12.03.1987
Sameinað þing: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4098 í B-deild Alþingistíðinda. (3694)

Almennar stjórnmálaumræður

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fyrst ein lítil kveðja til félaga míns úr Reykjaneskjördæmi, Ólafs G. Einarssonar, sem ég hef átt ágætt samstarf við um málefni kjördæmisins eins og aðra Reykjanesþingmenn. Hann notaði tækifærið enn einu sinni til að reyna að spyrða saman Kvennalistann og Alþb. Þetta er nú orðið svolítið lasið, hv. þm., og sýnir það eitt að höggstaðinn er erfitt að finna. Við látum okkar slíkar sendingar í léttu rúmi liggja og treystum kjósendum til að kynna sér stefnumið og vinnubrögð. Þeir sjá muninn.

8. jan. s.l. komum við saman í útvarpssal fulltrúar þingflokkanna, þ.e. formenn gömlu flokkanna og sú sem hér talar. Umræðuefnið var staðan í stjórnmálunum við upphaf kosningabaráttu. Blessaðir formennirnir voru ábúðarmiklir og samkvæmt viðtekinni venju með efnahagsvandann á herðum sér því það er nú svo með þennan efnahagsvanda, sem hefur haft forgang í stjórnmálum svo lengi sem elstu menn muna, að alltaf vantar mikið á að hann leysist þótt aldrei sé hörgull á lausnarorðum í munni stjórnmálamanna. Þeir skyldu þó ekki hugsa málin frá öfugum enda? Ætli það geti ekki verið að á því sviði sem öðru skorti ný tök, ný sjónarmið, nýja lífssýn. Kvenlega lífssýn.

Og á hvern hátt gæti kvenleg lífssýn bætt nýjum þætti í stjórnunarvefinn? Hvaða sjónarmið geta konur lagt til sem krydd í efnahagsgrautinn? Jú, konur spyrja annarra spurninga en karlar þegar móta þarf stefnu, hvort sem er í efnahagsmálum eða öðrum málum. Þær spyrja um áhrif á fjölskyldu og heimili. Fólk er þeim meira virði en snyrtilegar tölur á blaði. Samábyrgð er þeim rík í huga. Þær bera rétt hins veikari fyrir brjósti og þær eru ekki tilbúnar til að stefna afkomu heimilanna í voða fyrir stundarhagnað. Kvenlega kryddið gæti þess vegna heitið „Fjölskyldan í fyrirrúmi“.

Í fyrrnefndum útvarpsþætti sagði ég að Kvennalistinn mundi áfram sem hingað til leggja höfuðáherslu á bættan hag kvenna og barna, hjá okkur yrði fjölskyldan í fyrirrúmi og ég lýsti því yfir að vegna stefnu ráðandi afla í þjóðfélaginu væri fjölskyldan í hættu. Formennirnir ábúðarmiklu ætluðu að leiða þetta hjá sér og halda áfram að kýta á gömlu nótunum. Stjórnandi þáttarins var sem betur fer á verði og knúði þá til að eyða nokkrum orðum um þetta efni. Því miður stóð það ekki lengi, en þetta er eitt dæmið um það hvernig Kvennalistanum hefur oft tekist að breyta umræðunni og þetta finnur fólk.

Ég var nýlega á fundi á Sauðárkróki þar sem verið var að kanna jarðveginn fyrir kvennalista. „Ég get ekki sagt það hér og nú að ég mundi kjósa Kvennalistann“, sagði ein konan á fundinum, „en ég vil fá Kvennalista í þetta kjördæmi eins og annars staðar því það mundi breyta umræðunni.“

En hvað á ég við með því að fjölskyldan sé í hættu? Hver er staða fjölskyldunnar nú í góðærinu mikla? Hvað blasir við ungu fólki sem er að koma úr löngu og erfiðu námi og vill stofna eigið heimili? Hvernig tekur þjóðfélagið á móti börnunum sem eiga að erfa landið og hvers konar þjóðfélag er það sem fóstrar ofbeldi, misrétti og kúgun hins smáa og hrekklausa? Ég hika ekki við að segja að spjótin beinast að fjölskyldunni úr öllum áttum. Stefna stjórnvalda í launamálum, húsnæðismálum og skattamálum hefur kippt stoðunum undan fjölmörgum heimilum og leitt af sér bæði upplausn og óhamingju og svipt unga fólkið trú á framtíðina.

