13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4148 í B-deild Alþingistíðinda. (3782)

119. mál, umferðarlög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Frv. það til umferðarlaga sem er komið til 2. umr. hefur eins og lýst hefur verið hlotið allítarlega athugun á hinu háa Alþingi. Á undanförnum tveimur þingum hefur það legið fyrir hv. Ed. og hlaut þaðan afgreiðslu á þessu þingi eins og fram hefur komið hjá hv. frsm. allshn., Gunnari G. Schram. Eins og einnig kom fram í máli hv. frsm. hefur allshn. Nd. haft þetta mál til meðferðar í um það bil hálfan mánuð. Það er því ekki hægt að segja að nefndin hafi tafið málið heldur verður að líta svo á að hún hafi gengið mjög rösklega til verks. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Gunnari G. Schram, fyrir afar ötult starf og röggsama forustu í því starfi sem nefndin hefur af hendi leyst.

Þrátt fyrir að frv. hafi tafist þann tíma sem lýst hefur verið í Ed. og nefndarmenn þar hafi fjallað um málið í allshn. og Ed. í heild hafi fjallað um málið á tveimur og hálfu þingi sér allshn. Nd. sig knúða til að flytja eigi færri en 40 brtt. við frv. Með þeim brtt. tel ég að leiðréttar séu ýmsar misfellur sem á frv. eru, bæði að því er snertir málfar og efnisatriði. Ég vil þó láta þá skoðun mína í ljós að frv. sé hvergi nærri fágað enn sem komið er og mætti þar í ýmsu bæta, bæði um efnisatriði og orðalag, frá því sem það er nú. Á þeim skamma tíma sem allshn. Nd. hefur haft til umráða hefur eigi verið unnt að koma því við að fága þetta frv. eins og ég hefði talið æskilegt þar sem um slíka lagasmíð er að tefla.

Ég mun ekki fara að vitna í einstök atriði hvað þetta snertir, en ég segi það sem mína skoðun að sums staðar sé lagatexti í frv. ákaflega ítarlegur, jafnvel hjákátlega ítarlegur í einstökum greinum, misjafnlega ítarlegur um sambærileg efnisatriði eftir því um hvaða ökutæki sé að ræða og málnotkun er eftir mínum málsmekk sums staðar þannig að hún gæti farið betur. Þrátt fyrir þessar misfellur sem á frv. eru enn að mínum dómi er nefndin sammála um það að leggja til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem hún leggur til á þskj. 819. Rétt er að taka það skýrt fram, sem kom fram í lok ræðu hv. frsm., að nefndarmenn allir áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv. sem fram kunna að koma í hv. deild.

Ég vil þó áður en ég hverf að því að víkja að brtt. nefna eitt dæmi sem hefur valdið mér nokkurri umhugsun, en er tiltölulega lítilfjörlegt dæmi. Það er í 28. gr. þar sem segir:

„Eigi má stöðva ökutæki eða leggja því a) á gangbraut eða í minna en 5 metra fjarlægð áður en að henni er komið.“

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé sjálfsögð almenn regla, en ég tek eftir því að þessi regla, sem við gerum ekki tillögur um að breyta, muni taka af allmörg bílastæði í miðbænum í Reykjavík sem mörg hver eru útbúin með útskotum á gangstéttum að þau bílastæði ættu ekki, miðað við þá hægu umferð sem er á þröngum götum hér, að hafa í för með sér aukna slysahættu. Við vitum allir hv. alþm. að það eru ákaflega mikil vandkvæði í miðborg Reykjavíkur með bílastæði og hefur valdið mér nokkurri umhugsun hvort það sé rétt að hafa slíkt lagaákvæði svo fortakslaust sem þarna er um að ræða. Ég nefni þetta aðeins sem eitt dæmi af mörgum sem vissulega er smáatriði. Það gæti verið ákjósanlegt að í lagasetningu eins og þessari væri um sveigjanleg ákvæði að ræða sem væri á færi lögregluyfirvalda á hverjum stað að hnika nokkuð til.

Enn fremur vil ég segja um frv. jafnítarlegt og það er að það gæti að mínum dómi sumpart farið betur að stytta það nokkuð og færa hluta af því yfir í reglugerðir eða lögreglusamþykktir í hverju lögregluumdæmi fyrir sig.

Þessar almennu athugasemdir geri ég við frv. eins og það er þrátt fyrir að það sé hárrétt, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Norðurl, v., að miðað við þær brtt. sem allshn. flytur batni frv. verulega frá þeim búningi sem það er í eftir að það kom frá hv. Ed.

