13.03.1987
Efri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4111 í B-deild Alþingistíðinda. (3702)

352. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Frsm. heilbr.- og trn. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. sem er á þskj. 877 frá heilbr.- og trn. um frv, til laga um breytingu á lögum nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og fékk til viðræðu Ingimar Sigurðsson, yfirlögfræðing heilbr.og trmrn., sem var formaður þeirrar nefndar sem samdi þetta frv., og einnig fékk hún til viðræðu Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóra, sem var tilnefndur í nefndina sem samdi frv. af Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Það liggur fyrir að það hefur verið lögð mikil vinna í samningu þessa frv. Fjölmargir aðilar sem málið varðar hafa ýmist komið til fundar við nefndina eða sent inn umsagnir, eins og fram kemur í grg. með frv. þar sem þeir aðilar eru allir taldir upp. Það kom fram í máli þeirra Ingimars og Sigurgeirs að samstaða er milli hagsmunaaðila um þetta frv. og það kom m.a. fram hjá fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga að þetta frv. mundi auka á sjálfstæði sveitarfélaganna varðandi þá þætti sem að þeim snúa.

Það eru nokkur nýmæli í þessu frv. Þau eru talin upp í grg. með frv. og tel ég ekki ástæðu til að fara að geta þeirra, það eru 11 þættir sem eru taldir þar upp, en það sem snýr að sveitarfélögunum er skipulagsbreyting, þ.e. skipting landsins í heilbrigðiseftirlitssvæði, sem þar er um að ræða og þar hafa verið gerðar tvær breytingar, annars vegar varðandi Akranes og hins vegar varðandi sveitarfélögin í Kjósarsýslu, þ.e. Mosfellssveit og Seltjarnarnes, sem munu sameinast um heilbrigðisfulltrúa ásamt Kjalarnes- og Kjósarhreppum. Þessar breytingar eru gerðar eftir beiðni þeirra sveitarstjórna sem þar eiga hlut að máli.

Þá má benda á aðra mikilsverða breytingu sem er um eiturefnaeftirlitið, að það sé stofnuð sérstök deild varðandi þann þátt, sem allir eru sammála um að sé mjög brýnt með tillifi til aukinnar notkunar ýmissa eiturefna í nauðsynjavörum og einnig þeirra aukaefna sem farið er að setja í matvæli.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Nefndin mælir með að það verði samþykkt óbreytt, en fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Kolbrún Jónsdóttir og Árni Johnsen.