenskra stjórnmála. Mín skilaboð til ykkar, ungu kjósendur, eru þessi: Notið rétt ykkar, kynnið ykkur málin, takið þátt og reynið með atkvæði ykkar að hafa áhrif á mótun samfélagsins í þá átt sem þið viljið. Lýðræðið er dýrmæt eign, rétturinn til að móta umhverfi sitt er ekki sjálfgefinn. Í Bandaríkjunum neytir innan við helmingur ungs fólks atkvæðisréttar síns í almennum kosningum. Slíkt áhugaleysi er hættulegt.

Alþb. vill bjóða ungu fólki á Íslandi til samstarfs um að byggja hér þjóðfélag réttlætis og félagslegs jafnaðar, þjóðfélag sanngirni og mannúðar. Og Alþb. vill að Íslendingar framtíðarinnar búi í herlausu og hlutlausu landi, friðlýstu fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Meginlínur íslenskra stjórnmála nú, einum og hálfum mánuði fyrir kosningar, eru skýrar. Sjálfstfl. leggur kapp á og virðist reyndar ganga að því sem vísu að hann verði áfram í ríkisstjórn. Og hvað veldur þeirri vissu og þeirri sjálfumgleði Þorsteins Pálssonar með plastspjöldin? Jú, vissan um það að hvort sem heldur er framsókn eða Alþfl., eða báðir ef með þarf, séu reiðubúnir til að fara í ríkisstjórn. Þetta er því miður deginum ljósara. Framsókn og kratar eru ekki bara komnir með tal, eins og sagt var í sveitinni. Þessir flokkar eru hvor sem annar bályxna í stjórnarsamstarf með íhaldinu.

Hafa menn heyrt Steingrím Hermannsson tala mikið um það nú að „allt sé betra en íhaldið“? Nú virðist þessi formaður frekar og þvert á móti starfa eftir reglunni: ekkert er eins gott og ekkert er mér eins kært og íhaldið. Eða Jón Baldvin? Hvað er efst á hans óskalista? Það að vera forsrh. í samstjórn með Sjálfstfl. og ef hann fær það ekki vill hann næsthelst vera utanrrh. í nákvæmlega eins ríkisstjórn. Það má í raun og veru einu gilda hvort menn kjósa höfuðbólið eða hjáleigurnar í þessu tilfelli, Sjálfstfl. eða framsókn eða krata. Eina mótvægið, eini valkosturinn sem knúið getur fram breytingar er Alþb. Nýir eða fleiri smáflokkar eða klofningsframboð munu ekki verða íhaldsandstöðunni til framdráttar. Kosningasigrar Alþb. hafa ætíð og réttilega verið lesnir af miðjuflokkunum sem krafa um vinstri stefnu. Krafa um breytingar kemur fram í kosningasigri Alþb.

Það er von mín og trú að sú rödd sem kallar til breytinga í íslenskum stjórnmálum í komandi kosningum á öndverðu sumri verði sterk. Ég óska tilheyrendum árs og friðar með hækkandi sól og býð góðar stundir.