Ég vil þá víkja að brtt. sem flutt er af okkur nokkrum þm. við frv. og er við 50. gr. þess. Þessi brtt, er á þskj. 885 og er flutt af þremur nefndarmönnum úr allshn., þeim Pálma Jónssyni, Stefáni Guðmundssyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni, en auk þess af þm. Halldóri Blöndal, Páli Péturssyni, Karvel Pálmasyni, Steingrími J. Sigfússyni, Eggert Haukdal og Stefáni Valgeirssyni. Þessi brtt. er við tvo af þeim stafliðum sem upp eru taldir í 50. gr.gr. hefst á svofelldum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

"Dómsmrh. getur sett reglur um frekari skilyrði, þar á meðal um kennslu og próf til að mega stjórna“.

Síðan kemur upptalning í stafliðum um tiltekin ökutæki. Frekari skilyrði um kennslu og próf á m. a. við það sem í daglegu tali hefur verið kallað meirapróf. Vel má hugsa sér afi þar geti verið um eitthvert millistig að ræða frá hinu venjulega ökuprófi og til meiraprófs vegna þess að dómsmrh. hefði eftir greininni heimild til að setja um þetta reglur að eigin geðþótta.

En síðan segir í a-lið frv.: „Vörubifreið sem er meira en 3500 kg að leyfðri heildarþyngd.“

Við leggjum til í þeirri brtt. sem birtist á þskj. 885 að a-liður orðist svo: Vörubifreið sem skráð er fyrir meira en 5000 kg farm.

Þetta er það sem gildir í dag. Ef ákvæði frv. verða samþykkt og brtt. felld felur það í sér að þeim, og þeir eru allmargir, sem eiga tiltölulega léttan vörubíl, er ókleift að nota hann til að sækja sér efni til að mynda til búrekstrar, til að mynda til húsbygginga, margir húsbyggjendur sækja efni í sína grunna o.s.frv., byggingarefni og þess háttar eða til hvers konar annarra nota, nema hafa aukin prófréttindi, e.t.v. meirapróf. (GJG: Hve mörg hross mega vera?) Ég kem að því síðar, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson.

Nú vitum við að fjölmargir eiga bifreiðar af þessu tagi án þess að hafa meirapróf og nota í daglegum rekstri. Við höfum einnig fengið mjög sterkar athugasemdir varðandi þetta atriði frá Vinnuveitendasambandi Íslands sem telur að verði þessi ákvæði frv. lögfest og dómsmrh. notar þær heimildir sem lögin veita til að krefjast þegar aukinna prófréttinda mundi mjög mikill fjöldi manna missa atvinnu sína, m.a. þeir sem aka sendibifreiðum og hafa undir höndum bifreiðar af þessu tagi sem mundi verða útilokað að aka án aukinna prófréttinda miðað við þær kröfur um heildarþyngd sem hér eru settar fram. Þegar talað er um heildarþyngd er það bifreið með hlassi. Þess vegna leggjum við til, þeir hv. þm. sem ég nefndi hér fyrr, á þskj. 885 að þetta atriði verði fært í núgildandi horf.

Þá segir svo í c-lið sömu greinar: "Dómsmrh. getur sett reglur um frekari skilyrði, þar á meðal um kennslu og próf til að mega stjórna bifreið sem dregur eftirvagn eða tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd.“

Hér er til að mynda um að ræða kerrur sem margir ökumenn hengja aftan í jeppa og nota til minni háttar flutninga. Ég þekki það vel úr mínu umhverfi. Þar sækja menn byggingarefni, til að mynda sand, möl eða hvað eina ef um eitthvað lítils háttar er að ræða. Bændur sækja sér stuttar vegalengdir fóðurbæti, jafnvel áburð, byggingarefni, timbur o.s.frv. Bændur og hestamenn flytja hross. Jafnvel landsfrægir hestamenn þeytast með hross á milli landsfjórðunga á milli hestamannamóta. Væri þessi heildarþyngd ekki meira en 750 kg mundi verða tekið fyrir þetta að miklu leyti án þess að menn öfluðu sér aukinna prófréttinda, t.d. meiraprófs. Ekki væri t.d. hægt að fara með í kerru nema einn hest svo að ekki færi yfir 750 kg að heildarþyngd. Tveir hestar í kerru væru komnir yfir þessa þyngd. Þetta er aðeins dæmi. (GJG: Tveir hestar yrðu þá meirapróf?) Tveir hestar mundu þýða meirapróf. (Gripið fram í.) Aukin réttindi, þau sem hæstv. dómsmrh. kann að ákveða og hann kann að ákveða að það sé meirapróf.