Alexander Stefánsson félmrh. hóf þessa umræðu hér í kvöld og talaði af myndugleika um afrek sín í húsnæðismálum. Ekki getur Kvennalistinn tekið undir þann lofsöng, enda er mér til efs að ráðherrann sé jafnánægður með verk sín og hann lætur.

Ein aðalástæða vinnuþrælkunar hér á landi er einmitt hve fólki reynist erfitt að koma sér upp þaki yfir höfuðið og það hefur versnað í tíð ríkisstjórnar framsóknar- og sjálfstæðismanna. Lág laun og háir vextir valda því að almennt launafólk hefur tæpast lengur ráð á lágmarkshúsnæði. Húsnæðislöggjöfin tekur á engan hátt tillit til fjölskylduaðstæðna. Allir fá jafnhátt lán, hvort sem þeir eru með litla eða stóra fjölskyldu, hvort sem þeir þurfa að minnka við sig eða stækka. Og það er ekki bara í lánakerfinu sem fjölskyldan verður út undan. Framlög ríkisins í gegnum skattakerfið eru viðamikil til húsnæðismálanna. Samkvæmt frv. til nýrra skattalaga, sem nú er til meðferðar hér á þinginu, fá allir sama skattaafslátt, en aðeins þegar þeir kaupa í fyrsta sinn. Barnafjöldi og þar með þörf fyrir meira húsrými hefur engin áhrif. Þeir sem hvorki geta né vilja leggja á sig þá vinnuþrælkun sem húsnæðisbaslinu fylgir eða geta náð endum saman þrátt fyrir vinnu myrkranna á milli hafa ekki í neitt hús að venda. Aðeins lítill hluti þeirra sem sækja um verkamannabústaði fær þar úrlausn. Við mörgum fjölskyldum blasir ekkert nema upplausn og vergangur.

Kvennalistinn hefur frá upphafi lagt megináherslu á aukið framboð leiguhúsnæðis. Á því sviði hefur félmrh. ekki komið öðru í verk en að láta kanna þörfina fyrir leiguhúsnæði, könnun sem auðvitað staðfesti það sem við höfum alltaf sagt. Víða á landsbyggðinni stendur skortur á leiguhúsnæði atvinnulífi fyrir þrifum og á það sinn stóra þátt í misvæginu í byggð landsins.

Lánsfé húsnæðiskerfisins kemur að stærstum hluta frá lífeyrissjóðunum. Framlag ríkisins til þess er í engu samræmi við það sem nauðsynlegt er til að fullnægja lágmarksþörf fyrir íbúðarhúsnæði í landinu. Framlög til félagslegra íbúðabygginga og leiguíbúða hafa farið stöðugt lækkandi. Vandanum er vísað til framtíðarinnar. Húsnæðismálin eru enn óleyst. Það er þörf nýrra viðhorfa.

Kvennalistinn vill að þarfir fjölskyldunnar verði hafðar að leiðarljósi við stefnumótun í húsnæðismálum. Við viljum hverfa frá þeirri eignaríbúðarstefnu sem ríkt hefur hér á landi svo fólk hafi frelsi til að velja hvort það býr í eigin húsnæði eða leigir. Við viljum leggja áherslu á félagslegt íbúðarhúsnæði og stórauka framboð á leiguhúsnæði, bæði á vegum hins opinbera og á vegum félagasamtaka. Við viljum breyta lánskjörum fyrir þá sem eignast vilja eigið húsnæði þannig að framlag ríkisvaldsins í formi vaxtaniðurgreiðslna eða skattaafsláttar komi þeim til góða sem þurfa þess helst með.

