13.03.1987
Efri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4138 í B-deild Alþingistíðinda. (3761)

391. mál, fæðingarorlof

Frsm, heilbr.- og trn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft þetta frv. til laga um fæðingarorlof til meðferðar. Þessi frumvörp fylgjast að, þ.e. þetta frv. sem hér er um að ræða, frv. til laga um fæðingarorlof, og hið fyrra sem nú þegar hefur verið fjallað um.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara yfir frv. Í 1. gr. þess er skilgreint hugtakið „fæðingarorlof“. Hefðbundin skilgreining á lagahugtakinu „orlof“ er: leyfi frá launuðum störfum, sbr. 1. gr. laga um orlof, nr. 87 frá 1971, en þar segir:

„Allir þeir, sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, eigi rétt á orlofi ásamt orlofsfé eða launum.“ - Eins og stendur hér um 1. gr. þessa frv.

Meginmál frv. er að sjálfsögðu 2. gr. frv., þar sem segir:

„Foreldri, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fjögurra mánaða fæðingarorlofi samkvæmt lögum þessum. Frá 1. jan. 1989 skal fæðingarorlof vera fimm mánuðir og frá 1. jan. 1990 sex mánuðir.“

Að öðru leyti fjallar frv. nokkuð um samskipti, ef ég má svo að orði komast, samskipti launþega og atvinnurekenda.

Í 8. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta: „Ákvæði laga þessara skerða ekki þann heildarrétt sem verkalýðsfélög kunna að hafa samið um umfram það sem í lögum þessum greinir.“

Heilbr.- og trn. er einhuga í afstöðu sinni til þessa máls og kallaði til viðræðna Ingibjörgu Rafnar, formann nefndarinnar sein samdi frv., sömuleiðis Ingimar Sigurðsson frá heilbrrn. og Birnu Björnsdóttur, lögfræðing Tryggingastofnunar ríkisins.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.