Ég fer eindregið fram á það að þær brtt. sem við hv. þm. flytjum við þessar greinar verði samþykktar. Við c-liðinn gerum við till. um að í stað 700 kg komi 1400 kg sem er þó vægilega í sakir farið. En ég fer eindregið fram á það að hv. þingdeildarmenn samþykki þessar brtt. sem mundu þýða að við gætum haldið áfram notkun vörubifreiða og bíla með minni háttar kerrur nokkurn veginn í því horfi sem er í dag.

Nú má vitaskuld segja sem svo að hæstv. dómsmrh. hefði þetta mjög svo í hendi sér þrátt fyrir að frv. væri samþykkt óbreytt. Hæstv. dómsmrh. gæti til að mynda ákveðið að allir þeir sem nú hafa venjulegt ökuskírteini héldu þeim réttindum áfram sem þeir hafa í dag. En það kemur bara alltaf nýtt fólk sem mundi þurfa að leggja í aukinn kostnað, aukna fyrirhöfn, aukið nám til að geta tekið þátt í þeim daglegu og venjulegu störfum sem alþýða í landinu annast á þessum tækjum eins og það er. Ég fer þess vegna fram á að þessar brtt. okkar verði samþykktar.

Sjálfsagt er að geta þess að þær skýringar voru gefnar af deildarstjóra úr dómsmrn. að þessi ákvæði væru sett inn í frv. til samræmis við alþjóðasamning um umferðarmál og það kynni að fara svo, ef brtt. mínar og annarra þm. sem hér flytjum till. á þskj. 885 yrðu samþykktar, að Íslendingum yrði, synjað um að staðfesta þennan alþjóðasamning. Ég fyrir mína parta og við flm. þessarar brtt. viljum láta á þetta reyna. Við viljum láta á það reyna hvort við getum ekki verið nokkurn veginn fullgildir á alþjóðavettvangi þó að við höldum okkar atvinnuháttum í þessum efnum. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um brtt. á þskj. 885.

Ég vil einnig geta þess að ég er meðflm. að brtt. á þskj. 891, þar sem fyrri flm. er hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, er tekur til ákvæða um viðurlög og refsingar, en sú brtt. felur í sér að ekki verði svo sem frv. gerir ráð fyrir refsað fyrir að nota ekki bílbelti. Ég ætla ekki að orðlengja um þá till. vegna þess að fyrri flm. mun gera grein fyrir henni, en ég vil gjarnan taka það fram að hér er ekki um neitt sérviskulegt eða sérgæskulegt atriði að ræða af minni hálfu í þessum efnum þó að ég leggi þetta til vegna þess að alla jafna, nærri því alltaf nota ég bílbelti og þyrfti því ekki mjög eða a.m.k. ekki fremur en aðrir að óttast sektir þótt ég væri stöðvaður af lögregluyfirvöldum. Ég tel að í ýmsum atriðum geti svo hagað til að jafnvel gæti oltið á því hvernig fer hvort ökumaður er í belti eða ekki. Við vitum að stundum getur 1/10 úr sekúndu ráðið því hvernig fer ef slys verða og flestir munu vera lengur en 1/10 úr sekúndu að losa sig úr bílbelti. Þrátt fyrir að ég viðurkenni þá almennu staðreynd að í umferð, við skulum segja þar sein óhöpp eða slys verða flest fyrir árekstra, jafnvel útafkeyrslur við venjuleg skilyrði, séu ökumenn í flestum tilfellum betur komnir í beltum en ekki væru þó annars staðar slík tilvik. Er erfitt að átta sig á því hvernig eða hvenær hæstv. dómsmrh. þóknast að setja reglur, eins og er gert ráð fyrir, um að undanþiggja frá þessari lagaskyldu. Ég tel að þetta eigi að vinnast með áróðri, heilbrigðri skynsemi og frjálsum vilja borgaranna en setja ekki sektir við. Ég skal ekki hafa um það fleiri orð, herra forseti.

