13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4144 í B-deild Alþingistíðinda. (3780)

119. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Gunnar G. Schram) (frh.):

Herra forseti. Ég hafði þegar hafið að mæla fyrir nál. sem allshn. Nd. flytur á þskj. 827 við frv. til umferðarlaga sem komið er til Nd. eftir afgreiðslu Ed. Í nál. þessu kemur fram að allshn. Nd. fékk þetta ítarlega stjfrv. til meðferðar þann 25. febr. s.l. þannig að ekki gafst ýkja mikið ráðrúm til að fjalla um málið. Engu að síður var talað við allmarga þá aðila sem láta sig þessi mál skipta og nefndin fór yfir mörg erindi sem henni bárust vegna efnis frv.

Ég vek athygli á því að í nál. koma fram tvö atriði sem nefndin vildi leggja sérstaka áherslu á en ekki er sérlega fjallað um í frv. Það fyrra er að nefndin telur nauðsyn á því að setja nýjar reglur hér á landi um ökukennslu og ökunám, annaðhvort í sérstökum lögum sem um þetta mundu fjalla eða þá í reglugerð þar sem ítarlegar verði fjallað um þessa tvo mikilvægu málaflokka en nú er um að ræða. Verði þar m.a. fjallað um menntun ökukennara og námsefni og lágmarksfjölda kennslustunda til ökuprófs, en mun strangari ákvæði gilda annars staðar á Norðurlöndum í þessum efnum en hér á landi.

Því hefur oft verið haldið fram að orsakir hinna tíðu umferðarslysa megi m.a. rekja til þess að skortur sé á nægilega mikilli ökukennslu, nægilega löngum aksturstíma þeirra sem eru að búa sig undir ökupróf, enda kemur m.a. fram að slysatíðni er langmest meðal yngstu ökumannanna. Því telur nefndin sérstaka ástæðu til að leggja áherslu á þetta atriði.

Í öðru lagi taldi nefndin brýna nauðsyn á að sett verði skýr ákvæði í reglugerð af hálfu dómsmrn. um kennslu sem veiti réttindi til að stjórna léttu bifhjóli og torfærutæki, en slík ákvæði skortir nú að mestu leyti.

Hér er, herra forseti, um mjög viðamikla lagasetningu að ræða. Það frv. sem hér liggur fyrir Alþingi er nú flutt í þriðja sinn, á þriðja þingi, og hefur hlotið mjög ítarlega og mikla umfjöllun í Ed. og í milliþinganefnd þm. Ed. sem fór yfir frv. á s.l. sumri. Allshn. Nd. hefur gert allmargar brtt. við frv. eins og það er komið frá Ed. og þær er að finna á þskj. 819. Margar þessara brtt. lúta fremur að orðfæri og uppsetningu einstakra greina frv. en efnisatriðum, en þó lúta sumar þeirra að verulegum efnisatriðum sem eru áhorfsmál.

Ég hafði þegar þann 11. þ.m. gert grein fyrir flestum brtt. sem máli skipta, en vildi að þessu sinni, þar sem ég gat þá ekki lokið ræðu minni, halda áfram og gera grein fyrir þeim sem ég átti eftir að skýra, en ég mun alls ekki víkja að næstum öllum tillögunum því að margar þeirra skýra sig sjálfar.

Ég vil fyrst víkja að 63. gr. frv., en þar er fjallað um 22. brtt. nefndarinnar. Þar er orðið „vélsleði“ í 63. gr. frv. fellt niður. Vélsleði hefur í meðferð nefndarinnar verið flokkaður undir fyrirsögnina „torfærutæki“ þannig að það orð kemur ekki lengur fyrir sem slíkt heldur er fyrirsögnin á þessum kafla „Stjórnendur dráttarvéla, vinnuvéla, léttra bifhjóla og torfærutækja.“

Ég vil síðan víkja að verulegri breytingu sem felst í 23. brtt. nefndarinnar. Þar er lagt til að við bætist ný mgr. í 64. gr. sem er svohljóðandi: Ökutæki skal skráð í umdæmi þar sem skrásetningarskyldur eigandi þess á lögheimili eða varnarþing.

