29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

103. mál, tékkar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þau svör sem hann veitti mér þó ég hafi tekið málið upp undir máli sem snertir ekki beint vaxtamál sem slík.

Það er alveg bersýnilegt að hæstv. ráðherra telur ekki að hann hafi mikið um þessi mál að segja, hann vísar þessu á bankaráð ríkisbankanna. Ætlast ráðherrann til þess að í bankaráðum ríkisbankanna fari menn að greiða atkvæði um vaxtaprósentur eða hvað? Það er mál sem við getum tekið hér til umræðu síðar og auðvitað geta viðskiptabankar ríkisins haft mjög veruleg áhrif. En ætli þeir telji sig nú ekki dæmda til þess að dansa með ef allt vaxtakerfið fer í gang hér í þjóðfélaginu, bæði hjá einkabönkum og sparisjóðum? Ætli ríkisbankarnir, þó stórir séu, telji sig ekki eiga býsna erfitt með að skerast úr þeim leik, jafnvel ljóta leik, sem fram undan kann að vera í þessum efnum. Þannig að ég held að í rauninni sé ekki hægt að ætlast til þess að bankaráð ríkisbankanna leysi þann vanda sem hér kemur upp.

Kjarni málsins er sá að í lögunum um Seðlabanka Íslands er heimild fyrir ráðherra og ríkisstjórn til þess að taka ákvörðun um tiltekið hámarksvaxtastig hér á landi. Sú heimild er alveg ótvíræð. Það er mín skoðun og ég lét hana koma fram í nál. og umræðum um seðlabankalögin á síðasta þingi. Ég tel að ríkisstjórnin geti tekið ákvörðun um hámarksraunvexti hér á landi og að allir vextir sem kunna að vera umfram það tiltekna mark teljist brot á okurlögunum. Ég held að það sé alveg ljóst að viðskrh. hefur þetta vald og núv. hæstv. viðskrh. hefur viðurkennt að á forsendum seðlabankalaganna sé hægt að byggja slíkar ákvarðanir. Hann skortir því í rauninni ekki lagaheimildir í því efni að stemma hið fyrsta stigu við því vaxtaokri sem fram undan er. Hins vegar kann að vera að hann skorti til þess pólitískt þrek vegna þess ágreinings sem kann að vera á milli manna í stjórnarflokkunum um vaxtamálin.