13.03.1987
Efri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4139 í B-deild Alþingistíðinda. (3763)

196. mál, tollalög

Frsm. fjh.- og viðskn. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti fjh.- og viðskn. um frv. til tollalaga. Þetta frv. hefur verið til ítarlegrar umræðu í Nd. og var samþykkt þar með nokkrum breytingum.

Fjh.- og viðskn. hefur nýtt þann skamma tíma sem hún hefur til umfjöllunar um frv. til þess að kynna sér efni þess eftir föngum, og hefur kallað til viðræðu Helga Hjálmsson, forstjóra Tollvörugeymslunnar, Árna Árnason hjá Verslunarráði Íslands og Bjarna Jónsson frá Félagi ísl. iðnrekenda. Sigurgeir Jónsson og Lárus Ögmundsson frá fjmrn. unnu með nefndinni og voru henni til ráðuneytis.

Það hefur orðið að samkomulagi að 2. umr. um frv. fari nú fram, en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma milli 2. og 3. umr., en samkomulag hefur einnig orðið um það að 3. umr. um málið fari fram á mánudaginn kemur.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir var fjarverandi lokaafgreiðslu málsins. Þess má geta að auk almenns fyrirvara sem er í nál. um afstöðu allra nefndarmanna skrifar Ragnar Arnalds undir frv. með fyrirvara.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt við þessa umræðu með þeim fyrirvörum sem ég hef nú gert grein fyrir.