Í frv. sjálfu var einfaldlega gert ráð fyrir því að dómsmrh. setji reglur um skráningu ökutækja og eigendur þeirra. Þar er ekki annað sagt en þetta er falið dómsmrh. á vald. Hins vegar segir í grg. með 64. gr. eftirfarandi:

„Tekið skal fram að gert er ráð fyrir því að umdæmaskráning ökutækja verði lögð niður og landið verði eitt skráningarumdæmi“ og það er þetta sem felst í þessari heimild dómsmrh. til þess að setja reglur um skráningu bifreiða.

Þetta atriði var ítarlega rætt í nefndinni og niðurstaðan er sú að nefndin leggur til að hér verði sú breyting gerð að haldið verði núverandi skráningarnúmerakerfi, þ.e. að ökutæki skuli skráð í því umdæmi þar sem eigandi þess á lögheimili eða varnarþing. Til þess lágu ýmsar ástæður.

Eitt og annað mælir vitanlega með því að taka upp eitt skráningarkerfi fyrir landið allt, skrásetningarnúmerið fylgi bifreiðinni á öllum lífaldri hennar. Bifreiðaeftirlit ríkisins sendi nefndinni erindi þar sem fram kom að það telur að við slíka kerfisbreytingu sparist verulegt fé í starfsemi Bifreiðaeftirlitsins.

Nefndin hafði ekki ráðrúm til að gera efnislega könnun á þessu atriði vegna þess að hún þurfti að afgreiða málið sökum yfirvofandi þinglausna á tæpum hálfum mánuði, en taldi hins vegar að það væru svo mörg atriði sem mæltu gegn því að breyta um skráningarkerfi frá því sem nú er að ástæðulaust væri að taka undir tillögu í frv. um það mál. M.a. var ljóst að svo mikill ágreiningur er í því efni að sennilega hefði það tafið fyrir framgangi frv. á þessu þingi. Þannig er gert ráð fyrir að umdæmaskráningu ökutækjanna verði haldið áfram og ákvæðið er sett til að tryggja að svo verði.

Hins vegar er í næstu grein frv. gert ráð fyrir því að Bifreiðaeftirlit ríkisins skuli nú annast skráningu ökutækja, skoðun þeirra og eftirlit. Skráningin hefur áður heyrt undir lögreglustjóraumdæmin, en nú er hún alfarið færð til Bifreiðaeftirlitsins og við það situr í meðferð nefndarinnar. Þó er hér bætt einni setningu við 3. mgr.: Bifreiðaeftirlitsmenn skulu við eftirlit og framkvæmd lögregluvalds starfa í samráði við hlutaðeigandi lögreglustjóra.

Þessi viðbót er sett í frv. skv. brtt. nefndarinnar til að undirstrika nauðsyn samstarfs lögreglu og Bifreiðaeftirlits í starfi. Bifreiðaeftirlitsmenn hafa í dag og munu hafa skv. frv. lögregluvald á sérsviði sínu, vitanlega þó undir yfirstjórn dómsmrh. En það þótti nauðsynlegt að setja hér skýrt ákvæði um samstarf þeirra og lögreglu á hlutaðeigandi stað, m.a. vegna þess að nú kemur skráning bifreiða til með að heyra alfarið undir Bifreiðaeftirlitið.

Þá kem ég næst að þeim kafla frv. sem mestar breytingar voru gerðar á, en það er kaflinn þar sem fjallað er um fébætur og vátryggingu bifreiða vegna slysa og tjóna sem af þeim hljótast, en þar er um að ræða XIII. kafla frv. Það er lagt til í tillögum nefndarinnar að ákvæðum þess kafla frv. sem varðar bótaábyrgð og vátryggingu verði breytt til samræmis við það sem var í fyrri gerð frv. og er í núgildandi umferðarlögum.

