13.03.1987
Efri deild: 61. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4123 í B-deild Alþingistíðinda. (3733)

401. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Egill Jónsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þau lög voru sett árið 1962 og eins og þeir muna sem þá fylgdust með málum varð sú löggjöf tilefni til mikilla deilna, sérstaklega innan landbúnaðarins og reyndar líka á Alþingi.

Framsfl., sem þá var í stjórnarandstöðu, beitti sér mjög gegn þessari lagasetningu og þá sérstaklega vegna framleiðendagjaldsins sem þá var tekið upp og tekjur deildarinnar voru á vissan hátt grundvallaðar á.

Þetta frv. kveður á um, ef að lögum yrði, að framleiðendagjaldið, sem er 1% af verði allrar búvöru, yrði lagt niður. Það hefur verið viðleitni í þá átt, eins og fram kemur í grg., að afnema þetta gjald. Þannig var þegar lögin voru fyrst endurskoðuð árið 1971 kveðið á um að afnema gjaldið í áföngum og reyndar líka árið 1973, en þetta reyndist í þessum tilvikum óframkvæmanlegt vegna þess að hagur deildarinnar leyfði ekki slíkar breytingar. Ástæðan fyrir því var sú að deildin varð að taka fjármagn að láni sem var lánað út á betri kjörum en hið aðfengna fjármagn var miðað við. Síðan kom að því 1973 að heimildum var breytt til ákvörðunar á lánskjörum og upp úr því fór deildin að lána út verðtryggð lán, fyrst til vinnslustöðvanna og síðan til bænda. Sú skipan mála var tekin upp árið 1976 og síðasta breytingin var svo gerð árið 1979 þegar tekin var ákvörðun um að lána öll lán deildarinnar út verðtryggð. Þar með má segja að teningnum hafi verið kastað. Landbúnaðurinn hefur síðan greitt fyrir fjármagn frá Stofnlánadeild landbúnaðarins á kostnaðarverði og þar af leiðandi eru ekki sömu rök fyrir því að framleiðendagjaldið verði áfram markaður tekjustofn eins og áður var.

Það kemur líka fram í skýringum við þetta frv. að tekjur deildarinnar hafa aukist umtalsvert á síðustu árum og rekstrarhagnaður hefur verið fjögur ár í röð og ráðstöfunartekjur deildarinnar hafa aukist enn þá meira en þeim tekjuafgangi nemur. Af þessu tilefni er lagt til að þetta gjald verði afnumið sem mundi þýða um 3% launahækkun hjá bændum. Þetta gjald nemur trúlega á þessu ári einhvers staðar ekki mjög langt frá 100 millj. kr. og munar að sjálfsögðu um minna en losna við þá greiðslu.

Frv. gerir ráð fyrir öðrum og reyndar líka veigamiklum breytingum, en 2. gr. frv. fjallar einmitt um það, þess efnis að aftan við I. kafla laganna komi nýr kafli um stofnfjárreikninga. Þar er höfð til hliðsjónar sú skipan sem viðhöfð er í sjávarútveginum og mjög byggt á þeirri fyrirmynd sem þar er lögð til grundvallar við stofnfjárreikninga fiskiskipa. Með þeirri tilhögun sem hér er lögð til er gert ráð fyrir að 2% af greiðslum afurðaverðs verði innt af hendi inn á þessa stofnfjárreikninga og verði sem greiðsla til að standa skil á viðskiptum við stofnlánadeildina frá hverjum og einum bónda. Í frv. og skýringum við það er kveðið nánar á um hvernig þetta uppgjör mundi fara fram.

Tafla 4 sýnir hvernig vanskil hafa aukist við stofnlánadeildina allt frá 1980-1985 af 37% áfallinna árgjalda og upp í 60% eins og verið hefur á síðustu árum. Með því að stofna til þeirra stofnfjárreikninga, sem hér er kveðið á um, á að vera mun auðveldara fyrir deildina að ná inn áföllnum afborgunum og vöxtum sem auðvitað á að verða til þess að bæta rekstrarstöðu deildarinnar. M.ö.o.: frv. gerir ráð fyrir að deildin muni tapa þeim tekjum sem framleiðendagjaldið hefur fengið henni, en aftur á móti kæmi þar á móti lögboðinn sparnaður af hendi framleiðenda sem gengi til greiðslu á afborgunum af lánum og mundi þannig styrkja rekstur deildarinnar.

Þetta er meginefni frv. og með því að hér er nú komið að þinglokum er augljóst mál að frv. verður ekki að lögum á þessu þingi. Hins vegar verður því dreift til umsagnar og þá fást viðbrögð við þessu frv. og hlýtur það að verða nokkur vísbending um í hvaða ljósi menn kunna að meta þessi mál.

Ég ætla svo ekki, virðulegi forseti, að tefja fundinn með frekari skýringum á þessu frv., en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til landbn. og 2. umr.