13.03.1987
Efri deild: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4121 í B-deild Alþingistíðinda. (3731)

363. mál, póst- og símamál

Frsm. samgn. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti samgn. um frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn og starfrækslu póst- og símamála, nr. 36/1977, sem liggur fyrir á þskj. 899 og brtt. á þskj. 900.

Nefndin hefur rætt þetta frv. og kallað til viðræðu Ólaf Tómasson póst- og símamálastjóra, Jennýju Jakobsdóttur, formann Póstmannafélagsins, Ragnhildi Guðmundsdóttur, formann Símamannafélagsins, og Ragnhildi Hjaltadóttur og Halldór Kristjánsson frá samgrn.

Þetta frv. var mjög einfalt í sniðum. Eins og kom fram þegar mælt var fyrir málinu hér í hv. deild var það lagt fram til þess að losa um þannig að hægara væri að hagræða starfsháttum Póst- og símamálastofnunar án þess að breytingar þyrftu að fara fyrir Alþingi í formi lagabreytinga. Það þótti of þungt í sniðum. Eigi að síður fannst nefndinni eftir skoðun á frv. ástæða til að kveða skýrar á um nokkur atriði eins og fram kemur í brtt. nefndarinnar á þskj. 900. Breytingartillögurnar eru:

Í fyrsta lagi er í a-lið lagt til að á undan 1. gr. komi tvær nýjar greinar er orðist svo að 1. gr. laganna orðist þannig að samgrh. fari með yfirstjórn póst-, síma- og annarra fjarskiptamála; þar sé kveðið skýrt á um yfirstjórn hans.

Í b-lið að 2. gr. laganna orðist svo:

„Póst- og símamálastofnunin er sjálfstæð stofnun sem fer með framkvæmd póst- og símamála samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum og reglum sem gilda um póstmál og fjarskipti.“

Þarna er lögð áhersla á sjálfstæði stofnunarinnar. Önnur brtt. er að 1. gr., sem verður 3. gr., orðist svo:

„5. gr. laganna orðist svo:

Starfsemi Póst- og símamálastofnunarinnar greinist í meginatriðum í stjórnunarhluta og rekstrarhluta.

Stjórnunarhluti stofnunarinnar skiptist í aðalsvið. Rekstrarhluti stofnunarinnar skiptist í póst- og símaumdæmi.

Hverju aðalsviði stjórnar framkvæmdastjóri, en umdæmisstjóri hverju umdæmi.“

Þarna er kveðið skýrar á en frv. gerir ráð fyrir um umdæmisskiptingu Pósts og síma.

Þriðja brtt. er að 2. gr., sem verður 4. gr., orðist þannig að 6. gr. laganna orðist svo: „Framkvæmdastjórar aðalsviða vinna að stefnumörkun í störfum stofnunarinnar, áætlanagerð, eftirliti, almennum fyrirmælum og öðrum heildarstefnumálum.

Umdæmisstjórar annist rekstur póst- og símstöðva, verkstæða, birgðastöðva og annan þann rekstur á vegum Póst- og símamálastofnunarinnar í umdæminu sem þeim er falinn samkvæmt rekstraráætlunum og öðrum fyrirmælum er gilda um stofnunina.“

Hér er kveðið á um starfssvið umdæmisstjóranna. Síðan er lagt til að 7. gr. laganna falli brott. Í 7. gr. er kveðið á um mörk umdæma, en með þessari lagasetningu er losað um umdæmamörkin og það er sett í vald stofnunarinnar að ákveða störf þeirra þannig að ef þurfa þykir þá má breyta umdæmamörkum en þau ekki skorðuð í lögum eins og nú er.

Fimmta brtt. kveður á um að 1. málsl. 8. gr. laganna orðist svo:

„Póst- og símamálastjóri skal eigi sjaldnar en ársfjórðungslega kalla saman fund með framkvæmdastjórum aðalsviða og umdæmisstjórum stofnunarinnar.“

Sjötta brtt.: „1. mgr. 10. gr. orðist svo:

Í stofnuninni skal starfa starfsmannaráð skipað fulltrúum samtaka starfsmanna stofnunarinnar og forstöðumönnum tiltekinna þátta í stofnuninni.“

Og sjöunda brtt.: „Á eftir 2. gr. komi ný grein (verður 8. gr.) er orðist svo:

4. mgr. 11. gr. laganna orðist svo:

Tekjur samkvæmt gjaldskrá skulu nægja til að rekstrarjöfnuður náist, miðað við að rekstur og fjárfestingar fari eftir meginstefnu 1. mgr. 3. gr. og fyllsta aðhalds sé gætt.“

Þetta er samhljóða núverandi lögum og er til þess að undirstrika fjárhagslegt sjálfstæði þessarar stofnunar.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með þessum brtt. sem hún fylgir á þskj. 900 og ég hef nú gert grein fyrir, en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. ef fram koma.