Í frv. eins og það liggur nú fyrir er þessi kafli mjög svipaðs efnis og ábyrgðakaflinn í dönsku umferðarlögunum og fyrirmyndin var sótt þangað. Nefndinni bárust ýmsar athugasemdir, m.a. frá Sambandi ísl. tryggingafélaga, þar sem þessar nýju ábyrgðarreglur frv. voru gagnrýndar og ekki talið tímabært að taka slíkar ábyrgðarreglur upp hér á landi. Var nefndin sammála um að þessi efni þurfi að skoða betur og telur því rétt að frv. verði, eins og áður segir, að verulegu leyti fært í hið fyrra horf, þ.e. eins og það var borið fram á síðasta þingi, og svipað því sem ábyrgðarreglur laganna eru í dag. Á þetta við ýmsar breytingar sem fram koma í þessum kafla frv.

Þá er lagt til að tekið verði upp það nýmæli sem er slysatrygging ökumanns vegna tjóns sem hann kann að verða fyrir án þess að nokkur eigi í sjálfu sér sök á því nema þá hann sjálfur. Komi sú trygging til viðbótar slysatryggingum skv. almannatryggingalögum, en hins vegar er sú trygging mjög takmörkuð eins og margir vita. Það hefur þess vegna tíðkast að bíleigendur kaupi sérstaka tryggingu vegna slíkrar áhættu hjá tryggingafélögunum, svokallaða ökumannstryggingu, og einnig sérstaka farþegatryggingu. Þær tryggingar ættu því að hverfa þar sem þetta ákvæði kemur hér inn í lögin í staðinn.

Þá er einnig felld í þessum kafla niður sú takmörkun sem nú er skv. umferðarlögum á bótarétti farþega sem ekki eru fluttir gegn gjaldi. Þeir hafa mjög takmarkaðan og skertan bótarétt nú ef þeir eru fluttir gegn gjaldi og lenda í slysum, en því er breytt til betri vegar að dómi nefndarmanna.

Þá kem ég - og það er komið undir lokin á brtt. - að 36. brtt. sem fjallar um 99. gr. frv. Í 99. gr. er í frv. gert ráð fyrir að dómsmrh. skipi nefnd þriggja manna til að láta uppi álit um skiptingu bótaábyrgðar. Hér er um nýmæli að ræða í frv. Allshn. leggur til að þessi grein verði öll felld niður úr frv. Allshn. telur ekki efni til að lögskipa slíka nefnd, sem einungis á að vera ráðgefandi. Hún telur að ágreiningsefni þessi megi í ríkari mæli en nú er leysa á fullnægjandi hátt með álitsgerð lögfræðinganefndar tryggingafélaganna, en samkvæmt reglum hennar er niðurstaða þeirrar nefndar bindandi fyrir vátryggingafélögin. Þessi lögfræðinganefnd, sem starfar á grundvelli samkomulags vátryggingafélaganna, er ekki lögskipuð eða stjórnskipuð nefnd, en leysir úr mjög mörgum ágreiningsefnum sem koma upp varðandi bótaskyldu þegar um tjón er að ræða. Það sem er athyglisvert í því efni er að tryggingafélögin hafa skuldbundið sig til að hlíta úrskurði þessarar lögfræðinganefndar. Allshn. telur að starf nefndarinnar hafi gefist vel og ekki sé ástæða til að lögskipa nýja nefnd sem aðeins er ráðgefandi en ekki skuldbindandi fyrir vátryggingafélögin eins og sú nefnd sem þó starfar nú ólögskipuð.

Ég kem þá að lokum að gildistökuákvæðum laganna þ.e. 39. brtt. Þar leggur nefndin til að gildistaka þessara laga verði ákveðin 1. mars á næsta ári. Nefndin telur ekki rétt að miða gildistöku við áramót eins og gert hafði verið ráð fyrir í frv. þar sem áramótin séu ekki hinn heppilegasti tími, hvorki til að framkvæma þær breytingar sem gera þarf á umferðarmerkjum víðs vegar um land né heldur til að koma nauðsynlegri fræðslu til skila á þeim árstíma og á þeim dögum sem á undan fara gildistöku þessa viðamikla frv.