Um önnur atriði í frv. og aðrar brtt., þ.e. þær sem fluttar eru af nefndinni í heild, skal ég ekki fara mörgum orðum, enda hafa þær verið skýrðar allítarlega af frsm. nefndarinnar, hv. þm. Gunnari G. Schram. Ég vil þó segja um það efni sem ég nefndi síðast, þar sem frsm. sagði sem svo að nefndarmönnum hafi ekki þótt efni til að breyta sektarákvæðum sem ég gerði hér að umtalsefni og ég er meðflm. að till. um, að þar gilti hinn almenni fyrirvari okkar nefndarmanna við afgreiðslu málsins, en nefndin flytur ekki sameiginlega aðrar brtt. en þær sem við gátum orðið sammála um. Þetta er dálítið annað en það sem hv, þm. Gunnar G. Schram sagði, að nefndarmönnum hafi ekki þótt efni til að breyta þessum ákvæðum. Ég held að ég þurfi ekki að skýra það nánar.

En hér var sagt í máli frsm. að nefndinni hafi ekki getað unnist tóm til að kanna fullyrðingar eða skýrslur Bifreiðaeftirlitsins um að svokölluð númerabreyting hefði í för með sér 20 millj. kr. sparnað eins og þar var sagt. Ég hef auðvitað ekki heldur, fremur en nefndin í heild, kannað þetta á nokkurn máta náið. Ég rifja þó upp að þegar þessi atriði komu til umræðu og ákvörðunar Alþingis, að ég ætla á Alþingi 1981-1982, lagði sú allshn. sem þá fékk þetta mál til meðferðar undir forustu hv. þm. Ellerts B. Schram mikla vinnu í að kanna þessi fjárhagslegu atriði. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að fullyrðing um mikinn sparnað af þessari breytingu væri a.m.k. mjög umdeilanleg. Sú hv. allshn. sem þá fjallaði um þetta mál skilaði einróma áliti í þá átt að leggja til að ekki væri horfið að þessari breytingu. Hið sama gerir hv. allshn. nú. Við leggjum til að ekki verði horfið að þessari breytingu.

Ég vildi örlítið segja frá því hvernig þessi gjöld eru nú. Þá byrja ég á því að segja frá því að í fjárlögum fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs af skráningu ökutækja, þ.e. bæði nýskráningu og umskráningum, séu 94 millj. kr. Ég hef ekki greint þessa tölu í sundur, en ég vil geta þess að sumt af þessum skráningargjöldum mun halda sér þótt breytt yrði um númerafyrirkomulag.

Þegar bifreið er skráð á bifreiðaskrá í fyrsta sinn, þ.e. þegar nýskráningargjald er greitt, er gjaldið 2200 kr. Þetta mun standa áfram hvernig sem væri um fyrirkomulag númera. Þegar eigendaskipti verða á bifreið er það skráð og kostar 1100 kr. Á hinn bóginn mundu falla niður skráningargjöld fyrir umskráningu á milli héraða, en þau eru nú 1100 kr. í hvert sinn. Enn fremur mundu falla niður skráningargjöld vegna umskráningar innan sama umdæmis, t.d. þegar eitt R-númer er tekið af og annað R-númer er sett í staðinn, en slík umskráningargjöld eru nú 3300 kr. og eru langhæst. Hver einasti bifreiðaeigandi hefur það gersamlega á valdi sínu eftir núverandi kerfi hvort hann leggur í þennan kostnað eða ekki því að það er öllum frjálst til að mynda sem eru með bifreið með R-númeri að hafa hvaða R-númer sem er ef hann kýs ekki sjálfur að breyta um. Þess vegna er á valdi eigenda bifreiðanna sjálfra hvort þeir leggja í þennan kostnað sem er langveigamestur af þessum skráningargjöldum, þ.e. umskráningu innan hvers umdæmis. Ég tel að löggjöfin eigi ekki að taka þennan rétt af mönnum ef þeir sjálfir vilja leggja í þennan kostnað sem eins og áður segir er þarna veigamestur.

Ég ætla ekki að öðru leyti að rekja röksemdir með eða móti þessum númeramálum. Nefndin flytur brtt. þess efnis að hið eldra kerfi haldi sér og miðað við þær tillögur sé ég ekki ástæðu til að fjalla nánar um það efni, en fagna því að nefndin skyldi komast að þessari niðurstöðu svo sem allshn. í hv. Nd. hefur gert áður þegar slík mál hafa verið til meðferðar.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mál frekar. Ég legg enn áherslu á að brtt. okkar allmargra þm. á þskj. 885 verði samþykktar og að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem nefndin gerði tillögur um sem og við einstakir þm. úr allshn. höfum gert tillögur um.