14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef hlýtt á þessar umræður með nokkurri athygli, ekki síst vegna þess að ég er nýkjörinn í utanrmn. Og þá hlýtur að koma til minna kasta að fjalla um þetta mál. Ég hef hlýtt á mál hæstv. ráðh., sem lagði málið hér fyrir, og annarra sem hafa talað yfirleitt. Ég vil taka það fram að ég er algerlega sammála þessum samningi efnislega og mun stuðla að því í utanrmn. með mínu atkvæði þar að ríkisstj. fái heimild til að staðfesta þennan samning.

En það sem rak mig til að standa hér upp var reyndar að taka dálítinn þátt í umræðunni um orðalag og form. Það er að ýmsu leyti rétt, sem hér hefur komið fram, að finna má í þessum samningi ýmiss konar vandræðalegt orðalag. Það er engan veginn nógu skýrt. Og af því að við flest hérna höfum lært eitthvað í ensku, þá er það svo að það er jafnvel þægilegra að lesa enska textann í þessu tilfelli en þann íslenska vegna þess að þýðingin, sem gerð er á þessum samningi, er með þeim hætti sem mest er gagnrýnt af þeim sem reyna að hafa örlítið auga fyrir því hvað er gott ritmál. Það er alveg greinilegt að þessi samningur er þýddur á íslenskt stofnanamál. Þetta er hins vegar orðinn svo mikill ávani að maður kippir sér ekkert upp við það, og ég sé ekki neina leið til þess að fara að breyta orðalagi þessa samnings eða formi hans. Þetta er hlutur sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum annaðhvort að hafna þessu eða samþykkja. Það er alveg ljóst.

En ég fór nú að gamni mínu hér undir umræðunum að reyna að búa til orðalag á þennan samning, sem auðvitað er ekki fullkomið hjá mér vegna þess að aðstæðurnar hafa ekki verið reglulega góðar til að gera það sem best úr garði. Ef við hefðum fjallað um þetta mál hér í þinginu, þetta einfalda efni sem hér er um að ræða, hefðum við sett það sennilega upp í tvær greinar. Við hefðum ekki haft neitt hátíðlegt forspjall að þessu, en sett þetta upp í tvær greinar. Og af því að ég þarf að fjalla um þetta, og af því að ég þarf að skilja þetta, tók ég mig til og þýddi þetta á það mál sem mér finnst að ég skilji og setti það í það form sem við þekkjum. Ég ætla, með leyfi forseta, að segja hvernig ég skil þetta og mig langar til að bera það undir hv. þm. hvort þeir skilji samninginn ekki betur með því orðalagi sem ég kem hér með. Ég sleppi öllum löngum formálum. 1. gr. mundi þá vera svo:

„Þrátt fyrir ákvæði laga frá 1904 um einkarétt bandarískra skipafélaga til flutninga á vegum Bandaríkjahers er íslenskum skipafélögum heimilt að flytja vörur“ - og nú tek ég enga afstöðu til „military cargo“, mér er alveg sama hvað það þýðir í þessu tilfelli af því að ég er bara með smástílæfingu - „í þágu bandaríska varnarliðsins á Íslandi. Skulu flutningar þessir boðnir út og íslenskum og bandarískum skipafélögum einum heimilt að bjóða í flutninga þessa.“

Eftir að ég, svo aumur sem ég er nú kannske í þessu öllu, er búinn að setja þetta á blað skil ég loksins almennilega hvað er um að ræða.

Og 2. gr. mætti þá kannske vera svo og það þyrfti ekki nema tvær greinar:

„Samning þennan skal fullgilda skv. reglum sem gilda um það efni í hvoru landi um sig og öðlast samningur þessi þá gildi.“

Ég held að ef þetta hefði verið sett svona fram, hefðu engar verulegar deilur orðið um skilning á því hvað hér er um að ræða. Það hefðu kannske orðið einhverjar deilur um varnarmálin í heild sinni og um veru hersins hér o.s.frv., en ég held hins vegar að ef við hefðum getað fellt þetta samkomulag, sem við höfum gert, í það form sem okkur er skiljanlegast hefðu ekki orðið deilur af þessu tagi sem hér hafa orðið í dag.

En meginniðurstaða mín er sú að ég treysti mér ekki til þess að gera neina brtt. á þessum samningi og mun stuðla að því að hann verði samþykktur eins og hann liggur fyrir í þeirri þýðingu sem honum hefur verið valin og með því formi sem um þennan samning er.