Í síðustu brtt. nefndarinnar, sem lýtur að ákvæði til bráðabirgða, er lagt til að 2. mgr. þess ákvæðis. sem fjallar um stjórnendur léttra bifhjóla og vélsleða, falli niður, enda gerir nefndin ráð fyrir því í sinni till. að aldur manna til að stýra slíkum tækjum verði óbreyttur frá því sem hann nú er í lögum, þ.e. 15 ár til að stjórna léttu bifhjóli, torfærutæki og þar á meðal vélsleða. Ed. hafði hins vegar hækkað þetta aldursmark í 16 ár, en það er lækkað í 15 ár í till. nefndarinnar, þ.e. í sama aldur eins og nú er í lögum.

Ég hef, herra forseti, þá lokið við að gera grein fyrir brtt. nefndarinnar. Stærstu brtt. eru, eins og ég sagði, á kaflanum um fébætur og vátryggingar. Síðan eru nokkrar breytingar gerðar á aldursmörkum. Þau eru lækkuð frá því sem Ed. lagði til um eitt ár að því er varðar létt bifhjól og torfærutæki. Aldursmarkið til þess að aka dráttarvél við landbúnaðarstörf er lækkað úr 14 árum í 13, léttum bifhjólum úr 16 í 15 eins og nú er í lögum, torfærutækjum í 15 ár, en nú er ákvæði um að aldursmörk ökumanna vélsleða séu 16 ár.

Nefndin taldi einfaldlega miklu raunhæfara að hafa þessi lægri aldursmörk vegna þess að minni hætta er þá á að lagafyrirmæli séu brotin, en jafnframt fengju ökumenn sem vildu eignast og stjórna slíkum tækjum nauðsynlega fræðslu. Þess vegna væri það á allan hátt affarasælla og raunhæfara að miða við þau aldursmörk sem hér er gerð tillaga um. Þá er vitanlega einnig meginbreyting að númerakerfinu verði haldið óbreyttu.

Að lokum vil ég nefna að nokkrar umræður urðu í nefndinni um mál sem mikið hefur verið rætt, þ.e. spurninguna hvort undanþáguákvæði varðandi bílbelti skuli áfram standa í lögum þannig að ekki verði unnt að beita sektum ef menn fara ekki eftir þeim fyrirmælum. Um þetta hafa verið mjög skiptar skoðanir. Í meðferð allshn. var fallist á afgreiðslu Ed. í þessu efni þannig að undanþáguákvæðið er fellt niður og mundi þá almennt sektarákvæði, sem er að finna í frv., gilda hvað varðar bílbelti eins og öll önnur ákvæði væntanlegra umferðarlaga sem brotin kunna að verða. Hér er vitanlega þó um mikið áhorfsmál að ræða og svo er raunar um mörg önnur atriði í frv. Það er spurning um hvar á að draga mörkin í mörgum efnum. En nefndarmönnum þóttu svo þung rök hníga að því, tölur um tíðni slysa þar sem belti eru notuð og hins vegar þar sem ekki hafa verið notuð belti, að þetta var látið standa óbreytt í tillögum nefndarinnar.

Ég vil að lokum, herra forseti, taka það fram að nefndarmenn voru sammála um þær ítarlegu brtt. sem ég hef nú hér skýrt og er að finna á þskj. 819. Þó áskildu nefndarmenn sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma við meðferð málsins og nokkrar hafa komið fram nú í dag og í gær frá einstökum nefndarmönnum og munu þeir skýra þær sérstaklega á eftir. Að öðru leyti varð samkomulag í nefndinni um þær brtt. sem fyrir liggja.

Undir þetta nál. skrifa auk mín Guðrún Helgadóttir, Friðjón Þórðarson, Pálmi Jónsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Stefán Guðmundsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Þess skal getið að Guðrún Agnarsdóttir sat fundi nefndarinnar.

Það er ástæða til að lokum, herra forseti, að leggja á það áherslu hve mikilvægt er að dómi nefndarmanna að frv. þetta fái loksins afgreiðslu hér á Alþingi. Það hefur þegar legið fyrir þremur þingum og væri ekki vansalaust að láta það enn daga uppi. Hér er um að ræða mikið þjóðþrifamál, mál sem varðar öryggi allra landsmanna í umferðinni, mál sem getur valdið því að slysum fækki og öryggi í umferðinni aukist.