En fjölskyldan á víðar í vök að verjast en í húsnæðismálunum. Langur vinnutími og óhóflegt vinnuálag hefur eyðilagt eðlilegt fjölskyldulíf allt of margra. Sameiginlegar tómstundir eru fáar og truflaðar af glamri afþreyingariðnaðar sem engum verðmætum skilar þótt formaður Sjálfstfl. haldi að með honum fái almenningur sína æðstu drauma uppfyllta, að ógleymdum krítarkortunum.

Geysileg mótsögn er í viðhorfum til barneigna í þjóðfélaginu. Sjálfsagt þykir að fólk eignist börn, en þegar þau eru fædd er þjóðfélagið þeim fjandsamlegt. Fæðingarorlof er allt of stutt og illa þokkað af atvinnurekendum. Barnabætur og meðlagsgreiðslur eru skornar við nögl, dagvistir svo til eingöngu fyrir forgangshópa, skóladagur sundurslitinn og sums staðar tíðkast jafnvel nútímafráfærur þar sem börn allt niður í sjö ára verða að dveljast í heimavistarskólum í lengri eða skemmri tíma. Fóstrum og kennurum er ætlað æ stærra hlutverk í uppeldi einstaklinganna án þess að hið opinbera fáist til að meta það til launa eða búa þeim sómasamlegar starfsaðstæður. Á undanförnum árum hefur verið sótt að skólakerfinu og það rifið niður í stað þess að byggja það upp. Fíkniefnaneysla fer vaxandi og ofbeldi verður æ grófara.

Þetta er ekki fögur mynd, en hún er því miður sönn. Við getum ekki leyft þeim sem ráða að loka augunum og eyrunum og stinga höfðinu í sandinn. En hvers vegna er ástandið svona? Vita menn ekki, skilja menn ekki, geta menn ekki eða vilja menn ekki - nema það sé sitt lítið af hverju? Íslenskir ráðamenn hafa tapað áttum í talnaglímunni. Þeir eru löngu komnir úr tengslum við veruleika þeirra sem þeir eiga að vinna fyrir. Verðmætamat þeirra er bundið við krónupeninga og seðla að ógleymdum krítarkortunum. Jöfnun lífsgæða hefur strokast út úr orðabók þeirra.

Við þurfum nýtt fólk með nýjar hugmyndir og ný vinnubrögð, fólk sem getur og vill móta og framfylgja stefnu sem hefur manneskjuna og fjölskylduna í fyrirrúmi.

Góðir áheyrendur. Sólin hækkar óðum á lofti og hagsýnar húsmæður fá hreingerningarfiðring þegar sólarljósið lýsir upp fingraförin á veggjunum og sporuð gólfin. Tími vorhreingerninga er fram undan. Konur hafa alltaf kunnað að gera hreint. Karlar geta líka verið ansi duglegir. En þegar þeir gera hreint heima hjá sér heitir það „að hjálpa konunni“. Þegar þeir gera hreint í atvinnuskyni fá þeir sér mikilvirkar vélar og fara sem stormsveipur yfir loft, veggi og gólf. En þeir kunna ekki að fara vel út í hornin. Þeir hreinsa ekki á bak við ofnana og þeir laga ekki til í skápunum. Þeir skipta ekki um mold í blómapottunum og þeir viðra ekki bækurnar. Þeir geta verið ansans ári röskir, en þá skortir kvenlega natni. Þeir kunna ekki að nostra. Það verður alltaf eftir skúm í skotum.

Það þarf að gera hreint víða á þessu vori. Við skulum viðra almennilega út á stjórnarheimilinu, hleypa út vindlareyknum og leyfa nýrri lífssýn að blómstra þar í fersku andrúmslofti.

Ég þakka þeim sem hlýddu og býð góðar stundir.