29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

102. mál, skógrækt

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að þetta mál skuli vera hér á dagskrá, m.a. með tilliti til þess svartnættis sem gætti í umræðum hjá sumum á Alþingi um landbúnaðarmál fyrir stuttu. Það eru stórtíðindi að nú er stefnt að því í vaxandi mæli að bændur hefji skógrækt í þessu landi. Það hefur oft og af mörgum verið litið svo á að hér sé um einhverja firru að ræða, þetta sé hlutur sem geti ekki gengið upp á Íslandi, og menn hafa þá oft horft til þess að hér hafi ekki vaxið greniskógar í landinu án þess að við flyttum þær plöntur til landsins. Hitt hefur gleymst að ef Ísland hefði verið í tengslum við annað land landfræðilega séð, sem sagt skagi, hefði greniskógur verið búinn að nema hér land.

Ég gleðst einnig yfir því að hér er tekin ákvörðun um að skógræktarstjóri skuli ekki skipaður nema til sex ára í senn.

Það fer ekki á milli mála að okkur Vestfirðingum þykir sem Skógræktin hafi verið nokkuð treg að undanförnu til að hafa Vestfirði með þegar rætt hefur verið um möguleika í skógrækt. Samt er það söguleg staðreynd og það geta menn lesið ef þeir vilja að þegar Eggert Ólafsson ferðaðist um Ísland voru hæstu tré á landinu í Vestfirðingafjórðungi, nánar tiltekið við Breiðafjörð í nágrenni Þingmannaheiðar. Ég hygg að stór svæði þar í nágrenninu henti að mörgu leyti mjög vel til skógræktar.

Ég vænti þess að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi og að það náist samkomulag á Alþingi um vissar greinar sem e.t.v. valda deilum þar sem m.a. er fjallað um samskipti sveitarfélaga og Skógræktarinnar hvað varðar smölunarskyldu á búfé innan skógræktargirðinga. Ég tel að það komi mjög vel til greina á vissum svæðum á Íslandi, þar sem farið yrði af stað með skógrækt, að reyna að ná breiðri samstöðu um að taka þar land til trjáræktar þannig að hægt sé að draga verulega úr hinum mikla girðingarkostnaði sem hefur til þessa hamlað uppbyggingu eða stuðlað að lélegri nýtingu á því fjármagni sem til skógræktar hefur farið.

Umræðu frestað.